Arkímedes

grískur stærðfræðingur og eðlisfræðingur (287 f.Kr.-212 f.Kr.)

Arkímedes frá Sýrakúsu (287 f.Kr.212 f.Kr.) var grískur stærðfræðingur, stjarnfræðingur, heimspekingur, eðlisfræðingur og vélfræðingur. Hann er oft talinn með mestu stærðfræðingum allra tíma. Hann er þekktastur fyrir framlög sín til rúmfræðinnar (geometríu). Hann fann meðal annars upp aðferðir til að reikna rúmmál og yfirborðsflatarmál kúlu og flatarmál fleygbogasneiðar. Hann skrifaði frægt verk um vökvaaflfræði og um jafnvægi. Rit sem hann skrifaði hét Aðferðin. Það glataðist en fannst aftur árið 1906.

Teikning af Arkímedes

Æviágrip

breyta

Arkímedes var sonur Phidiasar. Fyrir utan það er ekki mikið vitað um yngri ár og fjölskyldu Arkímedesar. Þó vilja sumir halda því fram að Arkímedes hafi tilheyrt stétt aðalsmanna í borginni Sýrakúsu á Sikiley. Því hefur einnig verið haldið fram að fjölskylda hans hafi verið skyld Hiero II. sem var konungur í Sýrakúsu á þessum tíma. Þegar Arkímedes var búinn að ljúka námi í Sýrakúsu flutti hann til Egyptalands til þess að læra í Alexandríu. Á þessum tíma þótti Alexandría eitt mesta menntasetur heims. Eftir námið í Egyptalandi hélt Arkímedes aftur heim og byrjaði að smíða uppfinningar sínar og koma hugmyndum í framkvæmd.

Uppfinningar Arkímedesar

breyta

Arkímedes er þekktur fyrir að hafa fundið lögmálið um uppdrif hluta, sem sökkt er í vökva og sagt er að hann hafi átt aðgæta hvort kóróna konungsins væri ósvikin. Sagt er að hann hafi fundið það er hann var í baði og þegar hann fór í baðið hækkaði yfirborð vatnsins og þannig uppgötvaði hann hvernig hann gæti mælt kórónu kóngsins. Sagt er að hann hafi verið svo glaður er hann áttaði sig á þessu að hann hafi risið upp úr baðinu og hlaupið nakinn um götur borgarinnar Sýrakúsu á Sikiley þar sem hann bjó, hrópandi: „Hevreka! Hevreka!“ („Ég hef fundið það, ég hef fundið það!“).

 
Skrúfa Arkímedesar til vatnsflutninga

Á tímum Arkímedesar var mikið um að vera í Sýrakúsu. Á eyjunni er eitt stærsta og virkasta eldfjall Evrópu, Etna, og á sama tíma var einnig stríð á milli Róm og Karþagó. Sikiley er á milli þessara borga svo hún varð fljótt að vígvelli. Íbúarnir á eyjunni völdu að standa með Karþagómönnum. Rómverjar sigldu til eyjarinnar og gerðu árás á Sýrakúsu. Arkímedes hafði áður verið fenginn til að styrkja varnir borgarinnar. Arkímedes undirbjó varnirnar vel. Hann lokaði öllum leiðum sem Rómverjar hefðu getað farið, bæði inn í borgina og út á sjó. Arkímedes sökkti mörgum stórum skipum Rómverja og margir féllu í gildrum hans í borginni.

Sagan segir að þegar Rómverjar gerðu innrás á Sikiley og tóku hana af Grikkjum hafi Rómverjum verið bannað að drepa Arkímedes. Arkímedes var staddur á ströndinni og teiknaði myndir af hringum í sandinn. Rómverskur hermaður kom að honum og Arkímedes bannaði honum að snerta hringina: „Noli turbare circulos meos!“ („Snertu ekki hringana mína!“) en Rómverjinn drap hann á staðnum.

Heimildir

breyta

The Archimedes Palimpsest. (e.d). Archimedes of Syracuse. Sótt 26. apríl af http://archimedespalimpsest.org/about/history/archimedes.php

Tenglar

breyta
  • „Hver var Arkímedes?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver var Arkímedes og hvert var hans framlag til vísindanna?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvernig dó Arkímedes?“. Vísindavefurinn.