Feisal 1. Írakskonungur

Feisal 1. bin Hússein bin Alí al-Hasjemi (arabíska: فيصل بن الحسين بن علي الهاشمي‎; 20. maí 1885 – 8. september 1933) var konungur arabíska konungsríkisins Sýrlands árið 1920 og síðan konungur Íraks frá 1921 til 1933. Hann var þriðji sonur Hússeins bin Alí, sjarífsins af Mekka, sem hafði lýst sjálfan sig konung arabaríkjanna í október árið 1916.

Skjaldarmerki Hasjemítaætt Konungur Íraks
Hasjemítaætt
Feisal 1. Írakskonungur
Feisal 1.
فيصل الأول
Ríkisár 8. mars 1920 – 24. júlí 1920 (sem konungur Sýrlands)
23. ágúst 1921 – 8. september 1933 (sem konungur Íraks)
SkírnarnafnFeisal bin Hússein bin Alí al-Hasjemi
Fæddur20. maí 1885
 Mekka, Tyrkjaveldi
Dáinn8. september 1933 (48 ára)
 Bern, Sviss
GröfKonunglega grafhýsið í Adhamiyah, Bagdad, Írak
Konungsfjölskyldan
Faðir Hussein bin Alí
Móðir Abdiyah bint Abdullah
DrottningHuzaima bint Nasser
Börn5

Feisal hvatti til samstöðu súnní- og sjíamúslima og reyndi að skapa sérstaka arabíska þjóðernishyggju sem átti að vera grunnur að nýju arabísku þjóðríki sem skyldi spanna Írak, Sýrland og allan frjósama hálfmánann. Feisal reyndi á valdatíð sinni að gæta fjölbreytni í stjórn sinni og taka tillit til margvíslegra trúarhópa og þjóðarbrota. Áhersla hans á arabíska þjóðernishyggju kann hins vegar að hafa leitt til einangrunar tiltekinna trúarhópa.

Æviágrip

breyta

Feisal fæddist árið 1885 í Mekka þar sem faðir hans, Hussein bin Alí, ríkti sem sjaríf í umboði Tyrkjasoldáns. Hann gekk í hefðbundinn tyrkneskan skóla í Istanbúl á unglingsárum sínum og var árið 1913 kjörinn á tyrkneska þingið sem fulltrúi vesturhluta Arabíuskagans.[1]

Eftir að Tyrkir fóru í stríð gegn Bretlandi árið 1914 í fyrri heimsstyrjöldinni hóf faðir Feisals bréfaskipti við breska erindreka og féllst á að gera uppreisn gegn Tyrkjum í skiptum fyrir að Bretar styddu ætt hans, Hasjemíta, sem nýja konungsætt arabísks þjóðríkis sem ætti að rísa í miðaustrinu. Arabar hófu uppreisn gegn tyrkneskum yfirráðum árið 1916 og Feisal leiddi herafla sem hertók meðal annars hafnarborgina Akaba og hélt þaðan áfram til bækistöðva Tyrkja í Palestínu og á Sínaískaga.[2]

Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk með sigri bandamanna sótti Feisal friðarráðstefnuna í París til þess að tala máli araba. Hann talaði þar fyrir því að stofnað yrði sjálfstætt þjóðríki alls fólks af arabískum uppruna og naut í þessum málum stuðnings áhrifafólks á borð við T. E. Lawrence og Gertrude Bell. Bandamenn höfðu lítinn raunverulegan áhuga á að uppfylla þau loforð sem þeir höfðu gefið aröbum, en til málamiðlunar var King-Crane-sendinefndin stofnuð til að kanna hvernig best væri að ráðstafa landsvæði Tyrkjaveldis.

