Þórólfur Skallagrímsson

Þórólfur Skallagrímsson (d. 937) var íslenskur fornkappi, sonur Skallagríms Kveldúlfssonar og eldri bróðir Egils Skallagrímssonar. Hann var sagður manna fríðastur, fremstur í öllum íþróttum og afar vinsæll, öfugt við Egil. Þrátt fyrir það var samkomulag þeirra gott og þeir voru nánir.

Þórólfur ólst upp á Borg á Mýrum en fór ungur að árum til Noregs og dvaldist þar lengi. Þar komst hann í vináttu við Eirík blóðöx og fór með honum í ferðalög, meðal annars til Bjarmalands þar sem Eiríkur hitti Gunnhildi sem síðar varð kona hans. Eftir nokkurra ára dvöl í Noregi fór Þórólfur til Íslands og kom aftur með Ásgerði Bjarnardóttur, sem hann kvæntist síðan, og Egil bróður sinn, sem þá var unglingur.

Þeir bræður Þórólfur og Egill fóru saman í víking, herjuðu við Eystrasalt og auðguðust mjög. Þeir voru taldir óvinnandi þegar þeir börðust hlið við hlið. Síðan ákváðu þeir að fara til Englands. Þar gerðust þeir menn Aðalsteins konungs, sem vantaði málaliða, létu prímsignast og börðust gegn Skotum. Aðalsteinn setti þá hvorn fyrir sína sveitina. Egill vildi ekki skiljast við bróður sinn en lét þó undan. Skotar sóttu harðar að Þórólfi og mönnum hans og fór svo að Þórólfur féll. Segir svo frá í Egils sögu: „Þórólfur gekk svo fram, að fáir voru menn hans fyrir honum, en þá er hann varði minnst, þá hlaupa þar úr skóginum Aðils jarl og sveit sú, er honum fylgdi; brugðu þegar mörgum kesjum senn á Þórólfi, og féll hann þar við skóginn, en Þorfinnur, er merkið bar, hopaði aftur, þar er liðið stóð þykkra, en Aðils sótti þá að þeim, og var þar þá orusta mikil. Æptu Skotar þá siguróp, er þeir höfðu fellt höfðingjann.“

Egill sá hvað var að gerast, þaut á vettvang og drap alla sem fyrir honum urðu en varð of seinn til að bjarga bróður sínum. Hann harmaði Þórólf mjög og kvað tvær vísur. Er þetta hin síðari:

Valköstum hlóð eg vestan
vang fyr merkistangir
ótt var él það sótti eg
Aðils bláum Naðri.
Háði ungr við Engla
Áleifr þrymu stála;
hélt - né hrafnar sultu
Hringr á vopna þingi.

Ásgerður ekkja Þórólfs giftist síðan Agli. Þau Þórólfur áttu aðeins eina dóttur saman, Þórdísi. Hún giftist Grími Svertingssyni lögsögumanni á Mosfelli og dvaldist Egill hjá þeim síðustu æviárin.