Cyril Ramaphosa

5. forseti Suður-Afríku

Matamela Cyril Ramaphosa (f. 17. nóvember 1952) er suður-afrískur stjórnmálamaður sem er fimmti og núverandi forseti Suður-Afríku. Hann varð forseti eftir að Jacob Zuma sagði af sér.[1] Hann hafði áður verið baráttumaður gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku, verkalýðsleiðtogi og viðskiptajöfur. Ramaphosa hafði verið varaforseti Zuma frá 2014 til 2018 og aðalræðismaður Íslands í Jóhannesarborg.[2] Hann var kjörinn forseti Afríska þjóðarráðsins (ANC) á 54. flokksþingi þess í desember árið 2017. Hann er einnig fyrrverandi formaður áætlananefndar Suður-Afríku, sem sér um framtíðaráætlanir sem miða að því að fylkja Suður-Afríkumönnum að baki „sameiginlegum markmiðum og forgangsröðun til að styrkja langtímaþróun landsins“. Ramaphosa tilheyrir Venda-þjóðarbrotinu og er fyrsti forseti landsins af því þjóðerni.

Cyril Ramaphosa
Forseti Suður-Afríku
Núverandi
Tók við embætti
15. febrúar 2018
VaraforsetiDavid Mabuza (2018–2023)
Paul Mashatile (2023–)
ForveriJacob Zuma
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. nóvember 1952 (1952-11-17) (71 árs)
Soweto, Suður-Afríku
ÞjóðerniSuður-afrískur
StjórnmálaflokkurAfríska þjóðarráðið
MakiTshepo Motsepe
Börn5
HáskóliHáskólinn í Limpópó
Háskóli Suður-Afríku

Ramaphosa hefur verið kallaður „slyngur samningamaður“.[3] Hann var helsti samningamaður Afríska þjóðarráðsins við lýðræðisvæðingu Suður-Afríku. Ramaphosa byggði upp stærstu og voldugustu verkalýðssamtök í Suður Afríku, Þjóðarsamband námuverkamanna (National Union of Mineworkers eða NUM). Hann lék lykilhlutverk ásamt Roelf Meyer úr Þjóðarflokknum í að semja um friðsamleg endalok aðskilnaðarstefnunnar og fyrstu lýðræðislegu kosningar landsins árið 1994. Nelson Mandela mælti með Ramaphosa sem eftirmanni sínum á forsetastól landsins en talið er að hann hafi að endingu látið undan þrýstingi og valið Thabo Mbeki sem eftirmann sinn þótt Ramaphosa hafi notið meiri almannahylli.[4] Ramaphosa er kunnur viðskiptajöfur og talið er að auðæfi hans nemi um 6,4 milljónum suður-afrískra randa. Hann hefur meðal annars verið eignaraðili í McDonald's-skyndibitakeðjunni í Suður-Afríku, framkvæmdastjóri fjarskiptafyrirtækisins MTN Group og meðlimur í framkvæmdastjórn fyrirtækisins Lonmin.

Þrátt fyrir að hafa getið sér góðan orðstír með hlutverki sínu í lýðræðisvæðingu landsins hefur Ramaphosa einnig verið gagnrýndur fyrir viðskiptahætti sína. Þessi gagnrýni hefur þó aldrei leitt til ákæra á hendur honum fyrir ólöglegt athæfi. Ramaphosa hefur meðal annars verið sakaður um að hagnast á ólöglegan máta á kolasölu ásamt fyrirtækinu Glencore. Sem meðlimur í framkvæmdastjórn Lomnin var hann einnig gagnrýndur fyrir að kalla á eftir aðgerðum gegn verkfalli námuverkamanna árið 2012, stuttu áður en ríkisstjórnin beitti ofbeldi til að brjóta niður verkfallið.[5]

Frá því að Ramaphosa varð forseti hefur hann lagt áherslu á landeignarumbætur í Suður-Afríku.[6] Þrátt fyrir lok aðskilnaðarstefnunnar er mikill meirihluti besta ræktarlandsins í Suður-Afríku í enn höndum hvíta minnihlutans. Þessi misskipting er mörgum Suður-Afríkumönnum bitbein og líta þeir á þetta sem arfleifð kynþáttamismununar aðskilnaðartímans. Stefna Ramaphosa hefur verið sú að gera breytingar á stjórnarskrá landsins til þess að leyfa ríkisstjórninni að taka jarðir hvítra landeigenda eignarnámi án endurgjalds.[6] Stefna Ramaphosa er ekki óumdeild og hefur Thabo Mbeki, fyrrverandi forseti landsins, meðal annars gagnrýnt stefnubreytinguna.[7]

Í kosningum í stjórnartíð Ramaphosa árið 2024 tapaði Afríska þjóðarráðið hreinum þingmeirihluta sínum í fyrsta skipti frá lokum aðskilnaðarstefnunnar en var þó áfram stærsti flokkurinn á þingi. Fylgishrun ANC skýrðist meðal annars vegna klofningsframboðs Jacobs Zuma, sem hafði sagt sig úr flokknum eftir málaferli gegn honum.[8] Ramaphosa var engu að síður endurkjörinn forseti með aðstoð Lýðræðisbandalagsins, sem myndaði „stjórn þjóðarsáttar“ með ANC.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. „Zuma sagði af sér í skugga vantrausts“. Vísir. Sótt 23. júlí 2018.
  2. „Íslandsvinur kjörinn leiðtogi ANC“. mbl.is. 18. desember 2017. Sótt 4. október 2018.
  3. Kristinn Valdimarsson (27. febrúar 2018). „Kongó rambar á barmi borgarastyrjaldar“. Varðberg. Sótt 4. október 2018. „Það væri líka mjög jákvætt ef nýr forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, tæki að sér friðarumleitanir í landinu en hann þykir slyngur samningamaður en hann var einn þeirra sem batt enda á aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku og einnig kom hann að friðarferlinu á Norður-Írlandi.
  4. „Er líf Thabos Mbekis forseta í hættu?“. mbl.is. 3. maí 2001. Sótt 4. október 2018.
  5. David Smith (24. október 2018). „Lonmin emails paint ANC elder as a born-again robber baron“ (enska). The Guardian. Sótt 4. október 2018.
  6. 6,0 6,1 „Samþykkja eignarnám lands án bóta“. Viðskiptablaðið. 1. ágúst 2018. Sótt 4. október 2018.
  7. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (25. september 2018). „Mbeki gagnrýnir stefnubreytingu ANC“. RÚV. Sótt 4. október 2018.
  8. Hallgrímur Indriðason (1. júní 2024). „Versta útkoma Afríska þjóðarráðsins í 30 ár“. RÚV. Sótt 2. júní 2024.
  9. Ólöf Ragnarsdóttir (14. júní 2024). „Ramaphosa verður áfram forseti Suður-Afríku“. RÚV. Sótt 23. júní 2024.


Fyrirrennari:
Jacob Zuma
Forseti Suður-Afríku
(15. febrúar 2018 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti