Borgaraflokkurinn (eldri)

Borgaraflokkurinn (eldri) var kosningabandalag borgaralegu aflanna fyrir Alþingiskosningarnar 1923. Það leiddi til stofnunnar Íhaldsflokksins.

Stofnun Alþýðuflokks og Framsóknarflokks árið 1916 markaði upphaf stéttastjórnmála á Íslandi. Það ýtti á borgaraleg, hægrisinnuð öfl að sameina krafta sína, en þau voru skipt upp í nokkrar fylkingar sem endurspegluðu flokkadrætti í sjálfstæðismálinu.

Hópur Alþingismanna, einkum úr Heimastjórnarflokki, höfðu árið 1920 myndað Sparnaðarbandalagið og gengu meðlimir þess í eina sæng með Sjálfstæðisflokki fyrir þingkosningarnar 1923. Ekki var um eiginlega kosningastefnuskrá að ræða og var megintilgangurinn að koma í veg fyrir að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur gætu náð meirihluta. Helstu forystumenn kosningabandalagsins voru Jón Magnússon, Jón Þorláksson og Magnús Guðmundsson, en Morgunblaðið var helsta málgagnið.

Borgaraflokkurinn fékk meira en helming atkvæða og 25 þingmenn kjörna. Eftir kosningarnar stóð vilji til þess að breyta bandalaginu í formlegan stjórnmálaflokk, Íhaldsflokkinn. Það tókst þó ekki að öllu leyti þar sem fimm þingmenn vildu ekki ganga til liðs við hinn nýja flokk.

Tilvísanir og heimildir

breyta
  • Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0293-9.