Solveig Guðmundsdóttir
Solveig Guðmundsdóttir var íslensk höfðingjadóttir á 14. öld. Hún var eina barn Guðmundar Arasonar ríka á Reykhólum og Helgu Þorleifsdóttur konu hans, dóttur Vatnsfjarðar-Kristínar, en þau voru auðugustu hjón landsins á sinni tíð og hefði Solveig átt að erfa allan auð þeirra en eyddi mestallri ævinni í að reyna að ná arfi sínum úr höndum móðurfrænda sinna.
Uppvöxtur
breytaGuðmundur faðir Solveigar var dæmdur útlægur fyrir vafasamar sakir árið 1446 að undirlagi mága sinna, Björns og Einars Þorleifssona, sem báðir urðu hirðstjórar. Áttu eignir hans að falla til konungs og erfingja en hann átti alls 177 jarðir og þar af sex höfuðból þar sem hann rak stórbú. Hann fór úr landi og mun hafa látist fljótlega. Helga kona hans var löngu dáin en Solveig hefur líklega verið á unglingsaldri. Þeir Björn og Einar sölsuðu eignirnar undir sig og hirtu af þeim tekjur og Björn keypti hlut konungs á lágu verði. Solveig systurdóttir þeirra fékk ekki það sem henni bar, heldur ekki móðurarf sinn.
Lítið er vitað um Solveigu í nærri tvo áratugi eftir þetta en hún hefur ekki átt sér öfluga bandamenn sem treystu sér til að fara gegn frændum hennar. Einar dó raunar 1453 og eftir það var við Björn hirðstjóra einan að eiga en hann var voldugasti maður landsins.
Upphaf erfðamálanna
breytaSolveig átti yngri hálfbróður, Andrés launson Guðmundar ríka, og árið 1465 var hann orðinn fullorðinn og varð liðveislumaður systur sinnar ásamt Lofti Ormssyni Íslendingi, bónda og riddara á Staðarhóli í Saurbæ, en Solveig móðir hans var systir þeirra Helgu, Björns og Einars. Solveig gaf Lofti umboð til að sækja eignir sínar í hendur Björns og átti hann að fá helming þeirra fyrir vikið. Hann tók nokkrar jarðir sem Guðmundur hafði átt undir sig en réði ekki við Björn né heldur syni hans, Þorleif og Einar, eftir að Englendingar drápu Björn í Rifi 1467.
Einu eða tveimur árum síðar fór Solveig til Noregs og Loftur og Andrés einnig og hafa þau ef til vill ætlað að leita liðsinnis konungs í deilunum. Loftur kom þó heim 1470, sættist við Þorleif Björnsson og lét af stuðningi við Solveigu.
Hjónaband
breytaSolveig var um kyrrt og giftist sama vor Íslendingnum Bjarna Þórarinssyni, sem kallaður var „góði maður“ en virðist hafa verið ofstopamaður og ribbaldi, og tók hann við málum konu sinnar. Þau voru áfram erlendis og tókst loksins árið 1478 að fá áheyrn hjá Kristjáni konungi 1. Þann 25. nóvember það ár gaf konungur út fyrirmæli til Diðriks Pínings hirðstjóra og Magnúsar Eyjólfssonar Skálholtsbiskups um að skipta eignum Guðmundar Arasonar í þrjá hluti, milli konungs sjálfs, erfingja Björns Þorleifssonar og svo Solveigar og Bjarna. Þau komu heim með þetta konungsbréf 1479 en biðu ekki skiptanna, heldur tóku nokkrar af jörðum Guðmundar strax undir sig og mun Bjarni hafa farið með ofsa og ránskap. Þorleifur Björnsson tók Bjarna þá höndum um áramótin 1479-1480 og hafði hann í varðhaldi hjá sér á Reykhólum um tíma. Solveig leitaði liðsinnis hjá Hrafni Brandssyni lögmanni, frænda sínum, sem kom á sáttum í bili og var Bjarna sleppt.
Eignunum var svo skipt í þrennt á Alþingi 1480 af tólf mönnum sem til þess voru nefndir og voru skiptin Solveigu mjög hagstæð, hennar hlutur var margfaldur á við hina. Hún fékk meðal annars Reykhóla og settist þar að, meira en þrjátíu árum eftir að hún hafði hrakist þaðan. En synir Björns Þorleifssonar sættu sig ekki við skiptin og Þorleifur sigldi um sumarið til að reyna að fá konung til að ógilda þau. Honum varð þó ekki ágengt þar en Kristján konungur dó vorið eftir og fór Þorleifur þá til Noregs og leitaði til norska ríkisráðsins, sem fór með konungsvald á Noregi og Íslandi þar til nýr konungur yrði krýndur. Fékk hann ráðið til að ógilda skiptin og skyldi hann ráða yfir eignunum þar til búið væri að skipta að nýju, auk þess sem hann var gerður að hirðstjóra yfir Íslandi í þrjú ár.
Dauði Bjarna
breytaHann komst þó ekki til Íslands fyrr en 1482 en á meðan hafði það gerst að Einar bróðir hans hafði lent í átökum við Bjarna mann Solveigar og lauk þeim svo að 3. desember 1481 náði Einar Bjarna á sitt vald þar sem hann var staddur á Brjánslæk á Barðaströnd og lét taka hann af lífi.
Þegar Þorleifur kom heim settist hann aftur að á Reykhólum en Solveig leitaði til Andrésar hálfbróður síns, sem var sýslumaður á Felli í Kollafirði. Andrés settist um veturinn að á Reykhólum í virki sem Þorleifur hafði látið gera þar en Þorleifur náði honum á sitt vald snemma í janúar og varð úr að þeir sættust og Andrés gaf upp allt tilkall til eigna Guðmundar.
Arfur eftir 55 ár
breytaEkki er vitað um Solveigu næstu átján ár en líklegt er að hún hafi verið hjá bróður sínum. Ekkert gerðist í erfðamálunum en eftir að Þorleifur og Einar bróðir hans voru báðir látnir tók Andrés málið upp að nýju og samdi þá við Björn son Þorleifs og fékk ýmsar jarðir.
Solveig kom ekkert við sögu í þessum samningum en á Alþingi árið 1501, 55 árum eftir að faðir hennar var gerður útlægur, var henni dæmdur móðurarfur sinn, en hún hafði þá gefið bróðursonum sínum, Guðmundi og Ara, próventu sína og voru það því þeir sem fengu arfinn. Hún hefur þá verið komin á áttræðisaldur og hefur sennilega dáið skömmu síðar.