Farsóttarhúsið (eða Farsótt) er hús að Þingholtsstræti 25. Húsið hefur verið notað fyrir athvarf fyrir útigangsmenn frá árinu 1970, en húsið var upphaflega byggt sem spítali árið 1884 (aðrar heimildir segja 1883) og var aðalsjúkrahús Reykjavíkur þangað til Landakotsspítali (hinn fyrri) tók til starfa árið 1902.

Starfsemi Læknaskólans fór að mestu fram í húsinu frá árinu 1902, eða þar til Háskóli Íslands tók til starfa árið 1911. Reykjavíkurborg keypti húsið 1910 og var það notað sem íbúðarhús um tíma. En árið 1920 var því breytt í sjúkrahús sem einkum átti að vista farsóttarsjúklinga og var þá gjarnan nefnt Farsóttarhúsið eða Farsótt og hefur það nafn haldist síðan. Sú starfsemi hófst 13. febrúar það ár, en þann dag kom María Maack þar til starfa. Hún segir sjálf svo frá komu sinni að Farsóttarhúsinu í viðtali 1969:

Ég man það svo vel, að ég fór með tvo taugaveikisjúklinga aftan á flutningabíl á milli, því enginn sjúkrabíll var til þá. Ég var svo þar til haustins 1964 og veitti Farsóttarhúsinu forstöðu allan þann tíma. [1]

Á þeim árum voru taugaveiki, barnaveiki og skarlatsótt útbreiddar á Íslandi. Sú starfsemi fór fram til ársins 1930, en þá var húsið tekið til afnota fyrir berklasjúklinga. Um 1940 hefst nýtt tímabil. Þá tóku að gera vart við sig hér á landi lömunarveiki, heilahimnubólga o.fl. Árið 1949 var byggð viðbygging við húsið og þar var sundlaug sem kom að miklu gagni við lækningu þeirra sem börðust við lömunarveiki.

Þegar tókst að útrýma hinum ýmsu landlægu farsóttum skapaðist rúm fyrir aðra starfsemi í húsinu - t.d. lækningu geðbilaðra og þunglyndissjúklinga. Húsið var því um tíma bækistöð ungra lækna, og eins og segir í Morgunblaðinu 1953 „sem farið hafa inn a nýjar brautir í geðlækningum“. [2]

Nú er þar aðstaða útigangsmanna, og hefur verið frá því 1970.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Morgunblaðið 1969
  2. Morgunblaðið 1953
   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.