Þórður Guðmundsson (lögmaður)

Þórður Guðmundsson (15248. apríl 1608) var lögmaður og sýslumaður á Íslandi á 17. öld. Hann var Borgfirðingur og bjó lengst á Hvítárvöllum.

Foreldrar Þórðar voru Guðmundur Erlendsson, sem var sveinn Gissurar biskups og síðar bóndi í Þingnesi í Bæjarsveit, og kona hans Ástríður, dóttir Halldórs Tyrfingssonar, síðasta ábóta í Helgafellsklaustri. Þórður var sveinn hjá Daða Guðmundssyni í Snóksdal en fór svo að búa í Þingnesi. Síðan bjó hann á Hvítárvöllum en hafði líka bú á Melum og í Reykholti.

Hann varð lögumaður sunnan og austan árið 1570 og gegndi því embætti í 36 ár, eða allt til 1605. Hann þótti fara nokkuð vel með vald sitt, fylgdi Jóni Jónssyni lögmanni norðan og vestan gegn biskupum og kirkjuvaldi en var varkárari og ekki eins áberandi og var aldrei í óvináttu við andstæðingana. Hann var lengi sýslumaður í Borgarfirði og raunar líka prófastur til 1573-1574, þegar bannað var að veraldlegir embættismenn væru prófastar jafnframt. Þórður hélt bók yfir dóma sína og er hún enn til. Eins er til bréf sem Þórður skrifaði 1601 eftir harðindaveturinn Lurk.

Þeir Jón Jónsson voru embættisbræður í 33 ár en þegar Jón lést vorið 1606 var Þórður kominn um áttrætt og treysti sér ekki til að gegna embættinu lengur, svo að hann sagði af sér en Gísli sonur hans var kjörinn til að taka við og gegndi hann lögmannsembættinu frá og með Alþingi 1606.

Kona Þórðar var Jórunn, dóttir Þórðar Einarssonar prests í Hítardal og fylgikonu hans, Þuríðar stóru Einarsdóttur, sem síðar fylgdi Sigmundi Eyjólfssyni biskupi og enn síðar Oddi Gottskálkssyni. Á meðal barna þeirra var Gísli Þórðarson lögmaður.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Páll Vigfússon
Lögmaður sunnan og austan
(15701605)
Eftirmaður:
Gísli Þórðarson