Hútí-fylkingin

Stjórnmála- og vígahópur í Jemen
(Endurbeint frá Hútar)

Hútí-fylkingin (opinberlega Ansar Allah en í daglegu tali Hútar) er stjórnmála- og vígahópur sem varð til í Saada-héraði í Jemen á tíunda áratugnum. Hútar hafa haldið uppi vopnaðri baráttu gegn stjórnvöldum Jemen frá árinu 2004 og hafa frá árinu 2015 ráðið yfir Sana, höfuðborg landsins.

Hútí-fylkingin
الحوثيون
Ansar Allah
أنصار الله
Slagorð Hútí-fylkingarinnar. Á því stendur:
„Guð er mestur
Dauða á Bandaríkin
Dauða á Ísrael
Bölvun á Gyðinga
Megi íslam sigra.“

Yfirráðasvæði Húta sést í grænum lit.
Stofnun1992; fyrir 32 árum (1992)
GerðStjórnmálahreyfing, hernaðarsamtök
HöfuðstöðvarSaada, Jemen (frá 1994)
Sana, Jemen (frá 2014)
ForstöðumaðurHússein Badreddin al-Hútí   (1994–2004)
Abdúl Malik al-Hútí (2004–)

Saga breyta

Hútí-fylkingin var stofnuð árið 1992 og er kennd við Hússein Badreddin al-Hútí, upphaflegan leiðtoga hreyfingarinnar.[1] Hútar aðhyllast zaidisma, sjaldgæfa útgáfu af íslamstrú sem er jafnan flokkuð sem afbrigði af sjía-íslam.[2] Hreyfingin var í upphafi friðsöm og talaði fyrir umburðarlyndi meðal Jemena og auknu sjálfræði fyrir zaidíska ættbálka í norðurhluta Jemen[3] en árið 2004 hófu Hútar hins vegar uppreisn gegn ríkisstjórn Ali Abdullah Saleh forseta sem leiddi til þess að Hússein var drepinn. Eftir dauða Hússeins tók bróðir hans, Abdúl Malik al-Hútí, við forystu hreyfingarinnar ásamt tveimur fleiri bræðrum.[1]

Í arabíska vorinu árið 2011 tóku Hútar þátt í fjöldamótmælum gegn stjórn Saleh sem leiddu til þess að Saleh sagði af sér í byrjun næsta árs og Abdrabbuh Mansur Hadi tók við forsetaembættinu. Eftir byltinguna gegn Saleh tóku Hútar, ásamt ýmsum öðrum þjóðfélagshópum, þátt í umræðum um framtíðarskipulag Jemens en hreyfingin gekk frá borðinu áður en fullnaðarsamkomulag náðist.[4] Árið 2014 tókst Hútum að nýta sér veikleika ríkisstjórnar Hadi og leggja undir sig stóra hluta af Jemen. Í janúar árið 2015 lögðu Hútar undir sig höfuðborgina Sana, hnepptu Hadi forseta í stofufangelsi og neyddu hann til að segja af sér. Hadi slapp úr haldi Hútanna mánuði síðar, afturkallaði afsögn sína og kom upp bækistöðum eigin ríkisstjórnar í Aden.[5] Borgarastyrjöld hefur ríkt í Jemen á milli Hútí-fylkingarinnar og stjórnar Jemen síðan þá.

Í mars árið 2015 hófu stjórnvöld Sádi-Arabíu inngrip í borgarastyrjöldina í Jemen til að aðstoða Hadi við að vinna bug á uppreisn Húta. Sádar hafa vænt Húta um að vera bandamenn sjíaíslömsku klerkastjórnarinnar í Íran eða um að vera blátt áfram strengjabrúður Írana. Stjórnvöld í Íran neita því opinberlega að hafa veitt Hútum stuðning í borgarastyrjöldinni og deilt hefur verið um hve mikil, ef einhver, ítök Írana eru í uppreisn Hútanna. Líklegt þykir þó að áhrif Írana í hreyfingunni hafi aukist á síðari köflum stríðsins og að Hútar hafi tekið við vopnasendingum frá Íran.[6][7]

