Knattspyrnudeild Vestra
Knattspyrnudeild Vestra er knattspyrnudeild Íþróttafélagsins Vestra í Ísafjarðarbæ.[1] Félagið var stofnað árið 1986 sem deild innan Badmintonfélags Ísafjarðar (BÍ) og tók þátt í 3. deild karla það ár.[2] Árið 1988 lagðist meistaraflokkur karla hjá Íþróttabandalagi Ísafjarðar niður og færðust flestir leikmennirnir yfir til BÍ. Í kjölfarið fylgdi meistaraflokkur kvenna hjá ÍBÍ með og hafði BÍ því tekið við af ÍBÍ sem stærsta knattpsyrnuliðið á Vestfjörðum. Eftir þessar tilfæringar tók liðið upp nafnið BÍ'88.[3] Á árunum 2006 til 2016 tefldi það fram sameiginlegu liði með Ungmennafélagi Bolungarvíkur undir heitinu BÍ/Bolungarvík.[4] Árið 2016 gekk Boltafélagið inn í nýstofnað Íþróttafélagið Vestra og varð að knattspyrnudeild þess.[5][6][7]
Knattspyrnudeild Vestra | |||
Fullt nafn | Knattspyrnudeild Vestra | ||
Gælunafn/nöfn | Djúpmenn | ||
---|---|---|---|
Stytt nafn | Vestri | ||
Stofnað | 1986 sem Badmintonfélag Ísafjarðar 1988 sem BÍ88 2006 sem BÍ/Bolungarvík 2016 sem Vestri | ||
Leikvöllur | Torfnesvöllur | ||
Stærð | 800 | ||
Stjórnarformaður | Samúel Samúelsson | ||
Deild | 1. deild karla | ||
2023 | 4. 1. deild karla | ||
|
Meistaraflokkur karla
breytaSaga
breytaBadmintonfélag Ísafjarðar (BÍ) hóf keppni í Vestfjarðariðli Íslandsmótsins í knattspyrnu sumarið 1986. Í kappliði þess var meðal annars að finna ýmsar gamlar kempur úr liði ÍBÍ frá fyrri árum.[2] Fyrstu tvö árin hafnaði liðið um miðja deild en allar forsendur breyttust árið 1988 þegar meistaraflokkur ÍBÍ var lagður niður og leikmennirnir gengu allir til liðs við BÍ. Um leið tók félagið upp nafnið BÍ ´88, sem gaf til kynna að litið væri svo á að 1988 væri nýtt stofnár félagsins.
BÍ ´88 fór upp um deild í fyrstu tilraun og varð deildarmeistari eftir sigur á Austra Eskifirði í úrslitaleik. Við tók þriggja ára dvöl í þriðju efstu deild. Fyrsta árið tókst Ísfirðingum að halda sæti sínu sem þótti vel að verki staðið þar sem fallið var frá því að keppa í tveimur landshlutariðlum og liðum fækkað í tíu. Árið eftir var BÍ ´88 einu sæti frá því að falla eftir æsilegt einvígi við Einherja frá Vopnafirði. Sumarið 1991 gekk hins vegar allt að óskum og Ísafjarðarliðið hafnaði í öðru sæti á eftir Leiftri Ólafsfirði og var komið í næstefstu deild.
Sjöunda sætið varð niðurstaðan sumarið 1992, en róðurinn reyndist þyngri á öðru ári félagsins í deildinni og haustið 1993 höfnuðu Ísfirðingar í næstneðsta sæti, stigi á eftir ÍR-ingum og féllu niður um deild. Eftir bærilega frammistöðu sumarið 1994 lentu Ísfirðingar í miklum vandræðum á sínu seinna ári í þriðju deildinni og enduðu sumarið 1995 í neðsta sæti og voru á ný komnir í neðstu deild.
Það voru Haukar sem féllu með Ísfirðingum og árið eftir var það Hafnarfjarðarliðið sem sló BÍ ´88 út úr úrslitakeppni fjórðu deildar. Þetta reyndist síðasta BÍ ´88 sem var komið í fjárhagslegt þrot. Félagið sendi því ekki lið til keppni sumarið 1997, en leikmenn gengu flestir til liðs við Knattspyrnufélagið Erni sem hóf þátttöku á Íslandsmóti árið áður.
