Þjóðargrafreiturinn

(Endurbeint frá Þjóðargrafreitur)

Þjóðargrafreiturinn er stór hringlaga upphækkaður (hlaðinn) grafreitur á Þingvöllum, austan megin við Þingvallakirkju. Staðurinn var gerður og vígður 27. janúar 1940 í tilefni af útför Einars Benediktssonar skálds. Frumkvæði að stofnun grafreitsins kom frá Þingvallanefnd og formanni hennar, Jónasi Jónssyni frá Hriflu sem sagði í blaðagrein 1947 að hann ætti að verða „Westminster Abbey Íslands“[1]. Í vígsluræðu sagði Gísli Skúlason, prófastur á Eyrarbakka m.a.:[2]

Þjóðargrafreiturinn. Legsteinar Jónasar og Einars eru næst kirkjunni.
Vjer erum hjer að taka upp nýjan grafreit, ekki kirkjugarð neinnar sjerstakrar sóknar, heldur grafreit, þar sem fleiri mönnum er ætlaður legstaður, sem þjóðin vill sjerstakan heiður sýna

Þann 16. nóvember 1946 voru svo bein Jónasar Hallgrímssonar grafin í reitnum að frumkvæði Þingvallanefndar og Jónasar frá Hriflu. Síðan þá hefur enginn verið grafinn í grafreitnum og hugmyndin um „þjóðargrafreit“ því í raun orðið að engu þótt ýmsir hafi orðið til þess að stinga upp á breyttri sýn á hlutverk grafreitsins. Hugsanlega hefur vandræðagangurinn í kringum Beinamálið og aðkoma Jónasar frá Hriflu orðið til þess að skapa honum visst óorð.[3]

Haustið 1959 ritaði Félag íslenskra myndlistarmanna Þingvallanefnd bréf þar sem lagt var til að höggmyndin Víkingurinn eftir Sigurjón Ólafsson yrði sett upp í grafreitnum til minningar um ónefnd skáld og höfunda fornsagnanna.[4] Það var ekki gert.

Í ágúst 2007 sýndi Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður, ljósmyndaverkið Morgunn á Þingvöllum á sýningu í Ketilshúsinu á Akureyri þar sem þrjár fyrirsætur sitja fyrir í bikiní á steininum yfir beinum Jónasar. Verkið vakti þó fyrst almenna athygli þegar það var notað sem mynd á plötuumslagi á breiðskífu Megasar og Senuþjófanna Hold er mold.

Eftir lát bandaríska skákmeistarans Bobby Fischer í janúar 2008 kom upp sú hugmynd hjá stuðningsmannahópi hans að hann yrði grafinn í Þjóðargrafreitnum. Í tengslum við þá umræðu skrifaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni „Frá því ég varð formaður Þingvallanefndar árið 1992 hefur ekki verið rætt, hvort taka eigi nýja gröf í þjóðargrafreitnum. Ríkir þegjandi samkomulag um, að grafreiturinn fái að hvíla í friði.“[5]

Heimildir

breyta
  1. Jónas Jónsson, „Þrjú tímabil í sögu Þingvalla“, Heimskringla 23. apríl, 1947, bls. 2.[óvirkur tengill]
  2. „Útförin“, Morgunblaðið, 28. janúar, 1940, bls. 3/6.
  3. Rúnar Kristjánsson, „Gleymdur helgistaður - eða hvað?“, Morgunblaðið, 4. mars, 1998, bls. 43.
  4. „Höggmynd Sigurjóns verði minnismerki um skáldið ókunna“, Morgunblaðið, 15. október, 1959, bls. 18.[óvirkur tengill]
  5. Björn Bjarnason. „Dagbókin - sunnudagur 20. 01. 08“. Sótt 20. janúar 2008.

64°15′27″N 21°07′13″V / 64.2574°N 21.1204°V / 64.2574; -21.1204