Dómsdagsbókin

(Endurbeint frá Domesday Book)

Dómsdagsbókin (enska: Domesday Book) er ensk jarðabók sem gerð var fyrir Vilhjálm bastarð Englandskonung árið 1086. Jarðabókin var skráð til þess að komast að hver átti hvaða jarðeign, og hverjir skattarnir höfðu verið undir stjórn Játvarðar góða. Dómur skoðunarmanna var endanlegur og varð að lögum. Niðurstöðum þeirra var ekki unnt að áfrýja.

Blaðsíða með skráningum jarða í Warwickshire úr Dómsdagsbókinni.

Jarðabókin var skrifuð á latínu, en nokkur ensk orð voru notuð þar sem var ekki til latneskt orð. Í textanum eru margar skammstafanir. Enskt heiti bókarinnar, Domesday, er dregið af fornensku orði dom (þaðan er líka komið nútíma enska orðið doom) sem þýddi „dómur“. Þess vegna má þýða Domesday sem Dómsdagur yfir á íslensku. Þetta heiti var notað af því að úrskurður bókarinnar var endanlegur og ekki var hægt að breyta honum eftir á.

Árið 2006 var öll skráin sett á netið.

Dómsdagsbókin

breyta

Dómsdagsbókin er í raun tvö aðskilin verk. Annað þeirra kallast Litla dómsdagsbókin og nær yfir Norfolk, Suffolk og Essex. Hitt heitir Stóra dómsdagsbókin og tekur yfir aðra hluta landsins, nema þau svæði sem síðar urðu Westmorland, Cumberland, Norðymbraland og Durham-sýsla. Ekki var gerð skrá yfir eignir í London, Winchester og nokkrum öðrum bæjum, líklega vegna stærðar þeirra. Ekki var heldur gerð jarðabók yfir megnið af Westmorland og Cumberland af því að Norðmanar höfðu ekki náð þar yfirráðum þegar skráningin fór fram. Durham-sýsla er ekki í könnuninni af því biskupinn í Durham hafði einkarétt á að leggja skatt á þar og á nokkum svæðum í Norðvestur-Englandi sem voru skráð í Boldon-bókinni árið 1183 (einnig hafði biskupinn rétt til að leggja skatt á þessi svæði). Ekki er vitað af hverju hinar sýslurnar eru ekki í jarðabókinni.

Þrátt fyrir heitið Litla dómdagsbókin er hún stærri en hin bókin og inniheldur mun meiri upplýsingar, svo sem um fjölda búfjár. Tilgátur hafa verið settar fram um að Litla dómsdagsbókin sé tilraunaverk og niðurstaðan hafi orðið sú að það væri of umfangsmikið að safna svo ítarlegum upplýsingum fyrir allt landið.

Skránum í báðum bókunum er ekki raðað eftir landafræðilegri staðsetningu eða stafrófsröð, heldur nöfnum lénsherranna (sem voru eigendur jarðanna). Í hverjum kafla er fjallað um eignir konungsins og síðan kennimanna og kirkjustofnana eftir tignarröð (til dæmis kemur erkibiskupinn af Kantaraborg á undan öðrum biskupum).

Í bókinni eru 13.418 skráningar. Þetta eru aðallega jarðeignir í sveitum en einnig var safnað upplýsingum um bæi.

Könnunin

breyta

Samkvæmt Annál Engilsaxa hófst skráningin árið 1085 og vitað er að henni var lokið árið 1086. Ekki er víst hvenær bókin sjálf var sett saman, en svo virðist sem Stóra dómsdagsbókin sé skrifuð af einum manni og Litla dómsdagsbókin af sex skrifurum.

Hópur embættismanna fór í hvert skíri og héldu þar opinbera fundi þar sem kallað var eftir upplýsingum. Landinu var skipt í eftirtalda flokka:

  1. Berkshire, Hampshire, Kent, Surrey, Sussex
  2. Cornwall, Devon, Dorset, Somerset, Wiltshire
  3. Bedfordshire, Buckinghamshire, Cambridgeshire, Hertfordshire, Middlesex
  4. Leicestershire, Northamptonshire, Oxfordshire, Staffordshire, Warwickshire
  5. Cheshire, Gloucestershire, Herefordshire, Shropshire, Worcestershire
  6. Derbyshire, Huntingdonshire, Lincolnshire, Nottinghamshire, Yorkshire

Sjöundi hópurinn var svo skírin sem skráð eru í Litlu dómsdagsbókinni.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta