Peter Adler Alberti
Peter Adler Alberti (10. júní 1851 – 14. júní 1932) var dómsmálaráðherra í Danmörku og Íslandsráðherra. Hann var lögfræðingur að mennt og var í stjórn sparisjóðs bænda á Sjálandi.
Ævi
breytaÁrið 1888 stofnaði hann fyrirtæki til að flytja út danskt smjör. Hann bauð sig fram fyrir stjórnmálaflokkinn Venstre og var kosinn á þing 1892. Hann gaf út dagblaðið Dannebrog. Árið 1901 varð hann dómsmálaráðherra og er tíma hans í því embætti helst minnst fyrir að hann lögleiddi hýðingar vegna kynferðisafbrota sem voru þannig að karlar á aldrinum 15 til 55 ára sem fundnir voru sekir um að nauðga konum eða fremja kynferðisafbrot gagnvart ungum stúlkubörnum átti að rassskella 27 sinnum með priki. Þessar hýðingar voru afnumdar árið 1911.
Alberti var ásakaður um að misnota vald sitt og varð að segja af sér ráðherraembætti eftir sjö ár í embætti en fékk nafnbótina og tignarheitið "geheimekonferensråd" af konungi. En málið varð ennþá verra þegar í ljós kom einnig mikið fjármálahneyksli, Alberti hafði dregið að sér óhemju mikla fjármuni úr sparisjóð bænda. Hann hafði árum saman stolið úr sjóðnum til að fjármagna fjárglæfra sína m.a. að kaupa gullhlutabréf.
Þann 8. september 1908 gaf hann sig fram við löggæsluyfirvöld og játaði brot sín en í ágústbyrjun sama ár hafði Privatbanken staðfest að tölur pössuðu ekki í bókhaldi sparisjóðsins. Ritstjóri Politiken beitti einnig þrýstingi til að fá fram sannleikann og Alberti gaf sig fram þegar ljóst var að svik hans myndu vera afhjúpuð í fjölmiðlum.
Þetta varð reginhneyksli og hafði mikil áhrif í stjórnmálalífi Dana. Alberti var ekki ráðherra þegar fjárdrátturinn komst upp og hann hafði ekki dregið sér fé á meðan hann gegndi stöðu dómsmálaráðherra. Hins vegar hafði Friðrik 8. Danakonungur veitt Alberti tign sem leyndarráð vegna meðmæla frá J. C. Christensen forsætisráðherra og vegna þessa máls beið stjórnin álitshnekki og J. C. Christensen varð að segja af sér í október 1908 og afhenda Niels Neergaard stjórnartaumana.
Alberti var dæmdur í átta ára tugthúsvist og sat inn árin 1912 til 1917. Hann hafði fangamarkið 75 og var 172 sm hár og mittismál hans var 155 sm. Alberti vóg 138,5 kg við komuna í fangelsið. Í fangelsinu vann hann á sokkaprjónavél sem prjónaði sokka fyrir fangana. Hann veslaðist upp í fangelsinu og var árið 1912 aðeins 70 kg.
Hann dó eftir að sporvagn keyrði á hann árið 1932.
Alberti var Íslandsráðherra í Kaupmannahöfn og það var hann sem valdi Hannes Hafstein til að gegna fyrsta ráðherraembættinu með aðsetur á Íslandi.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Peter Adler Alberti“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. ágúst 2008.
- Jón Sigurðsson: Íslandsráðherrann í tugthúsið : sagan af Alberti og ævintýrum hans[óvirkur tengill]
- Mumieklubben:Peter Alberti Geymt 23 mars 2010 í Wayback Machine
- Magten og vanæren
- Jón Sigurðsson, Peter Adler Alberti. – Saga, 1. tölublað (01.01.1970), bls. 142-247 [óvirkur tengill]