Tegund í útrýmingarhættu

(Endurbeint frá Í útrýmingarhættu)

Tegund í útrýmingarhættu er hópur lífvera, venjulega flokkunarfræðileg tegund, sem vegna lítils fjölda eða breytinga á búsvæðum á á hættu að vera útdauða, þ.e. hverfa af yfirborði jarðar. Í mörgum löndum heims eru sérstök lög sem kveða á um sérstaka vernd fyrir slíkar tegundir eða búsvæði þeirra; til dæmis lög sem banna veiðar, takmarka landnýtingu eða afmarka verndarsvæði. Einungis nokkrar af þessum tegundum komast á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu en flestar þeirra deyja einfaldlega út án þess að nokkur taki eftir því.

Ástand stofns
eftir hættustigi á Rauða lista IUCN

Tegundir hafa reglulega þróast og dáið út frá upphafi lífs. Helsta áhyggjuefnið nú er aukin tíðni útdauða á síðustu 150 árum eða svo, þ.e. eftir iðnbyltinguna og fólksfjölgun samfara henni, sem á sér enga hliðstæðu í þróunarsögunni. Ef líffræðilegur fjölbreytileiki heldur áfram að minnka með slíkum hraða (eða auknum hraða, eins og virðist vera raunin) gætu milljónir tegunda dáið út á næsta áratug. Þótt jafnan veki mesta athygli þegar stór spendýr eða fuglar eru í útrýmingarhættu, þá stafar mesta hættan af röskun á stöðugleika heilla vistkerfa þegar lykiltegundir hverfa á einhverjum stigum fæðukeðjunnar.

Dæmi um dýr sem finnast við Ísland og eru í útrýmingarhættu eru sandreyður, steypireyður, langreyður, íslandssléttbakur, lúða, gítarfiskur og vínlandskarfi.

Ástand stofns

breyta

Ástand stofns gefur vísbendingu um líkurnar á því að tegund haldi áfram tilveru sinni. Mörg atriði eru tekin með í reikninginn þegar reynt er að meta ástand stofna; ekki aðeins fjöldi einstaklinga á tilteknum tíma, heldur einnig breytingar á stofnstærð í tíma, æxlunartíðni, þekktar ógnir og svo framvegis. 189 lönd (þar á meðal Ísland) hafa undirritað samning um líffræðilegan fjölbreytileika sem felur í sér að hvert land búi til aðgerðaáætlun um líffræðilegan fjölbreytileika til að vernda og byggja upp stofna í útrýmingarhættu.

Þekktasti listinn yfir ástand stofna frá verndarsjónarmiði er rauði listi IUCN. IUCN heldur utanum gagnagrunn yfir mat á stofnstærð yfir 60 þúsund tegunda, en af þeim er um þriðjungur talinn vera í útrýmingarhættu.

Myndasafn

breyta