Frá 2014 til 2017 voru Hútarnir í bandalagi við hinn gamla óvin sinn, fyrrum forsetann Saleh, og nutu stuðnings öryggissveita hans gegn ríkisstjórn Hadi þegar Sana var hertekin. Hútar snerust gegn Saleh á ný í lok ársins 2017 þegar Saleh reyndi að hefja samningaviðræður við Sáda og sökuðu hann um landráð. Til átaka kom milli Húta og stuðningsmanna Saleh í Sana og Saleh sjálfur var drepinn þegar hann reyndi að flýja borgina.[8]

Í janúar árið 2021 lýsti ríkisstjórn Bandaríkjanna því yfir að Hútí-fylkingin yrði formlega skilgreind af ríkinu sem hryðjuverkasamtök.[9] Ákvörðunin sætti talsverðri gagnrýni, meðal annars af hálfu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, þar sem talið var líklegt að skilgreiningin myndi erfiða innflutning á matvælum og hjálpargögnum til stríðshrjáðra borgara sem búa á yfirráðasvæði Húta í Jemen.[10] Þessi sjónarmið leiddu til þess að Hútar voru teknir af hryðjuverkalistanum í febrúar sama ár eftir stjórnarskipti í Bandaríkjunum.[11]

Hútí-fylkingin hefur tekið afstöðu með Hamas-samtökunum í stríði Ísraels á Gasa frá árinu 2023. Í desember það ár tilkynntu Hútar að þeir myndu skjóta á öll skip sem siglt væri um Rauðahaf til Ísraels nema þeim yrði einnig siglt til Palestínu með neyðaraðstoð fyrir íbúa þar. Hútí-fylkingin hefur jafnframt gert tilraunir til drónaárása á Ísrael vegna stríðsins.[12] Bretar og Bandaríkjamenn hófu árásir á Hútí-fylkinguna vegna árása hennar á flutningaskip á Rauðahafi í janúar 2024.[13] Áætlað er að Bandaríkin setji Húta aftur á lista yfir hryðjuverkasamtök vegna árásanna.[14]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Guðsteinn Bjarnason (1. apríl 2015). „Jemen sagt að hruni komið“. Fréttablaðið. Sótt 22. september 2019.
  2. Gunnar Hrafn Jónsson (19. júní 2018). „Forsaga hörmunganna í Jemen - fyrri hluti“. Vísir. Sótt 22. september 2019.
  3. Al Batati, Saeed (21. ágúst 2014). „Who are the Houthis in Yemen?“. Al Jazeera. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. ágúst 2014.
  4. Birta Björnsdóttir (20. janúar 2024). „Hverjir eru Hútar?“. RÚV. Sótt 20. janúar 2024.
  5. Sunna Ósk Loga­dótt­ir (28. mars 2017). „Hvað geng­ur á í Jemen?“. mbl.is. Sótt 22. september 2019.
  6. Gunnar Hrafn Jónsson (20. júní 2018). „Forsaga hörmunganna í Jemen - seinni hluti“. Vísir. Sótt 22. september 2019.
  7. Þórgnýr Einar Albertsson (6. apríl 2018). „Íran og Sádi-Arabía: Í köldu stríði“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. mars 2023. Sótt 18. september 2019.
  8. „Fyrr­ver­andi for­seti Jem­ens myrt­ur“. mbl.is. 14. desember 2017. Sótt 22. september 2019.
  9. Markús Þ. Þórhallsson (11. janúar 2021). „Bandaríkjamenn skilgreina Húta nú sem hryðjuverkasamtök“. RÚV. Sótt 6. febrúar 2021.
  10. „Hútar lýstir hryðjuverkasamtök: dauðadómur yfir milljónum Jemena“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 15. janúar 2021. Sótt 6. febrúar 2021.
  11. Ævar Örn Jósepsson (6. febrúar 2021). „Taka Húta í Jemen af hryðjuverkalista“. RÚV. Sótt 6. febrúar 2021.
  12. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (26. desember 2023). „Hútar lýsa yfir á­byrgð á eldflaugaárás í Rauða­hafi“. Vísir. Sótt 13. janúar 2024.
  13. „Hefja árás gegn Hútum“. mbl.is. 11. janúar 2024. Sótt 13. janúar 2024.
  14. Ari Páll Karlsson (17. janúar 2024). „Vilja skilgreina Húta sem hryðjuverkasamtök“. RÚV. Sótt 17. janúar 2024.