Þjóðargrafreiturinn
Þjóðargrafreiturinn er stór hringlaga upphækkaður (hlaðinn) grafreitur á Þingvöllum, austan megin við Þingvallakirkju. Staðurinn var gerður og vígður 27. janúar 1940 í tilefni af útför Einars Benediktssonar skálds. Frumkvæði að stofnun grafreitsins kom frá Þingvallanefnd og formanni hennar, Jónasi Jónssyni frá Hriflu sem sagði í blaðagrein 1947 að hann ætti að verða „Westminster Abbey Íslands“[1]. Í vígsluræðu sagði Gísli Skúlason, prófastur á Eyrarbakka m.a.:[2]
Vjer erum hjer að taka upp nýjan grafreit, ekki kirkjugarð neinnar sjerstakrar sóknar, heldur grafreit, þar sem fleiri mönnum er ætlaður legstaður, sem þjóðin vill sjerstakan heiður sýna |
Þann 16. nóvember 1946 voru svo bein Jónasar Hallgrímssonar grafin í reitnum að frumkvæði Þingvallanefndar og Jónasar frá Hriflu. Síðan þá hefur enginn verið grafinn í grafreitnum og hugmyndin um „þjóðargrafreit“ því í raun orðið að engu þótt ýmsir hafi orðið til þess að stinga upp á breyttri sýn á hlutverk grafreitsins. Hugsanlega hefur vandræðagangurinn í kringum Beinamálið og aðkoma Jónasar frá Hriflu orðið til þess að skapa honum visst óorð.[3]
Haustið 1959 ritaði Félag íslenskra myndlistarmanna Þingvallanefnd bréf þar sem lagt var til að höggmyndin Víkingurinn eftir Sigurjón Ólafsson yrði sett upp í grafreitnum til minningar um ónefnd skáld og höfunda fornsagnanna.[4] Það var ekki gert.
Í ágúst 2007 sýndi Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður, ljósmyndaverkið Morgunn á Þingvöllum á sýningu í Ketilshúsinu á Akureyri þar sem þrjár fyrirsætur sitja fyrir í bikiní á steininum yfir beinum Jónasar. Verkið vakti þó fyrst almenna athygli þegar það var notað sem mynd á plötuumslagi á breiðskífu Megasar og Senuþjófanna Hold er mold.
Eftir lát bandaríska skákmeistarans Bobby Fischer í janúar 2008 kom upp sú hugmynd hjá stuðningsmannahópi hans að hann yrði grafinn í Þjóðargrafreitnum. Í tengslum við þá umræðu skrifaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni „Frá því ég varð formaður Þingvallanefndar árið 1992 hefur ekki verið rætt, hvort taka eigi nýja gröf í þjóðargrafreitnum. Ríkir þegjandi samkomulag um, að grafreiturinn fái að hvíla í friði.“[5]
Heimildir
breyta- ↑ Jónas Jónsson, „Þrjú tímabil í sögu Þingvalla“, Heimskringla 23. apríl, 1947, bls. 2.[óvirkur tengill]
- ↑ „Útförin“, Morgunblaðið, 28. janúar, 1940, bls. 3/6.
- ↑ Rúnar Kristjánsson, „Gleymdur helgistaður - eða hvað?“, Morgunblaðið, 4. mars, 1998, bls. 43.
- ↑ „Höggmynd Sigurjóns verði minnismerki um skáldið ókunna“, Morgunblaðið, 15. október, 1959, bls. 18.[óvirkur tengill]
- ↑ Björn Bjarnason. „Dagbókin - sunnudagur 20. 01. 08“. Sótt 20. janúar 2008.