Þriðja ráðuneyti Ólafs Thors

Þriðja ráðuneyti Ólafs Thors var skammlíf minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins sem sat við völd frá 6. desember 1949 til 14. mars 1950. Hún brúaði bilið milli ríkisstjórnar Stefáns Jóhanns Stefánssonar og ríkisstjórnar Steingríms Steinþórssonar.

Alþingiskosningarnar 1949 fóru fram í lok október og skiluðu hálfgerðri pattstöðu á þingi. Stefán Jóhann Stefánsson baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt þegar að kosningum loknum, en sat áfram uns minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Ólafs Thors tók við í desember. Sú stjórnarmyndun var afar óvenjuleg þar sem öfugt við flestar minnihlutastjórnin hafði nýja stjórnin engin vilyrði um stuðning eða hlutleysi annarra flokka. Mátti því heita ljóst frá upphafi að hún fengi ekki langa lífdaga.

Baráttan við dýrtíðina var aðalviðfangsefni stjórnarinnar, líkt og annarra ríkisstjórna á þessum árum. Stjórnarandstaðan hafnaði öllum tillögum stjórnarinnar í efnahagsmálum og var vantrauststillaga borin upp og samþykkt þann 3. mars. Var það í fyrsta sinn frá árinu 1911 sem slík tillaga var samþykkt á Alþingi. Rúmri viku síðar komu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sér saman um myndun nýrrar stjórnar.

Ráðherrar

breyta
  • Ólafur Thors, forsætisráðherra og félagsmálaráðherra.
  • Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra.
  • Björn Ólafsson, fjármála- og viðskiptamálaráðherra.
  • Jón Pálmason, landbúnaðarráðherra. Hann fór einnig með orku- og vegamál.
  • Jóhann Þ. Jósefsson, sjávarútvegs- og iðnaðarmálaráðherra. Fór einnig með heilbrigðis- og flugmál.