Þann 8. mars árið 1920 lýstu arabar, í óþökk Evrópuveldanna, einhliða yfir stofnun sjálfstæðs arabísks konungsríkis í Sýrlandi og krýndu Feisal konung þess. Þetta sættu Frakkar, sem höfðu fengið yfirráð yfir Sýrlandi samkvæmt Sykes–Picot-samkomulaginu, sig ekki við og því steyptu þeir Feisal af stóli eftir aðeins fjögurra mánuða valdatíð í Sýrlandi og bundu enda á þetta sjálfstæða konungsríki. Bretar reyndu ekki að koma í veg fyrir að Feisal yrði bolað frá völdum, en sem nokkurs konar sárabót buðu þeir honum þess í stað að gerast konungur hins nýstofnaða Íraks. Um leið buðu Bretar bróður Feisals, Abdúlla, að gerast emír hinnar nýstofnuðu Jórdaníu, sem hafði ásamt Írak orðið til á Kaíró-ráðstefnunni árið 1921. Bretar stóðu hins vegar aldrei við loforð sitt um að færa ættföðurnum Hussein yfirráð yfir Arabíuskaga og aðhöfðust ekkert þegar Sád-ættin hrakti hann frá völdum yfir Mekka.[3]

Það var einkum návinkona Feisals, Gertrude Bell, sem hvatti til þess að hann yrði gerður að konungi í Írak. Samband þeirra stuðlaði mjög að því að Feisal tókst að festa sig í sessi sem konungur landsins og naut stjórnarfarslegs öryggis út valdatíð sína.[4]

Feisal var krýndur konungur Íraks þann 23. ágúst árið 1921[5] eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hafði farið fram um valdatöku hans. Líklegt er að atkvæðagreiðslan hafi ekki um allt farið sómasamlega fram þar eð um 96% kjósenda ku hafa samþykkt Feisal sem konung en aðeins 4% hafnað honum. Þar sem Írak átti enn engan þjóðsöng á þessum tíma var breski þjóðsöngurinn God Save the King spilaður við krýninguna, en þetta þótti mörgum vera þögul viðurkenning á því að Feisal ætti krúnu sína fyrst og fremst Bretum að þakka. Undir stjórn Feisals öðlaðist Írak þó aukið sjálfstæði árið 1932 og hlaut aðild að Þjóðabandalaginu. Írak var þó ætíð mjög háð Bretum á ríkisárum Feisals og öðlaðist í raun ekki fullt sjálfstæði fyrr en eftir írösku byltinguna árið 1958.

Á ríkisárum sínum hélt Feisal áfram að tala fyrir arabískri samstöðu og þjóðernishyggju, en hann fór þó varlegar í þessum málum en áður. Feisal var sjálfur umburðarlyndur maður, en sú stefna hans að hygla arabískri þjóðernishyggju gerði það að verkum að deilur spruttu upp á milli arabískra og kúrdískra samfélaga í Írak.[6] Árið 1933 framdi íraski herinn fjöldamorð gegn kristnum assýringum innan Íraks og átti þetta þátt í því að spilla sambandi Feisals við Breta.

Feisal lést þann 8. september árið 1933 í Bern í Sviss.[7] Opinber skýring á dauða hans var sú að hann hefði látist úr hjartaáfalli. Sonur Feisals, Gazi, tók við af honum sem konungur Íraks.

Feisal í dægurmenningu

breyta

Feisal birtist sem persóna í Hollywood-stórmyndinni Lawrence of Arabia frá árinu 1962. Hann er þar leikinn af breska leikaranum Alec Guinness.

Tilvísanir

breyta
  1. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 91.
  2. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 82.
  3. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 94.
  4. Erik Berglund (14. maí 1939). „Kona stofnar konungsríki“. Vísir Sunnudagsblað. Sótt 16. mars 2019.
  5. Rémi Kauffer (2012). La Saga des Hachémites. Éditions Perrin. bls. 454-455.
  6. Masalha, N "Feisal's Pan-Arabism, 1921–33" bls. 679–693, Middle Eastern Studies, bindi 27, tölublað # 4, október 1991 bls. 690–691.
  7. Rémi Kauffer (2012). La Saga des Hachémites. Éditions Perrin. bls. 492.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Konungur Íraks
(23. ágúst 19218. september 1933)
Eftirmaður:
Gazi