Fornminjar í Reykholti

Fornleifauppgröftur í Reykholti hefur fyrst og fremst verið í tengslum við Snorra Sturluson og Snorralaug, sem var ein af fyrstu friðlýstu fornminjum á Íslandi. Uppgröftur hófst 1987 með fjárstyrk frá menntamálaráðuneytinu, en fjármagnið var af skornum skammti og þeim rannsóknum þurfti að hætta 1989 vegna fjárskorts. Árið 1998 hófust svo rannsóknir í framhaldi af þeim sem áður voru gerðar, en þá á vegum Þjóðminjasafns Íslands. En aðal markmið með þessum rannsóknum var að finna þeim sögufræga stað sem Reykholt er nýtt hlutverk, því þá var Héraðsskólinn í Reykholti ný aflagður og því engin starfsemi á staðnum en mikið af lausu húsnæði. Þá var tekin sú ákvörðun að koma af stað menningarsetri í tengslum við þær miðaldarannsóknir sem þar fóru fram, í þeim tilgangi hafði Snorrastofa verið stofnuð. [1] Flestar þær mannvistarleifar sem voru skoðaðar virtust allskýrar og heillegar.[2]

Snorralaug

breyta

Snorralaug var ein af tíu fyrstu friðlýstu fornminjum á Íslandi. Aðeins sögusagnir benda til að hún hafi verið í eigu Snorra Sturlusonar, en frá henni hafa legið göng að bæjarhúsinu. Fundist hafa tvær leiðslur frá hvernum Skriflu sem liggja að lauginni, önnur er eldri en hin. Laugin er líklegast frá 13. öld, en henni hefur verið haldið við á síðari ödum.[3]

Bæjarstæði

breyta

Fyrsti uppgröfturinn sem var gerður á bæjarstæði í Reykholti fór fram 1988-1989, þá átti að skoða meintan bústað Snorra Sturlusonar. Uppgröftur á sama stað var svo gerður aftur á árunum 1998-2002 á vegum Þjóðminjasafns Íslands, en þá var áherslan líka lögð á Snorragöng sem liggja frá íbúðarhúsnæðinu að Snorralaug.[4] Við uppgröft á bæjarstæðinu kom í ljós að líklega hafi mismunandi hlutar hússins verið notaðir á mismunandi hátt, en það má t.d. ætla út frá því að í vesturenda grunnsins fanst gólflag en ekki í austurendanum, þar var hinsvegar mikið af móösku. Ekki var hægt að sjá hvernig jarðgöngin hafa tengst byggingunni, en sjá mátti að veggir hússins höfðu verið reystir ofaná jarðgöngin. Aðeins norðar var annað mannvirki, eldra, þar mátti finna gólflög og veggjaleifar. Þar fannst líka útskorinn trégripur sem var tímasettur á 10. eða 11. öld. Einnig hefur verið grafinn upp gangabær frá 17. - 19.öld, en grafnir voru upp um 22 metrar af þeim göngum. Engir munir fundust til að aldursgreina, en notast var við jarðlagagreiningu. [5]

Snorragöng

breyta

Jarðgöng þessi sem liggja frá Snorralaug að bæjarstæðinu eru all löng og sveigja til norð-austurs og koma inn í suðurenda bæjarins. Þau voru að fullu uppgrafinn á síðustu árum 20.aldar og í göngunum er að finna mjög vel gerð þrep. Viðarkol fundust í göngunum og var viðurinn greindur víðir og aldursgreindur á 13. - 15.öld. og áður höfðu fundist í fyllingu ganganna viðarkol sem aldursgreind höfðu verið á 11.- 13.öld. Í göngunum fundust engir gripir nema ein vaðmálspjatla.[6]

Kirkjustæði

breyta

Sumarið 2002 hófust kannanir á fornum kirkjurústum í Reykholti og þeim var svo haldið áfram næstu ár á eftir. Talið er líklegt að kirkjan hafi staðið á sama stað frá upphafi til um 1886, en þá var hún færð. Fimm byggingarstig fundust á kirkjustæðinu, en það er allavega ljóst að leifar af mörgum stigum kirkjunnar eru á þessum stað. Yngri kirkjurnar voru ferhyrndar með langveggi úr torfi, miðaldarkirkjurnar voru hinsvegar timburkirkjur. Kirkjuskipið í miðaldarkirkjunum var breiðara en kórinn, langveggirnir voru þannig gerðir að skurður var grafinn sem var fylltur af möl og steinum, á þetta kom svo timbrið. Kirkjan sem síðast stóð á þessum stað var byggð árið 1835. Hún var rannsökuð árið 2003 og þá kom í ljós að hún var 10,9 metrar á lengd og 4,7 metrar á breidd. Langveggirnir voru úr torfi og grjóti, en timbur var í báðum þiljum, kór og tveimur stafgólfum, annarsstaðar var moldargólf. Inni í kirkjunni fundust nokkrar grafir, sumar yngri en kirkjan en aðrar eldri. Út úr suðurvegg kirkjunnar má finna gang sem hefur tilheyrt einhverju af þessum kirkjutímabilum. Ekki er vitað hvort þessi gangur hefur verið einhverskonar afdrep fyrir prestinn eða hluti af enn stærra mannvirki. Rannsóknin á kirkjustaðnum er samvinnuverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifastofnunar Íslands en hún er styrkt af Kristnihátíðarsjóði.[7]

