Christian C. A. Lange

Christian C. A. Lange (fullt nafn Christian Christoph Andreas Lange) (f. 13. ágúst 1810 í Bærum, d. 10. maí 1861 í Kristjaníu) var norskur sagnfræðingur og ríkisskjalavörður.

Christian C. A. Lange

Christian C. A. Lange missti föður sinn tveggja ára gamall og ólst upp í mikilli fátækt, en komst þó til mennta í Dómkirkjuskólanum í Kristjaníu. Hann hóf nám í guðfræði 1827, en komst brátt undir verndarvæng frænda síns, Rudolfs Keysers, sem síðar varð prófessor í sagnfræði. Ásamt þeim P. A. Munch og C. R. Unger, áttu þeir Keyser og Lange eftir að mynda kjarnann í þeim kraftmikla hópi sagnfræðinga sem lagði grunninn að faglegum sagnfræðirannsóknum í Noregi.

Christian Lange tók embættispróf í guðfræði 1833, og starfaði fyrst við kennslu, m.a. í norskri sögu og landafræði. Þegar Henrik Wergeland féll frá, 1845, var Lange skipaður ríkisskjalavörður, og gegndi því embætti til æviloka, 1861. Átti hann stóran þátt í að endurskipuleggja Norska ríkisskjalasafnið, sem stofnað hafði verið 1818. Hann tók þátt í samningum við Dani, sem lauk með samkomulagi 13. september 1851, um að mikilvæg skjöl um sögu Noregs yrðu afhent úr dönskum söfnum.

Þeir Christian Lange og Carl Richard Unger unnu ásamt fleirum skipulega að því að leita uppi skinnblöð úr miðaldahandritum, sem leyndust víða í gömlu bókbandi í Ríkisskjalasafninu. Kom í ljós að á fyrri hluta 17. aldar höfðu embættismenn víða um Noreg rifið niður gömul handrit og notað blöðin í band utan um skjalabækur sínar. Þessi skinnblöð gefa dýrmæta sýn inn í norsk-íslenska bókmenningu á miðöldum.

Lange átti frumkvæði að ýmsum fræðilegum verkefnum, tímaritum og félögum á sviði sagnfræðirannsókna. Árið 1847 hóf hann ásamt Carl Richard Unger, útgáfu á Norska fornbréfasafninu, Diplomatarium Norvegicum, og átti þátt í útgáfu fyrstu fimm bindanna. Hann gaf út 2. bindi af Norske Samlinger, og fyrsta bindi af Norske Rigsregistranter 1523-1660. Einnig átti hann þátt í Norsk Forfatter-lexikon 1814-1856.

Auk heimildaútgáfu samdi Lange eitt umtalsvert sagnfræðirit, um Norsku klaustrin á miðöldum. Verkið var byggt á eigin heimildavinnu og ferðum um Noreg og Evrópu.

Í Ósló er gata sem ber nafn hans, Langes gate.

Christian Lange giftist 1836, Maren Kristine Breda (1816-1894). Meðal afkomenda þeirra var Christian Lous Lange (1869-1938), sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1921, og Halvard Lange (1902-1970), utanríkisráðherra Noregs.

Rit og útgáfur breyta

Tenglar breyta

Heimildir breyta

  • Norsk biografisk leksikon 5, Oslo 2002.