Ísleifur Einarsson

Ísleifur Einarsson (21. maí 176523. júlí 1836) var íslenskur sýslumaður og dómari í landsyfirréttinum og gengdi embætti bæði amtmanns og stiftamtmanns í afleysingum.

Ísleifur var fæddur á Ási í Holtum og var sonur Einars Jónssonar skólameistara í Skálholti og síðar sýslumanns og konu hans Kristínar Einarsdóttur. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1783 og var fyrst skrifari Jóns Jónssonar sýslumanns á Móeiðarhvoli. Hann fór til náms við Kaupmannahafnarháskóla 1787 og lauk lögfræðiprófi 1790. Sama ár varð hann sýslumaður í Húnavatnssýslu og bjó á Geitaskarði.

Árið 1800 var hann skipaður assessor í yfirréttinum, varð 1. assessor 1817 og yfirdómari 1834. Hann var etatsráð að nafnbót frá 1817. Ísleifur gegndi embætti amtmanns í Suður- og Vesturamti í fjarveru Stefáns Þórarinssonar 1804-1805 og embætti stiftamtmanns 1815-1816, þegar Castenskjöld stiftamtmaður var settur af um stundarsakir.

Eftir að Ísleifur varð dómari bjó hann fyrst í Reykjavík en flutti sig svo að Brekku á Álftanesi og dó þar. Fyrri kona hans var Guðrún Þorláksdóttir (d. 1801) og síðari kona hans Sigríður Gísladóttir Thorarensen, prófasts í Odda.

Heimildir

breyta
  • „Candidati juris. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árgangur 1882“.