Engey (Kollafirði)

Engey er næststærsta eyjan í Kollafirði á eftir Viðey. Þar er nú viti sem var reistur árið 1902 en áður fyrr var búið í eynni og var þar oft margbýli. Elstu heimildir um byggð í Engey eru í Njálu. Í eynni var kirkja frá 1379 til 1765. Ríkið keypti eyjuna af síðasta ábúandanum (Sigurði Gíslasyni frá Hamraendum) eftir stríð. Eignarhaldið var síðan flutt til borgarinnar 1978. Engey er 1500 m löng, 400 metra breið og um 0,4 km2 að flatarmáli.

Kort sem sýnir örnefni í Reykjavík og nágrenni.
Engey, séð úr suðaustri.

Á 19. öld voru skipasmiðir úr Engey þekktir og svokallað Engeyjarlag á bátum varð algengasta bátalagið um allan Faxaflóa. Fremstur þessara skipasmiða var Kristinn Magnússon, sem smíðaði 220 skip og báta á árunum 1853-1875. Hann þróaði einnig seglabúnað sem varð almennur á Faxaflóasvæðinu og stundaði þilskipaútgerð í félagi við Geir Zoëga og fleiri. Búið var í eynni til 1950. Öll hús í eynni voru brennd árið 1966, enda þá grautfúin og að falli komin.

Við eyjuna er kennd Engeyjarættin, afkomendur Snorra Sigurðssonar ríka, sem bjó mjög lengi í eynni og lést þar hátt á níræðisaldri árið 1841. Til hennar heyrir til dæmis Bjarni Benediktsson, sem var forsætisráðherra frá 1963 til 1970, Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og Ragnhildur Helgadóttir fyrrverandi ráðherra.

Nokkrar hernaðarminjar eru í Engey en á árum heimsstyrjaldarinnar síðari voru þar reist virki til að verja innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn. Þar er meðal annars neðanjarðarstjórnstöð. Minjarnar þar eru betur varðveittar en víða annars staðar vegna þess að eyjan fór í eyði fljótlega eftir að stríðinu lauk.

Í sveig út frá suðurodda eyjarinnar liggur langt sker, Engeyjarboði, sem sjór rétt flýtur yfir á fjöru. Ljósbauja gegnt Reykjavíkurhöfn merkir enda boðans.

Síðasta fjölskyldan sem bjó í Engey var fjölskylda Valdemars Guðmundssonar og Öllu konu hans. Alla var gælunafn. Börnin þeirra eru Guðmundur Valdimarsson, Björn sonur Öllu, Haraldur sonur hjóna Ragna og Sigurður alsystkyn Halla.þau fluttu í land 1958 og varð Valdemar yfirfangavörður á Skólavörðustíg 9 fram yfir 1976. Þess má til gamans geta að Valdi lék í mynd Óskars Gíslasonar Bakkabræður ásamt Skarphéðni Össurarsyni föður Össurar.

Tenglar breyta