Austurstræti 16
Austurstræti 16, Nathan og Olsen-húsið eða Reykjavíkurapótek er hús í miðbæ Reykjavíkur, byggt árið 1917 eftir brunann mikla árið 1915. Áður hafði Thor Jensen verið með verslun sína Godthaab á sama stað. Byggingin dregur nafn sitt af apóteki sem var rekið þar um árabil. Byggingin hefur einnig verið kennd við Nathan og Olsen, tvo danska athafnamenn sem komu til Íslands árið 1912 og stofnuðu nýlenduvöruverslun.
Byggingin er hornhús á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis og var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og var það eitt af fyrstu verkefnum hans. Guðjón hafði fræga byggingu Pohjola-tryggingafélagsins í Helsinki eftir finnska arkitektinn Eliel Saarinen til fyrirmyndar. Saarinen var einn virtasti arkitekt Skandinavíu á þessum tíma. Mjög mikið var lagt í bygginguna, víða er marmari á gólfinu. Á aðalstigaganginum eru sjö styttur eftir Guðmund frá Miðdal, sem sýna merkismenn í íslenskri verslunarsögu. Á horni hússins er brjóstmynd af eins konar trölli eftir Einar Jónsson myndhöggvara.
Í lok árs 2011 var húsið metið á bilinu 550-1.000 milljónir kr.[1]
Saga
breytaÍ húsinu var starfrækt olíudrifin rafstöð, sú stærsta í Reykjavík fram að því þegar Elliðaárstöð var tekin í notkun árið 1921. Stöð þessi var 33 hestöfl og gerði meira en að þjónusta húsið, því íbúar nokkurra nærliggjandi bygginga gátu keypt þar raforku - ýmist eftir taug eða með því að fá hlaðna rafgeyma. Þegar Rafmagnsveita Reykjavíkur tók til starfa var rafstöð þessi tekin niður og seld til Hafnarfjarðar, þar sem hún þjónaði bæjarbúum um alllangt skeið.
Landsbanki Íslands var með starfsemi í húsinu árin 1918 til 1924. Í dag er þar veitingastaður.
Tenglar
breyta- The Building that Shaped the City Austurstræti 16, grein í Reykjavík Grapevine
- Stórhýsi rís við Austurstræti - mbl.is
- Sögufrægt hús í miðbænum til sölu, frétt á Mbl.is 11. september 2012
- Ljósmynd af Pohjola-byggingunni