ISIS-K
Íslamska ríkið í Khorasan (arabíska: الدولة الإسلامية – ولاية خراسان; al-Dawlah al-Islāmīyah – Wilāyat Khurāsān) (skammstafað ISIS–K eða IS–KP) er undirdeild salafísku hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins (ISIS) sem er virk í Mið- og Suður-Asíu, aðallega í Afganistan og Pakistan. Markmið ISIS-K er að kollvarpa sitjandi stjórnvöldum á hinu sögulega Khorasan-svæði og stofna til kalífadæmis í Mið- og Suður-Asíu sem eigi að vera stýrt samkvæmt strangtúlkun á íslömskum sjaríalögum.[1]
Íslamska ríkið – Khorasan الدولة الإسلامية – ولاية خراسان | |
---|---|
Skammstöfun | ISIS–K eða IS–KP |
Stofnun | 26. janúar 2015 |
Staðsetning | Afganistan og Pakistan |
Leiðtogi | Wali:
|
Móðurfélag | Íslamska ríkið |
Hugmyndafræði | Jihadismi, íslömsk bókstafstrú, wahhabismi |
Söguágrip
breytaISIS-K var stofnað árið 2015, á þeim tíma er Íslamska ríkið (ISIS) var á hátindi valda sinna í Írak og Sýrlandi. Samtökin voru stofnuð af Afgönum og Pakistönum sem gengu úr röðum Talíbana þar sem þeim fannst Talíbanahreyfingin ekki nægilega róttæk.[2] Ólíkt Talíbönum, sem einskorðuðu starfsemi sína að mestu við Afganistan, voru ISIS-K þátttakendur í alþjóðlegu tengslaneti ISIS sem stóð fyrir árásum gegn því sem þótti vestrænt eða alþjóðlegt. Samtökin komu sér upp höfuðstöðvum í Nangarhar-héraði í austurhluta Afganistans, þar sem þau höfðu aðgang að leiðum til að smygla fólki og eiturlyfjum yfir landamærin til Pakistan.[3]
Árið 2021 voru liðsmenn ISIS-K um 3.000 talsins og áttu í átökum bæði við Talíbana og við alþjóðleg herlið sem þá voru staðsett í Afganistan. ISIS-K hlaut orð á sig sem einn öfgakenndasti og ofbeldisfyllsti angi Íslamska ríkisins og samtökin frömdu fjölda ofbeldisverka. Meðal annars beindust árásir samtakanna að stúlknaskólum og fæðingardeildum á sjúkrahúsum þar sem liðsmenn þeirra voru sakaðir um að skjóta barnshafandi konur og hjúkrunarfræðinga til bana.[3]
Undir lok stríðsins í Afganistan árið 2021, þegar Bandaríkjamenn hófu að draga burt herafla sinn og Talíbanar endurheimtu stjórn í landinu, áttu liðsmenn ISIS-K í stöðugum hótunum við Bandaríkjaher.[4] Þann 26. ágúst 2021 stóð ISIS-K fyrir tveimur sprengjuárásum á alþjóðaflugvöllinn í Kabúl, þar sem mikill mannfjöldi var kominn saman til að reyna að flýja land af ótta við endurkomu Talíbana á valdastól.[3] Alls létust 183 í árásunum, þar á meðal þrettán bandarískir hermenn.[1][5]
Leiðtogi ISIS-K frá árinu 2020 hefur verið Afgani að nafni Sanaullah Ghafari. Hann er eftirlýstur af Bandaríkjamönnum, sem lofa tíu milljónum Bandaríkjadala fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku eða dauða hans. Undir forystu Ghafari hefur ISIS-K leitað til Tadsíkistan og Úsbekistan eftir nýliðum á síðari árum.[1]
ISIS-K lýsti yfir ábyrgð á hryðjuverkaárás á tónleikahöllina Crocus City Hall sem framin var í Moskvu þann 22. mars árið 2024.[6] Fréttaveitur og samfélagsmiðlar ISIS-K birtu stuttu síðar myndbönd af vettvangi árásarinnar.[7] Um 140 manns létust í árásinni og var hún mannskæðasta hryðjuverkaárás í Rússlandi í um tvo áratugi. Fjórir menn frá Tadsíkistan voru handteknir vegna árásarinnar á næstu dögum.[8]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 Samúel Karl Ólason (26. mars 2024). „Hverjir eru ISKP? Skæðasti angi Íslamska ríkisins teygir anga sína til Moskvu“. Vísir. Sótt 28. mars 2024.
- ↑ „Það sem við vitum um samtökin alræmdu sem frömdu voðaverkið í Moskvu“. DV. 25. mars 2024. Sótt 25. mars 2024.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Hver eru Isis-K hryðjuverkasamtökin?“. mbl.is. 26. ágúst 2021. Sótt 28. mars 2024.
- ↑ „„Afganistan orðið að Las Vegas hryðjuverkamanna"“. mbl.is. 25. ágúst 2021. Sótt 28. mars 2024.
- ↑ Hashemi, Sayed Ziarmal; Baldor, Lolita C.; Gannon, Kathy; Knickmeyer, Ellen (27. ágúst 2021). „US forces keep up Kabul airlift under threat of more attacks“. Associated Press. Afrit af uppruna á 27. ágúst 2021. Sótt 27. ágúst 2021.
- ↑ Samúel Karl Ólason (22. mars 2024). „ISIS lýsir yfir ábyrgð á árásinni í Moskvu“. Vísir. Sótt 26. mars 2024.
- ↑ Ólafur Björn Sverrisson (24. mars 2024). „ISIS birtir hryllingsmyndbönd af árásinni“. Vísir. Sótt 26. mars 2024.
- ↑ „Árásarmennirnir frá Tadsíkistan“. mbl.is. 23. ágúst 2021. Sótt 29. mars 2024.