Píkareska skáldsagan

Píkareska skáldsagan (spænsku: la novela picaresca) er tegund evrópskrar bókmenntagreinar sem í upphafi var skáldsaga um léttlynda og bragðvísa persónu sem lendir í hinum ýmsu ævintýrum. Á íslensku hefur þessi bókmenntagrein verið nefnd hrekkja- og prakkarasaga eða grallarasaga, prakkarasaga eða skelmissaga. Ekkert eitt heiti hefur enn fest sig í sessi.

Stutt yfirlit

breyta

Píkaresk skáldsaga hefur með tíð og tíma fengið víðari merkingu og er haft um skáldsögur sem eru litaðar af uppátækjasemi og skrautlegum lýsingum. Jafn ólíkar bækur og Birtingur eftir Voltaire og Skræpótti fuglinn eftir Jerzy Kosiński hafa stundum verið settar í þennan flokk. Bækur sem flokkast undir prakkarasöguna eru oft sögur um andhetjur, menn sem eru á einhvern hátt óæðri (litið til stéttar, virðingar o.s.frv.) en þeir sem eru í kringum þá. En vegna skelmiseiginda í upplagi þá láta persónur prakkarasagna fátt á sig bíta og gefast ekki upp hvað sem yfir dynur. Þetta er þó ekki einhlýtt, því stundum er sagan aðeins fjörleg saga um persónu sem lendir í furðulegum ævintýrum. Föst skilgreining er illfinnanleg.

Orðsifjafræði

breyta

Uppruni orðsins pícaro "pörupiltur; skálkur", sem haft er að viðurnefni og um persónur þær, sem kom fram í þessum prakkarasögum, er á einum stað sögð skyld spænsku sögninni picar, en hún jafngildir þeirri íslensku að pikka: það er að segja maður sem pikkar eða kroppar - hnuplar; gæti sú skýring vel átt við el pícaro í þeirri sögu sem fyrst telst til þessa bókmenntagreinar.

Fyrsta prakkarasagan

breyta

Sú bók sem er talin setja rásina fyrir prakkarasöguna er Lazarus frá Tormes (Lazarillo de Tormes) eftir ókunnan rithöfund og sem út kom í Burgos 1554. Vissulega má benda á að Satýrikon eftir Petróníus eða Gullasninn eftir Apuleius geti talist til þessarar bókmenntagreinar, og sjálfsagt má fara enn lengra aftur, en það er með Lazarus frá Tormes sem hún verður til sem grein, fær vængi og tekur flug. Nokkrum mánuðum eftir að Lazarus kom út í Borges birtist hún aftur, aukin nokkrum innskotsþáttum, í Alcala de Henares. Og eftir það í allavega útgáfum.

Þróun prakkarasögunnar

breyta

Sagan um Lazarus var snemma þýdd á aðrar tungur, og innan tíðar breiddist hið nýja skáldsöguform út um Evrópu eins og eldur í sinu. Hafði hún áhrif á franskan, þýskan og enskan skáldskap og má þar nefna bækur eins og Tom Jones eftir Henry Fielding og Simplicius Simplicissimus eftir Hans Jakob Christoffel von Grimmelshausen. Saga Lazarusar hafði töluverð áhrifa á Miguel de Cervantes og hann skrifaði söguna Króksi og Skerðir (Rinconete y Cortadillo) undir áhrifum frá Lazarusi, og finna má píkareskt handbragð á Don Kíkóta. Nýlegar skáldsögur sem flokkast gætu undir prakkarasögur eru: Pascual Duarte og hyski hans eftir Camilo José Cela og Blikktromman eftir Günter Grass.

Heimildir

breyta