Aðalsteinn Englandskonungur
Aðalsteinn Englandskonungur betur þekktur sem Aðalsteinn hinn sigursæli (um 895 – 27. október 939) var konungur á Englandi á árunum 925 – 939. Hann var sonur Játvarðar eldri, sem var konungur 899 – 924, og sonarsonur Alfreðs mikla. Hann var ekki krýndur fyrr en 4. september 925, meira en ári eftir að faðir hans dó. Hugsanlega var Elfward hálfbróðir hans konungur á milli þeirra en hann dó fáeinum vikum á eftir föðurnum.
Aðalsteinn hafði sigur í miklum bardaga við Ólaf Skotakonung árið 937, sem Egill Skallagrímsson og Þórólfur bróðir hans tóku þátt í. Sá bardagi er talinn einn hinn merkasti í sögu Englands því að það var í raun þá fyrst sem Englendingar börðust sem ein þjóð gegn innrásarliði Kelta og norrænna víkinga. Um orustuna er til kvæði á fornensku: Orustan við Brunanborg.
Aðalsteinn Englandskonungur var sá sem fóstraði Hákon, son Haralds hárfagra. Aðalsteinn leyfði Eiríki blóðöxi að setjast að í Englandi, eftir að hann var hrakinn úr landi í Noregi.
Aðalsteinn var ókvæntur og erfði Játmundur bróðir hans kórónuna eftir hans dag.
Fyrirrennari: Játvarður eldri eða Elfward |
|
Eftirmaður: Játmundur 1. |