Þorlákur Kristinsson Morthens (fæddur 3. október 1953), betur þekktur sem Þorlákur Morthens eða Tolli er íslenskur myndlistarmaður sem hefur verið þekktur fyrir landslags og abstrakt verk sín síðan á 9. áratugnum. Verk Tolla eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands, auk nokkurra stofnana í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann er bróðir Bubba Morthens.

Tolli er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann hefur málað og teiknað frá unga aldri og kom frá listrænu heimili. Hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og lauk þar prófi úr nýlistadeild árið 1983. Eftir það fór hann í Hochschule der Künste í Vestur-Berlín undir handleiðslu Karl-Horst Hödicke prófessors og sneri heim 1985 og hefur starfað sem myndlistarmaður síðan. Fram að því hafði hann stundað sjómennsku við Íslandsstrendur, jafnt á fiskibátum og togurum. Hann var einnig farandaverkamaður í ýmsum sjávarplássum víða um Ísland og skógarhöggsmaður í Norður-Noregi.

Fyrstu sýningar Tolla voru í Reykjavík og á Akureyri árið 1982 og fyrsta einkasýning hans var síðan í gúmmívinnustofunni í Reykjavík árið 1984. Árin 19821992 sýndi hann tuttugu og tvær einkasýningar hér á landi og erlendis, og tók þátt í sautján samsýningum.

Tolli hefur rekið vinnustofu í Berlín og efnt til sýninga í Þýskalandi, Danmörku, Mónakó, Bretlandi, Bandaríkjunum og Suður-Kóreu. Hann hefur einnig reynt fyrir sér í tónlist og gaf út tvær plötur með hljómsveitinni Ikarus.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta