Björn Þorleifsson hirðstjóri
Björn ríki Þorleifsson (um 1408–1467) var hirðstjóri, riddari og bóndi á Skarði á Skarðsströnd.
Björn var sonur Þorleifs Árnasonar sýslumanns á Auðbrekku í Hörgárdal, í Glaumbæ í Skagafirði og síðast í Vatnsfirði, og konu hans Vatnsfjarðar-Kristínar, dóttur Björns Jórsalafara Einarssonar. Kona hans var Ólöf ríka, dóttir Lofts Guttormssonar riddara, og voru þau auðugustu hjón á Íslandi.
Þegar biskupslaust var í Skálholti um miðja 15. öld eftir lát Goðsvins biskups, en Marcellus eftirmaður hans kom aldrei til landsins, gerðist Björn ásælinn í eigur stólsins og rændi þær og ruplaði. Kristján 1. Danakonungur, Hinrik erkibiskup í Niðarósi og Marcellus Skálholtsbiskup sendu harðorð bréf til landsins sumarið 1453 og hallmæltu mjög þeim sem rændu kirkjur eigum sínum. Fékk Gottskálk Hólabiskup umboð frá konungi til að reka Björn af eigum Skálholtsstóls og krefja hann reikningsskila, en bannfæra hann ella. Björn gerði þá sætt við biskup og virðist allt hafa fallið í ljúfa löð.
Um 1455 héldu Björn og Ólöf kona hans í utanför en lentu í hrakningum og við Orkneyjar réðust skoskir sjóræningjar á skipið, rændu hjónunum og fluttu þau til Skotlands. Kristján 1. Danakonungur greiddi lausnargjald fyrir þau og fóru þau síðan til Danmerkur og fengu góðar viðtökur. (Björn Þorsteinsson sagnfræðingur hefur raunar dregið sannleiksgildi þessarar sögu mjög í efa og getið þess til að hún kunni jafnvel að vera uppspuni sem Björn, konungur og Marcellus biskup hafi soðið saman af pólitískum ástæðum.)
Björn fékk þá riddaranafnbót, var gerður að hirðstjóra yfir öllu Íslandi og falið það hlutverk að hefta ólöglega verslun Englendinga á Íslandi. Þegar þau hjón komu heim hófu þau þegar að sinna þessu hlutverki, fóru um landið með sveina sína og ráku Englendinga burtu og gerðu fé þeirra upptækt. Árið 1467 sló í bardaga milli Björns og manna hans annars vegar og Englendinga frá Lynn hins vegar á Rifi á Snæfellsnesi, þar sem Englendingar höfðu verslun, og lauk honum þannig að Björn var drepinn ásamt nokkrum mönnum sínum en Þorleifur sonur þeirra hjóna tekinn til fanga. Ólöf keypti Þorleif lausan og er sögð hafa hefnt Björns grimmilega.
Börn þeirra Björns og Ólafar voru Þorleifur hirðstjóri, Árni, sem var hermaður í þjónustu Kristjáns 1. og féll í orrustunni við Brunkeberg í Svíþjóð 1471, Einar jungkæri á Skarði, sem dó erlendis 1493 og hafði átt að vera hirðstjóri, að því er segir í annálum, og Solveig húsfreyja á Skarði, kona Páls Jónssonar sýslumanns. Björn átti líka nokkur launbörn, þar á meðal Þóru móður Björns Guðnasonar í Ögri.
Heimildir
breyta- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Tenglar
breyta- Þekkirðu landið þitt?; grein í Morgunblaðinu 1965
- Skriftamál Ólafar ríku Loptsdóttir; grein í Morgunblaðinu 1981
- Fyrir 400 árum; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1942
- Björnssteinn; grein af Hellissandi.is Geymt 20 maí 2009 í Wayback Machine
Fyrirrennari: Torfi Arason |
|
Eftirmaður: Hinrik Kepken |