Ali Abdullah Saleh
Ali Abdullah Saleh (21. mars 1947 – 4. desember 2017) var jemenskur herforingi og stjórnmálamaður sem var forseti Norður-Jemen frá 1978 til 1990 og síðan forseti sameinaðs Jemen frá 1990 til 2012. Saleh var steypt af stóli í jasmínbyltingunni sem fylgdi mótmælaöldu arabíska vorsins árin 2011 og 2012 og varaforseti hans, Abdrabbuh Mansur Hadi, tók við sem forseti. Þegar borgarastyrjöldin í Jemen braust út árið 2014 gerði Saleh bandalag við uppreisnarhreyfingu hinna sjíaíslömsku Húta og barðist með þeim gegn stjórn Hadi til ársins 2017. Í lok þess árs rann bandalag Saleh við Hútana út í sandinn og Saleh var skotinn til bana af sveitum þeirra er hann reyndi að flýja höfuðborgina Sana.
Ali Abdullah Saleh علي عبدالله صالح | |
---|---|
Forseti Jemen | |
Í embætti 22. maí 1990 – 27. febrúar 2012 | |
Forsætisráðherra | Haidar Abu Bakr al-Attas Muhammad Said al-Attar Abdul Aziz Abdul Ghani Faraj Said Bin Ghanem Abd Al-Karim Al-Iryani Abdul Qadir Bajamal Ali Muhammad Mujawar Mohammed Basindawa |
Varaforseti | Ali Salem al Beidh Abdrabbuh Mansur Hadi |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Abdrabbuh Mansur Hadi |
Forseti Norður-Jemen | |
Í embætti 18. júlí 1978 – 22. maí 1990 | |
Forsætisráðherra | Abdul Aziz Abdul Ghani Abd Al-Karim Al-Iryani Abdul Aziz Abdul Ghani |
Varaforseti | Abdul Karim Abdullah al-Arashi |
Forveri | Abdul Karim Abdullah al-Arashi |
Eftirmaður | Embætti lagt niður |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 21. mars 1947 Sanhan, Sana, Jemen |
Látinn | 4. desember 2017 (70 ára) Sana, Jemen |
Stjórnmálaflokkur | Alþýðufylkingin |
Maki | Asma Saleh |
Starf | Hermaður, stjórnmálamaður |
Æviágrip
breytaÁrið 1962 tók Saleh þátt í herforingjabyltingu gegn konungsstjórn Norður-Jemen sem leiddi til stofnunar Arabíska lýðveldisins Jemen. Árið 1974 hjálpaði hann herforingjanum Ibrahim al-Hamdi að hrifsa til sín völdin í lýðveldinu en eftir að Hamdi var myrtur árið 1977 stóð Saleh brátt uppi sem forseti lýðveldisins.
Árið 1990 sameinaðist Norður-Jemen hinu sósíalíska Suður-Jemen og Saleh varð forseti hins nýsameinaða ríkis. Saleh reyndi að teygja völd sín til suðurhluta landsins en pólitísk mótstaða við ofríki hans leiddi til þess að borgarastyrjöld braust út árið 1994 þar sem Suður-Jemenar reyndu að skilja sig frá norðurhluta landsins á ný.[1] Saleh og ríkisstjórn hans í norðrinu tókst að vinna bug á aðskilnaðarsinnunum með því að hertaka Aden í júlí sama ár. Sigur Saleh styrkti mjög stöðu hans í landinu.[2] Saleh var formlega kjörinn forseti Jemen í kosningum árið 1999 og endurkjörinn árið 2006.
Með arabíska vorinu árið 2011 brutust út fjöldamótmæli gegn stjórn Saleh og Saleh neyddist til að lýsa því yfir að hann myndi ekki bjóða sig fram til endurkjörs árið 2013. Þetta nægði ekki til að friðþægja mótmælendurna og óeirðir brutust brátt út um allt landið. Þann 3. júní árið 2011 særðist Saleh í morðtilræði og neyddist til að yfirgefa Jemen til að fá læknisaðstoð í Sádi-Arabíu.[3] Hann sneri aftur til Jemen eftir þrjá mánuði og endurkoma hans leiddi til götubardaga í Sana milli stjórnarsinna og mótmælenda.[4]
Þann 23. nóvember 2011 lýsti Saleh því yfir við athöfn í Sádi-Arabíu að hann myndi segja af sér sem forseti í febrúar árið 2012. Hann eftirlét völdin varaforseta sínum, Abdrabbuh Mansur Hadi, sem var síðan formlega kjörinn forseti í febrúar næsta ár með 99,8% atkvæða.[5] Saleh var viðstaddur embættisvígslu Hadi þann 25. febrúar árið 2012, þá nýkominn úr læknismeðferð í Bandaríkjunum.[6]
Þrátt fyrir afsögn sína úr forsetaembætti sat Saleh áfram sem formaður Alþýðufylkingarinnar, stjórnarflokksins sem Hadi var einnig meðlimur í. Í nóvember árið 2014 samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna refsiaðgerðir gegn Saleh. Hadi var umsvifalaust rekinn úr stjórn Alþýðufylkingarinnar fyrir að beita sér ekki gegn samþykkt aðgerðanna.[7][8]
Uppreisn og dauði
breytaÁrið 2014 gengu Saleh og stuðningsmenn hans í bandalag við hina sjíaíslömsku uppreisnarhreyfingu Húta. Hútarnir voru gamlir óvinir Saleh sem höfðu í mörg ár háð baráttu gegn stjórn hans en árið 2014 sameinuðu Saleh og Hútarnir krafta sína og tókst í mars árið 2015 að hertaka höfuðborgina Sana. Ríkisstjórn Hadi var hrakin til Aden og þar með hófst önnur borgarastyrjöld í Jemen.
Í mars árið 2015 greip alþjóðlegt hernaðarbandalag undir stjórn Sádi-Arabíu inn í borgarastyrjöldina til að vinna bug á Hútunum, sem taldir voru njóta stuðnings Írans. Þegar Saleh reyndi í desember árið 2017 að semja við Sáda fór bandalag þeirra út um þúfur og bardagi braust út milli þeirra um Sana. Saleh var drepinn er hann reyndi að flýja höfuðborgina þann 4. desember 2017.[9]
Tilvísanir
breyta- ↑ Dagur Þorleifsson (31. maí 1994). „Jemen aftur tvö ríki“. Tíminn. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Aden fallin í hlut Norður-Jemen“. Dagblaðið Vísir. 8. júlí 1994. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Saleh Jemenforseti á batavegi“. mbl.is. 7. júlí 2011. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Situr enn sem fastast í skugga blóðbaðs“. Vísir. 26. september 2011. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Kjörinn forseti með 99,85 atkvæða“. mbl.is. 24. febrúar 2012. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Hadi sworn in as Yemen's new president“ (enska). Al Jazeera. 25. febrúar 2012. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Ný ríkisstjórn tekin við í Jemen“. RÚV. 9. nóvember 2014. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Hadi rekinn úr stjórn flokks síns“. RÚV. 8. nóvember 2014. Sótt 21. september 2019.
- ↑ „Fyrrverandi forseti Jemens myrtur“. mbl.is. 14. desember 2017. Sótt 21. september 2019.
Fyrirrennari: Abdul Karim Abdullah al-Arashi |
|
Eftirmaður: Hann sjálfur (sem forseti Jemen) | |||
Fyrirrennari: Hann sjálfur (sem forseti Norður-Jemen) Haidar Abu Bakr al-Attas (sem forseti Suður-Jemen) |
|
Eftirmaður: Abdrabbuh Mansur Hadi |