Ernir komust í úrslitakeppni deildarinnar árið 1997 en féllu þar úr leik fyrir Ármenningum. Árið 1998 gengu nokkrir lykilmenn úr Ísafjarðarliðinu til liðs við Bolvíkinga, sem gerðu atlögu að því að komast upp um deild. Það mistókst naumlega en í kjölfarið kviknuðu umræður um að sameina kapplið bæjanna tveggja. Með sameiningu meistaraflokks Ungmennafélags Bolungarvíkur og Knattspyrnufélagsins Ernis sumarið 1999 varð til KÍB, Knattspyrnufélag Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Hið sameinaða lið komst upp um deild strax í fyrstu tilraun eftir að hafa lent í öðru sæti á eftir Aftureldingu.
Tilveran í næstu deild fyrir ofan reyndist erfiðari. KÍB hélt sér naumlega uppi sumarið 2000 en kolféll árið eftir með markatöluna 27:71. Í kjölfarið var ákveðið að slíta samstarfi félaganna tveggja. Bolvíkingar sendu sitt eigið lið til keppni sumarið 2002 og Boltafélag Ísafjarðar var endurvakið. Árin 2002-5 hafnaði BÍ einatt um eða fyrir neðan miðju í sínum riðli í deildinni.
Rýr uppskera Vestfjarðaliðanna varð til þess að ákveðið var að ráðast í nýja sameiningartilraun fyrir sumarið 2006. BÍ/Bolungarvík, sem stundum var kallað Djúpmenn eða einfaldlega „skástrikið“ af gárungum byrjaði rólega, en sumarið 2008 tókst liðinu að ná 2. sæti í deildinni og komast upp í þriðju efstu deild. Sumarið 2010 komst BÍ/Bolungarvík upp í næstefstu deild og munaði þar miklu um 19 mörk Andra Rúnars Bjarnasonar, markakóngs deildarinnar.
Það vakti mikla athygli þegar nýliðar BÍ/Bolungarvíkur tilkynntu ráðningu nýs þjálfara fyrir sumarið 2011. Guðjón Þórðarson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, sneri þá aftur til heimalandsins eftir margra ára dvöl í útlöndum. Liðið var í efri hluta deildarinnar stóran hluta tímabilsins, en hafnaði að lokum í sjötta sæti. Betur gekk í bikarkeppni KSÍþar sem Vestfjarðaliðið sló út Íslandsmeistara Breiðabliks og Þrótt Reykjavík, en féll úr leik gegn KR-ingum í undanúrslitum að viðstöddum fjölda áhorfenda á Torfnsnesvelli.
Samstarfi Guðjóns Þórðarsonar og BÍ/Bolungarvíkur lauk eftir þetta eina sumar. Liðið var í neðri hlutanum árið eftir en 2013 náðu Djúpmenn sínum besta árangri þegar liðið hafnaði í 5. sæti með 40 stig, aðeins tveimur stigum minna en Víkingur Reykjavíksem náði 2. sætinu. Ekki tókst að fylgja þessum árangri eftir. Tveimur árum síðar endaði BÍ/Bolungarvík á botninum. Um það leyti var ráðist í sameiningu íþróttafélaga við Ísafjarðardjúp undir merkjum Vestra. Hafa knattspyrnumenn keppt undir Vestranafninu upp frá því. Fyrst í þriðju efstu deild, en 2020 í næstefstu deild.
Árið 2023 tryggði félagið sig í Bestu deild karla eftir umspil.
