Júlíbyltingin

Stjórnarbylting í Frakklandi í júlí 1830

Júlíbyltingin árið 1830 var önnur stjórnmálabylting Frakklands á eftir frönsku byltingunni árið 1789. Í byltingunni var nýjum konungi, Loðvík Filippusi, komið til valda og nýtt stjórnarfyrirkomulag stofnað undir nafninu „júlíríkið“. Byltingin gerðist á þremur dögum, 27., 28. og 29. júlí, sem kallaðir eru „les Trois Glorieuses“ eða „dýrlegu dagarnir þrír“ á frönsku.

Frelsið leiðir fólkið (1830) eftir Eugène Delacroix lýsir júlíbyltingunni á táknrænan hátt.

Eftir langar og hatrammar deilur við ráðherra sína og þingmenn reyndi Karl 10. konungur að hrifsa til sín frekari völd með Saint-Cloud-tilskipuninni þann 25. júlí 1830. Viðbrögðin voru slík að æstur múgur breyttist fljótt í allsherjar byltingu lýðveldissinna. Parísarbúar reistu götuvígi og réðust að konungshernum í orrustu sem kostaði um 200 hermenn líf sitt og 800 uppreisnarmenn.[1] Konungurinn og fjölskylda hans flúðu París. Frjálslyndir en konunghollir þingmenn tóku málin í sínar hendur og tókst að viðhalda þingbundnu konungsveldi með því að breyta um konungsætt.

Orléans-ætt, ættkvísl Búrbónaættar, tók því við af gömlu konungsættinni og hertoginn af Orléans var lýstur „konungur Frakka“, en ekki konungur Frakklands eins og forverar sínir, undir nafninu Loðvík Filippus.

Tilvísanir

breyta
  1. Jean-Claude Caron, La France de 1815 à 1848, Cursus Armand Collin, 2013, lire en ligne sur Google Livres.