Borgaraflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður af Alberti Guðmundsyni en hann klofnaði frá Sjálfstæðisflokknum árið 1987 í kjölfar Hafskipsmálsins. Alberti var gert að segja af sér sem iðnaðarráðherra árið 1985 af forystu Sjálfstæðisflokksins og því stofnað Albert flokkinn árið 1987.

Borgaraflokkurinn
Formaður Albert Guðmundsson (1987–1989)
Júlíus Sólnes (1989–1994)
Stofnár 1987
Lagt niður 1994
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Hægristefna, lýðhyggja, umhverfisvernd, frjálslyndi
Listabókstafur S
Borgaraflokkurinn var líka heiti á kosningabandalagi Sparnaðarbandalagsins og Sjálfstæðisflokksins eldra fyrir kosningarnar 1923.

Borgaraflokkurinn náði sjö þingmönnum í kosningunum 1987. Meðal þeirra voru feðgarnir Albert Guðmundsson og Ingi Björn Albertsson.[1] Albert og Ingi Björn eru einu feðgarnir, sem hafa setið samtímis á Alþingi.

Aðrir þingmenn Borgaraflokksins voru Guðmundur Ágústsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Júlíus Sólnes, Hreggviður Jónsson og Óli Þ. Guðbjartsson.

Árið 1989 gerðist Albert sendiherra í París og í framhaldi af því ákvað flokkurinn, undir formennsku Júlíusar Sólnes, að taka þátt í vinstriríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ásamt Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Ráðherrar flokksins urðu Júlíus Sólnes, sem var fyrsti umhverfisráðherrann og Óli Þ. Guðbjartsson, sem var dómsmálaráðherra.

Við það sögðu tveir þingmenn flokksins (Ingi Björn Albertsson og Hreggviður Jónsson) sig úr honum og mynduðu eigin flokk, sem nefndist Frjálslyndi hægri flokkurinn og gekk hann nokkru síðar inn í Sjálfstæðisflokkinn árið 1990.

Borgaraflokkurinn bauð fram í kosningunum 1991 en þó ekki undir eigin nafni heldur sem „Frjályndir“ og með listabókstafinn F. Að framboðinu komu einnig einstaklingar sem ekki voru í Borgaraflokknum, meðal annars formaðurinn Júlíus.[2] Framboðið náði ekki inn manni inn með einungis 1,2% atkvæða og var Borgaraflokkurinn lagður niður árið 1994.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Hagstofan“.
  2. „Borgaraflokkurinn gerist Frjálslyndur“. Þjóðviljinn. 27. mars 1991. bls. 7. Sótt 26. júní 2024.