Carlos Vidal Lepe, oft kallaður El Zorro, (f. 24. febrúar 1902 - d. 7. júní 1982) var knattspyrnumaður frá Síle. Hann skoraði fyrsta HM-mark landsliðs síns á HM 1930 og tók þátt í frægri keppnisför með félagsliði sínu árið 1933.

Carlos Vidal, El Zorro.

Ævi og ferill

breyta

Carlos Vidal fæddist í borginni Valdivia í sunnanverðu Síle. Hann hóf ungur að spila knattspyrnu en íþróttin var skammt á veg komin í landinu. Þótt landsliðið væri eitt hinna eldri í Suður-Ameríku var deildarkeppni ekki tekin upp fyrr en árið 1933 þegar atvinnumennska var viðurkennd. Heimildir eru því brotakenndar um þróun fótboltans í Síle á þriðja áratugnum.

Árið 1930 mætti Síle til leiks á HM í Úrúgvæ eftir að hafa ekki keppt landsleik frá því á ólympíuleikunum tveimur árum fyrr. Vidal var í landsliðshópnum í fyrsta sinn og skoraði fyrsta og þriðja mark sinna manna í 3:0 sigri á Mexíkó í fyrsta leik. Þar með varð hann fyrsti markaskorari Síle í sögu HM. Í næsta leik unnu Sílemenn Frakka en mættu loks ofjörlum sínum í liði Argentínu. Vidal tók þátt í báðum leikjum en náði ekki að skora, þrátt fyrir að hafa fengið vítaspyrnu á móti Frökkum.

Í lista yfir keppendur Síle á mótinu er Vidal sagður leikmaður Federico Schwager (síðar Lota Schwager) frá Coronel í Suður-Síle. Nær allir aðrir leikmenn liðsins komu frá liðum í Santíagó og nágrenni, þar af nærri helmingurinn frá Colo-Colo. Síðar á árinu 1930 var Vidal genginn til liðs við Colo-Colo og lék þar um hríð.

Á árinu 1933 var Vidal kominn í raðir Audax Italiano, félags sem stofnað hafði verið af ítalska samfélaginu í Santíagó. Það ár réðst Audax Italiano í magnaða keppnisferð: þriggja Ameríku-leiðangurinn (spænska: gira por las tres Américas). Ferðalagið tók marga mánuði frá janúar og fram í október. Á leiðinni lék liðið fjörutíu kappleiki í Suður-, Mið- og Norður-Ameríku og vann 31 þeirra. Skipulag ferðarinnar var fremur laust í reipunum og virtist upphaflega áætlunin hafa verið að fara í hreina heimsreisu og keppa líka í Evrópu og Asíu.

Ferðalagið vakti mikla athygli í Síle og jók hróður leikmannana. Í kjölfarið fékk stórliðið Deportes Magallanes Vidal í raðir sínar fyrir 17 þúsund pesóa, sem talið var svimandi upphæð. Hann varð síleskur meistari árin 1934 og 1935 með Magallanes.

Eftir fimm ára hlé kom sílenska landsliðið næst saman á Copa America sem fram fór í Perú árið 1935. Þar tapaði liðið öllum þremur leikjum sínum og Vidal tókst ekki að skora. Þetta voru síðustu landsleikir hans. Vidal lést í Penco árið 1982.

Heimildir

breyta