Hegranesþing var vorþing Skagfirðinga á þjóðveldisöld og var haldið í landi jarðarinnar Garðs í Hegranesi. Þar voru einnig haldin fjórðungsþing. Sýslan hafði lengi nafn af þinginu og var kölluð Hegranesþing eða Hegranessýsla. Staðurinn er mjög miðsvæðis í héraðinu og liggur vel við samgöngum bæði af landi og sjó, en talið er að sjór hafi áður náð að brekkunni neðan við þingstaðinn.

Þingstaðurinn er um 500 metra út og niður frá bænum Garði og má þar greina nokkra tugi tófta sem flestar eru líklega búðarústir frá þingtímanum. Einnig er þar hringlaga garður sem í ljós hefur komið við uppgröft að er kirkjugarður sem virðist hafa verið í notkun á 11. og 12. öld og einnig má finna merki um túngarð býlis sem hefur verið þarna við þingstaðinn.

Hegranesþing kemur við sögu í nokkrum fornsögum, þar á meðal Grettis sögu, þar sem segir frá því að útlaginn Grettir mætti dulbúinn til þings og voru voru boðin full grið um þingtímann ef hann vildi glíma við helstu kappa Skagfirðinga. Þekktasti atburðurinn sem gerðist á Hegranesþingi er þó líklega þegar Skagfirðingar gerðu aðsúg að Álfi úr Króki, sendimanni Noregskonungs, árið 1305. Álfur komst undan við illan leik og hraktist til Eyjafjarðar, þar sem hann dó nokkru síðar.

Talið er að þinghaldið hafi lagst af á 14. öld. Þingstaðurinn er friðlýstur en hefur lítið verið rannsakaður enn sem komið er.

Heimildir

breyta
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar V. bindi. Rípurhreppur - Viðvíkurhreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2011. ISBN 978-9979-861-17-1.
  • „Friðlýst svæði: Hegranesþing. Morgunblaðið, 13. júlí 1973“.