Gripir

breyta

Flestir gripirnir sem fundust í kirkjunum fundust í gólfinu. Gripir fundust í öllum gólfum í öllum stigum kirkjunnar, mest þó í kórnum. Meðal gripa sem fundust við rannsóknir á kirkjunum eru: Gullhringur[8], brot úr ljósakrónu og veggörmum, bókarspensl, perlur, brot úr postulínspípu með upphleyptri mynd af Kristjáni IX Danakonungi, koparhnappur, gler úr skreyttum ílátum, brot úr leirílátum t.d. steinleirskönnum, perlur m.a. úr rafi, bókarspensl úr kopar, hengiskraut úr dýrum málmi, tangir og skæri úr járni, kertastjakar og pípur úr kopar.[9]

Reykholtskirkja

breyta

Þegar kirkjustæðið í Reykholti var fært árið 1886 var reist þar kirkja sem enn stendur og gengur í daglegu tali undir nafninu gamla Reykholtskirkja, en hún er elsta húsið í Reykholti og er hún nú friðuð og í vörlslu Þjóðminjasafns Íslands. Gamla kirkjan var gerð upp á árunum 2001-2006 en þá var tekið mið af upprunalegu útliti kirkjunnar. Þá var kirkjunni lyft af grunninum til að grafa fyrir steinsteyptum undirstöðum, en þá kom í ljós forn smiðja undir kirkjugólfinu. Predikunarstóllinn í kirkjunni er jafngamall henni og orgelið var keypt í Reykholt 1901.[10]

Smiðja

breyta

Smiðjan sem fannst undir kirkjugólfinu var rannsökuð af Fornleifavernd ríkisins en þar fannst heillegt eldstæði og óvenjudjúp steinþró. Úr eldstæðinu voru tekin kolasýni til aldursgreiningar og þær gáfu til kynna að smiðja þessi hafi verið frá tímabilinu 1030-1260. Það var ákveðið að eiga sem minnst við smiðjuna og er hægt að sjá hana undir gólfinu vinstramegin við innganginn í gömlu kirkjunni.[11]

Seljarannsóknir

breyta

Sel tengd Reykholti hafa verið rannsökuð. Tvö hafa verið skoðuð á Kjarardal, eitt í Faxadal, auk þess hefur landnýting á landi Reykholts í Geitlandi verið könnuð. Óvíst er hvort þar hafi verið sel, en þar var allavega mikilvægt beitiland.[12] Við uppgröft í Kjarardal á fyrsta staðnum var komið niður á hellur í nokkrum lögum í norðurhjara svæðisins, sem líktust þakhellum og torf og líklegt vegghleðslugrjót í suðurendanum. Allhá bunga var þar sem skurður var grafinn þvert í gegnum hann, í austurenda skurðarins var komið niður á grófa möl mjög fljótlega, en hún er talin hafa borist þangað með læknum þegar hann hefur skipt um farveg. Þegar neðar dró urðu veggjasteinar skýrari, en ofaná þeim var allt uppí 16 cm lag af kola- og móösku. Engin óyggjandi veggjalög fundust þvert á skurðinn, en þó fanst torflag vestast og syðst í skurðinum sem gæti hafa verið veggjalag. Einu gripirnir sem fundust á svæði eitt voru tveir naglar, og tekið var sýni af koluðum viði sem lá yfir vegghleðslu á seinna svæðinu, þar sem áður hafði verið aldursgreint. Ekkert benti þó til að kolin sem voru aldursgreind hefðu verið úr gólflagi, en óyggjandi mannvistarleifar fundust þó á þessu svæði. Þarna fundust einnig tveir naglar. Rétt norðan við svæði tvö var svo opnað þriðja svæðið, en þar fannst greinileg grjóthleðsla sem þarf að rannsaka betur.[13]

Tilvísanir

breyta
  1. Guðrún Sveinbjarnardóttir og Guðmundur H. Jónsson (1990).
  2. Guðrún Sveinbjarnardóttir (1999).
  3. Snorrastofa (2004).
  4. Snorrastofa (2004).
  5. Guðrún Sveinbjarnardóttir (2000).
  6. Guðrún Sveinbjarnardóttir (2000).
  7. Snorrastofa (2006).
  8. Snorrastofa (2004).
  9. Snorrastofa (2005).
  10. Snorrastofa (á.á.1).
  11. Snorrastofa (á.á.1).
  12. Snorrastofa (á.á.2).
  13. Guðrún Sveinbjarnardóttir (2005).

Heimildir

breyta

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta