Þjóðernishreyfing Íslendinga

Þjóðernishreyfing Íslendinga (ÞHÍ) var íslensk stjórnmálahreyfing, stofnuð 1933. Helstu leiðtogar hennar voru Jón H. Þorbergsson frá Laxamýri, Eiður S. Kvaran sagn- og mannfræðingur og frímerkjasalinn Gísli Sigurbjörnsson. Þeir Eiður og Gísli höfðu báðir dvalist í Þýskalandi og orðið þar vitni að framgöngu nasista. Aðalstefnumál hreyfingarinnar var að efla íslenska menningu á þjóðlegum grundvelli og vernda kynstofn Íslendinga. Mikið mál var að útlendingar ættu ekki að fá landvistarleyfi á Íslandi, nema um sérfræðinga væri að ræða í þeim greinum atvinnulífs, þar sem Íslendingar réðu ekki yfir sambærilegum fræðingum. ÞHÍ samanstóð af tveimur andstæðum öflum: annars vegar óánægðum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum og hins vegar af ungu fólki sem hrifist hafði af þýska nasismanum. [1] Tímaritið Íslenzk endurreisn, sem kom út árin 1933 og 1934, var helsta málgagn ÞHÍ.

Ganga niður Bankastræti á fjórða áratugnum til stuðnings nasisma.

Hreyfingin klofnaði 1934 og stofnuðu fylgjendur þýsku nasistanna Flokk þjóðernissinna, en ÞHÍ lagði fljótlega niður stafsemi. Meginstefna flokksins var hatur á kommúnistum og takmark „þjóðernissinna væri alger útrýming kommúnista ...engir flokkar, aðeins sameinuð og sterk íslenzk þjóð." „Takmark þjóðernisjafnaðarstefnunnar er að skapa Volksgemeinschaft —þjóðarsamfélag, órjúfandi þjóðarheild…Stéttamunurinn á að hverfa og allur ágreiningur, sem stafað getur af mismunandi uppeldi manna…Í því skyni starfa hin stóru æskulýðsfélög —Hitlersæskufélögin …„Ef þjóðin á að lifa, verður Marxisminn að deyja".[2]

Þrátt fyrir að Gyðingahatur væri eitt meginatriði í stefnu þýskra nasista skrifuðu flest málgögn íslenskra þjóðernissinna lítið um það. Hins vegar var Gyðinga stöku sinnum getið í tengslum við kommúnisma. Mjölnir, málgagn Félags þjóðernissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, var harðast í hatri á Gyðingum. Hins vegar var dýrkun á öllu "íslensku" og kynþáttahatur mikilvægur þáttur í hugmyndafræðinni. Helstu málgögn þjóðernissinnaflokksins voru Ísland og Ákæran.

Flokkur þjóðernissinna hætti að mestu störfum um 1940 en var formleg lagður niður 1944 þegar ósigur Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni var orðinn augljós. Flokkurinn bauð fram í Alþingiskosningum og bæjarstjórnarkosningum og varð fylgi hans mest í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík árið 1934, 2,8%, en það voru samanlagt 399 atkvæði.

Tengt efniBreyta

TilvísanirBreyta

  1. Iceland and the Jewish Question until 1940, Snorri G. Bergsson, 1994,1995.
  2. Ásgeir Guðmundsson: "Nazismi á Íslandi: Saga Þjóðernishreyfingar Íslendinga og Flokks Þjóðernissinna" Saga XIV (1976), 3-44.

Frekari fróðleikurBreyta

  • Ásgeir Guðmundsson (2009). Berlínarblús: íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista (2. útgáfa). Reykjavík: Skrudda.
  • Hrafn Jökulsson & Illugi Jökulsson (1988). Íslenskir nasistar. Reykjavík: Tákn.
  • Þór Whitehead (1998). Íslandsævintýri Himmlers 1935-1937 (2. útgáfa). Reykjavík: Vaka-Helgafell.