Camilo José Cela

Spænskur rithöfundur (1916-2002)

Camilo José Cela y Trulock, 1. markgreifinn af Iria Flavia (11. maí 1916 – 17. janúar 2002) var spænskur rithöfundur sem var tengdur við bókmenntahreyfingu „36-kynslóðarinnar“ svokölluðu (sp. Generación del 36), sem var virk á tíma spænsku borgarastyrjaldarinnar. Hann vann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1989 fyrir „ríkan og kraftmikinn prósa sem hefur með tregablandinni alúð varpað fram ögrandi sýn á varnarleysi mannsins.“[1]

Camilo José Cela
Camilo José Cela
Fæddur: 11. maí 1916
Iria Flavia, Galisíu, Spáni
Látinn:17. janúar 2002 (85 ára)
Madríd, Spáni
Starf/staða:Rithöfundur, smásagnahöfundur, greinahöfundur
Þjóðerni:Spænskur
Bókmenntastefna:Feiknarstefna (sp. Tremendismo)
Þekktasta verk:Paskval Dvarte og hyski hans (1942)
Býkúpan (1950)
Maki/ar:María del Rosario Conde Picavea (g. 1944–sk. 1990)
Marina Concepción Castaño López (g. 1991–2002)

Æviágrip

breyta

Camilo José Cela fæddist árið 1916 í þorpinu Iria Flavia í Galisíu. Árið 1925 flutti fjölskylda hans til Madríd, þar sem Cela hóf háskólanám í bókmenntum. Eftir að spænska borgarastyrjöldin skall á árið 1936 skráði Cela sig í þjóðernisher Francisco Franco hershöfðingja en gerði það seint og um síðir, þegar ljóst þótti hver myndi vinna stríðið. Cela barðist ekki lengi í styrjöldinni en varð á þeim tíma fyrir meiðslum og fékk því vottorð frá spítala um að hann væri ekki lengur hæfur til átaka.[2]

Þann 30. mars árið 1938 skrifaði Cela bréf þar sem hann sótti um stöðu hjá leyniþjónustu Francos. Hann bauðst til þess að njósna um rauðliða og menntamenn í höfuðborginni og benti á að hann hefði búið þar í þrettán ár og þekkti þar til staðhátta. Bréfinu var aldrei svarað og Cela fékk því ekki starfið. Eftir sigur þjóðernissinna í styrjöldinni hóf Cela að birta ritverk sín, fyrst á vettvangi höfunda sem voru hlynntir fasistastjórn Francos. Hann fékk einnig vinnu sem ritskoðandi hjá stjórninni og vann við að ritskoða tímarit.[2]

Á svipuðum tíma vann Cela að skáldsögunni Paskval Dvarte og hyski hans (sp. La familia de Pascual Duarte), sem kom út árið 1942 hjá litlu forlagi í Burgos og vakti fljótt mikla athygli. Þrátt fyrir hollustu Cela við stjórn Francos var Paskval Dvarte fyrst um sinn bönnuð á Spáni og var aðeins birt í Argentínu. Spænsk yfirvöld neyddust til að taka bókina af bannlista árið 1946 vegna þess hve mörgum eintökum hennar hafði verið smyglað til Spánar.[3] Ásamt bókinni Býkúpunni (sp. La colmena), sem kom út árið 1950, var bókin talin eitt meistaraverka spænskra bókmennta á 20. öld og voru bæði verkin með vinsælustu verkum Cela.[2]

Árið 1956 stofnaði Cela bókmenntatímaritið Papeles de Son Armadáns, sem varð eitt áhrifamesta tímarit sinnar tegundar á Spáni. Cela ritstýrði tímaritinu og þrátt fyrir að vera stuðningsmaður Francos birti hann þar verk eftir spænska höfunda sem höfðu farið í útlegð frá heimalandinu. Með rekstri tímaritsins ávann Cela sér nokkra virðingu meðal vinstrisinnaðari rithöfunda Evrópu.[2]

Cela varð með tímanum frægur og umdeildur fyrir ögrandi ummæli sem hann var vanur að gefa frá sér. Meðal annars lét hann eitt sinn þau orð falla að minningarhátíð um skáldið Federico García Lorca hefði verið „óttaleg hommahátíð“ og að hann „hefði ekkert á móti hommum, hann léti bara ekki taka sig í rassinn.“ Hann sagði yngri kynslóðir spænskra rithöfunda ómerkilegar og skorta sjálfsvirðingu og gagnrýndi þær fyrir að taka við styrkjum frá ríkisstjórnum Sósíalistaflokksins eftir endalok einræðisins. Hann fór einnig illum orðum um spænsku Cervantes-verðlaunin, sem Cela hafði þá ekki unnið, og sagðist vera yfir þau hafinn, en tók þó við þeim nokkrum árum síðar.[2]

Camilo José Cela lést þann 17. janúar 2002 og var grafinn í fæðingarbæ sínum, Iria Flavia.[2]

Einkahagir

breyta

Árið 1991 skildi Cela við eiginkonu sína til margra áratuga, Maríu del Rosario Conde Picavea, og kvæntist sér mun yngri konu, rithöfundinum Marinu Castaño. Hinni nýju eiginkonu Cela var ekki vel við fjölskyldu hans og eftir dauða hans áttu þau í deilum um það hver myndi erfa markgreifanafnbót hans, sem rann að endingu til elsta sonar Cela.[2]

Stílbrögð í verkum Cela

breyta

Cela varð snemma fyrir áhrifum frá píkareskum skáldsögum. Áhrifin birtust meðal annars í bókinni Paskval Dvarte og hyski hans, sem var ádeilusaga með áherslu á spænska einstaklingshyggju og sjálfstæðisþráhyggju sem nærist á vanþekkingu. Hugtakið tremendismo var fundið upp til að lýsa bókmenntastefnu Cela en hann mótmælti sjálfur þeirri lýsingu.[4] Tremendismi, sem hefur verið þýtt sem „feiknarstefna“, vísar til ómengaðs raunsæis og harðsoðinnar frásagnar í verkum Cela. Stefnan einkennist af óhugnaði, harðneskju og umfjöllun um viðfangsefni sem flestir vilja heldur þegja um.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. „Nobel Prize in Literature 1989“. Nóbelsstofnunin. Sótt 1. nóvember 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 Hermann Stefánsson (25. október 2003). „Og hvað á líkið að heita?“. Morgunblaðið. bls. 4-5.
  3. „„Paskval Dvarte og hyski hans". Tíminn. 8. febrúar 1989. bls. 13.
  4. „Býflugnabúið í Madríd“. Morgunblaðið. 18. janúar 2002. bls. 23.
  5. Gabi Gleichmann (20. október 1989). „Bersögull brautryðjandi í spænskum bókmenntum“. Morgunblaðið. bls. 20-21.