Álfur úr Króki (d. 1305) eða Krók-Álfur var norskur embættismaður, sendimaður Hákonar háleggs Noregskonungs. Hann kom fyrst til Íslands 1301 ásamt Bárði Högnasyni og Loðni af Bakka, sem áttu að verða lögmenn á Íslandi. Álfur hafði aftur á móti með sér ýmis bréf og kröfur Hákonar háleggs, sem hafði tekið við konungdæmi í Noregi 1299 og vildi að Íslendingar hylltu sig sem konung.

Íslendingar tóku erindum þeirra illa og töldu að konungur ætti engan rétt til að útnefna lögmenn á Íslandi, það væri hlutverk Alþingis að kjósa þá. Varð ekkert af hyllingunni og þremenningarnir fóru bónleiðir til búðar. Sumarið eftir hylltu landsmenn þó Hákon konung á Alþingi en settu ýmis skilyrði, þar á meðal um endurskoðun Jónsbókar með bestu manna ráði, auk þess sem Gamli sáttmáli skyldi endurskoðaður.

Álfur og Bárður Högnason komu aftur til Íslands 1303 með ýmis konungsbréf og erindi, þar á meðal þann boðskap að hver maður íslenskur sem ætti eignir að verðmæti fimm hundruð eða meira, skyldi gjalda konungi eina alin af hverju hundraði. Einnig stefndu þeir allmörgum íslenskum höfðingjum utan á fund Noregskonungs. Ekki voru undirtektir Íslendinga góðar við þessum erindum og utanstefnum, Íslendingar höfðu lítinn áhuga á að láta stefna sér á konungsfund og leggja í langar og hættulegar utanlandsferðir.

Álfur fór um landið með bréf sín en var illa tekið. Skagfirðingar gerðu aðsúg að honum á Hegranesþingi sumarið 1304, svo að hann „vissi varla, hvar hann átti að hafa sig. Börðu strákar og lausamenn á skjöldu og með óp og háreysti. Varð hans hjálp það, að þeir drápu hann ekki, að herra Þórður af Möðruvöllum og aðrir herrar létu bera skjöldu upp fyrir hann,“ segir í Lárentíusar sögu biskups.

Álfur fór þá norður í Eyjafjörð og var þar gert hróp að honum á Oddeyrarþingi. Hann fór þá í Dunhaga í Hörgárdal og ætlaði að hafa þar vetursetu en skömmu eftir jól veiktist hann og dó. Sú saga komst á kreik að Íslendingar hefðu drepið hann og þurftu margir síðar að sverja konungi eið að því að svo hefði ekki verið.

Hemildir

breyta
  • „Skelfdur Krók-Álfur. Þjóðviljinn, 27. október 1953“.