Andrés Guðmundsson

Andrés Guðmundsson (um 14401508) var íslenskur sýslumaður og bóndi á 15. öld og bjó fyrst lengi á Felli í Kollafirði og síðan í Saurbæ á Rauðasandi. Hann var launsonur Guðmundar Arasonar ríka, auðugasta manns á Íslandi á sinni tíð, en móðir hans er óþekkt.

Æviferill breyta

Andrés ólst upp á Reykhólum hjá föður sínum fyrstu árin en var á barnsaldri þegar Guðmundur var dæmdur útlægur og eignir hans gerðar upptækar. Tóku mágar Guðmundar, Björn og Einar Þorleifssynir, þær undir sig. Talið er að Andrés hafi alist upp á vegum Björns og fengið hjá honum allmiklar eignir, þar á meðal höfuðbólið Fell í Kollfirði, þótt hann væri ekki arfgengur eftir Guðmund. Andrés giftist 1. ágúst 1462 Þorbjörgu Ólafsdóttur og hélt Björn þeim veglegt brúðkaup á Reykhólum.

Árið 1465 fór Solveig Guðmundsdóttir, hálfsystir Andrésar, að reyna að ná arfi eftir foreldra sína með aðstoð hans og frænda síns Lofts Íslendings Ormssonar á Staðarhóli í Saurbæ en það tókst ekki og lauk með því að þau Solveig, Loftur og Andrés fóru öll til Noregs 1468 eða 1469, líklega til að reyna að leita liðsinnis konungs eða ef til vill hafa þau einfaldlega hrakist úr landi undan ofríki Þorleifs og Einars Björnssona, en Björn hirðstjóri hafði verið veginn í Rifi 1467. Solveig var í mörg ár erlendis en Andrés hefur líklega fljótlega snúið heim.

Árið 1479 kom Solveig til Íslands með manni sínum, Bjarna Þórarinssyni, og höfðu þau með sér konungsbréf um skipti á eignum Guðmundar. Skiptin sem þá voru gerð voru mjög hagstæð Solveigu og settust þau Bjarni að á Reykhólum, þar sem Þorleifur hafði búið. Þeir Björnssynir sættu sig ekki við skiptin og Þorleifur fór utan til að fá þau gerð ógild. Honum tókst það en á meðan hann var ytra kom til átaka milli Einars Þorleifssonar og Bjarna sem lauk með því að Einar lét lífláta Bjarna í desember 1481.

Virkisveturinn breyta

Þegar Þorleifur kom heim sumarið 1482 settist hann aftur að á Reykhólum en Solveig leitaði til Andrésar hálfbróður síns á Felli. Þorleifur mun hafa óttast ófrið frá þeim og lét gera virki á Reykhólum um sumarið en var svo ekki heima um sumarið þegar Andrés kom með vopnað lið til Reykhóla, náði staðnum á sitt vald og sat í virkinu fram eftir vetri. Hafði hann þar meðal annars útlenda menn vopnaða byssum og er það í fyrsta sinn sem skotvopna er getið á Íslandi.

En þann 3. janúar 1483 kom Þorleifur með lið til Reykhóla og þrátt fyrir harða skothríð úr virkinu hafði hann betur og náði Andrési á sitt vald. Einn úr liði Þorleifs féll í skothríðinni og margir særðust. Andrés var fangi á Reykhólum fram í apríl en þá sættust þeir fyrir milligöngu ýmissa vestfirskra höfðingja og varð Andrés að gefa upp allt tilkall til eigna Guðmundar.

Um Andrés og atburði vetrarins 1482-1483 skrifaði Björn Th. Björnsson skáldsöguna Virkisvetur.

Endanlegar sættir breyta

Eftir að Þorleifur og Einar bróðir hans voru báðir látnir tók Andrés málið upp að nýju og samdi þá við Björn son Þorleifs og fékk ýmsar jarðir, þar á meðal höfuðbólin Saurbæ á Rauðasandi og Núp í Dýrafirði, en viðurkenndi rétt hans til Reykhóla. Jafnframt varð úr að ættirnar tengdust með því að Guðmundur sonur Andrésar giftist Jarþrúði systur Björns og bjuggu þau á Felli en Andrés flutti að Saurbæ og dó þar 1508.

Önnur börn Andrésar voru Bjarni, bóndi og lögréttumaður á Brjánslæk, Ari bóndi í Saurbæ, Ólöf og Sigríður húsfreyja á Neðri-Brekku í Saurbæ.

Heimildir breyta

  • „„Miðaldakonur". 19. júní, 5.-7. tölublað 1929“.
  • „„Dýrindis brúðkaup vestra." Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 17. mars 2012“.