Þjálfarar
breytaTímabil[4] | Nafn | Athugasemdir |
---|---|---|
1986 | Björn Helgason | |
1987 | Jakob Ólason | |
1988 | Jóhann Króknes Torfason | |
1989 | Örnólfur Oddsson | Spilandi þjálfari |
1990 | Jóhann Króknes Torfason | |
1991–1992 | Ámundi Sigmundsson | Spilandi þjálfari |
1993 | Helgi Helgason | |
1994 | Einar Friðþjófsson | |
1995 | Björn Ingimarsson | Rekinn um mitt tímabil |
1995 | Örnólfur Oddsson | Spilandi þjálfari |
1996 | Ómar Torfason | Spilandi þjálfari |
2002–2004 | Haukur Benediktsson | Spilandi þjálfari |
2005 | Örnólfur Oddsson | |
2006–2007 | Jónas Leifur Sigursteinsson | |
2008 | Slobodan Milisic | |
2009 | Dragan Kazic | |
2010 | Alfreð Elías Jóhannsson | Spilandi þjálfari |
2011 | Guðjón Þórðarson | |
2012–2014 | Jörundur Áki Sveinsson | |
2015 | Jón Hálfdán Pétursson | |
2016 | Ásgeir Guðmundsson | |
2017 | Daniel Osafo-Badu | Spilandi þjálfari |
2017–2020 | Bjarni Jóhannsson | |
2021 | Jón Þór Hauksson | |
2022 | Gunnar Heiðar Þorvaldsson | |
2023- | Davíð Smári Lamude |
Titlar
breyta- 3. deild karla í knattspyrnu
- Sigurvegarar (1): 1988
- Annað sæti (1): 2008
- 2. deild karla í knattspyrnu
- Annað sæti (2): 1991, 2010
Meistaraflokkur kvenna
breytaSaga
breytaEftir að meistaraflokkur kvenna hjá ÍBÍ lagðist af árið 1988 þá var stofnaður meistaraflokkur kvenna hjá BÍ. Félagið lék í efstu deild það sama ár en endaði í sjöunda sæti af átta og féll. Árið eftir sigraði liðið næst efstu deild en þáði ekki sæti sitt í efstu deild árið eftir og tefldu ekki fram liði aftur fyrr en árið 1992.[4] Þáttaka félagsins á Íslandsmótinu næstu árin var stopul en lengsta samfellda vera félagsins þar var á árunum 2012 til 2015, fyrst í sameiningu við Bolvíkinga undir nafninu BÍ/Bolungarvík og seinasta árið með Íþróttafélag Reykjavíkur undir nafninu ÍR/BÍ/Bolungarvík.
Árið 2024 var meistaraflokkur enn og aftur endurvakinn, í þetta sinn undir merkjum Vestra í 2. deild kvenna. Eftir að hafa endað í 12 sæti í deildarkeppni 2. deildar,[8] þá vann lið sig upp í 10. sæti eftir að hafa farið taplaust í gegnum úrslitakeppni liða í 10-13. sæti.[9]
Þjálfarar
breytaTímabil[4] | Nafn | Heiti | Athugasemdir |
---|---|---|---|
1989 | Rúnar Guðmundsson | Boltafélag Ísafjarðar | |
1992 | Björn Helgason | Boltafélag Ísafjarðar | |
1993 | Örnólfur Oddsson | Boltafélag Ísafjarðar | |
2000 | Dögg Lára Sigurgeirsdóttir | Boltafélag Ísafjarðar | Spilandi þjálfari |
2006 | Tómas Emil Guðmundsson | BÍ/Bolungarvík | |
2007 | Sigþór Snorrason | BÍ/Bolungarvík | |
2012–2014 | Jónas Leifur Sigursteinsson | BÍ/Bolungarvík | |
2015 | Halldór Þorvaldur Halldórsson | ÍR/BÍ/Bolungarvík | |
2024 | Kristján Arnar Ingason | Vestri |
Titlar
breyta- 1. deild kvenna
- Sigurvegarar (1): 1989
Heimildir
breyta- ↑ „Vestri - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Sótt 25. ágúst 2017.
- ↑ 2,0 2,1 „"Gömlu mennirnir í B.Í. velgja þeim yngri undur uggum í 4. deildinni“. Bæjarins Besta. 1. júlí 1986. bls. 7. Sótt 28. ágúst 2021.
- ↑ „Ísfirðingar spila undir nafninu BÍ 88“. Bæjarins Besta. 25. maí 1988. bls. 18. Sótt 28. ágúst 2021.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 Sigurður Pétursson (2017). Knattspyrnusaga Ísfirðinga. Púkamót, félag. ISBN 978-9935-24-189-4.
- ↑ „Vestri ræður ríkjum á Vestfjörðum“. mbl.is. Sótt 25. ágúst 2017.
- ↑ „/ Fréttir / Íþróttafélagið Vestri“. Hsv.is. Sótt 28. nóvember 2016.
- ↑ „Vestri kemur í stað BÍ/Bolungarvíkur - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 25 ágúst 2017. Sótt 25. ágúst 2017.
- ↑ „Íslandsmót KSÍ - 2. deild kvenna - 2024“. www.ksi.is. Sótt 5. október 2024.
- ↑ „Íslandsmót KSÍ - 2. deild kvenna - C úrslit - 2024“. www.ksi.is. Sótt 5. október 2024.