Dugga
Dugga var lítið fiskiskip sem enskir fiskimenn notuðust við til úthafsveiða í Norðursjó og við Ísland á 16. og 17. öld. Duggur voru yfirleitt með eina stórsiglu þversiglda, en hugsanlega með gaffalsegli að aftan og eina litla messansiglu aftast með loggortusegli á, og bugspjót að framan með stagseglum. Einfaldur reiðabúnaður gerði það að verkum að auðvelt var að athafna sig við borðstokkinn þegar veitt var með línu og neti. Duggur voru hlutfallslega breiðar og borðháar. Þær voru 13 tonn að stærð, um 15 metra langar og 4,5 metra breiðar. Þær drógu einn léttabát til að áhöfnin kæmist í land. Sumar voru búnar fallbyssum og notaðar sem herskip í stríði.
Sjómenn á duggum voru kallaðir „duggarar“.