Einmánuður

Mánuður í norræna tímatalinu
(Endurbeint frá Yngismannadagur)

Einmánuður er sjötti mánuður ársins í gamla norræna tímatalinu og síðasti vetrarmánuðurinn. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld. Hann ásamt gormánuði, þorra og góu eru einu mánaðarnöfnin í gamla norræna tímatalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið af því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið eindagi sem þýðir síðasti dagur.

Fyrsti dagur einmánaðar er helgaður piltum eins og harpa stúlkum og þorri og góa húsbændum og húsfrúm og ýmist kallaður yngismannadagur eða yngisveinadagur. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og veita piltum glaðning. Árið 2022 var stungið upp á því að fyrsti dagur einmánaðar yrði nefndur kváradagur.[1][2]

Heitdagur

breyta
 
Ludvig Harboe (1709 – 1783) var danskur prestur, Hólabiskup 1741 til 1745 og jafnframt Skálholtsbiskup eitt ár frá 1744 til 1745 og Sjálandsbiskup frá 1757.

Venja var að haldnar væru þrjár samkomur á ári í hverjum hrepp til að ræða sameiginleg mál eins og fátækratíund og fjallskil. Ein var að hausti önnur á lönguföstu og þriðja eftir vorþing. Á Norðurlandi var samkoman á föstunni haldin fyrsta dag einmánaðar og hann nefndur heitdagur en þá var einkum safnað heitum fyrir fátæka.

Árin 1741–45 fóru þeir Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson Thorcillius í eftirlitsferð til Íslands að undirlagi Jóns og með samþykki danskra stjórnvalda og í framhaldi lögðu þeir til ýmsar breytingar á helgidagahaldi á landinu. Var þá heitdagur eitt af því sem aflagt var með konunglegri tilskipun 29. maí 1744 og norðlendingum skipað að flytja hann yfir á næst sunnudag er fólk kæmi almennt til messu. Var það með þeim rökum að ekki tíðkaðist þessi siður annarstaðar í Danaveldi. Norðlendingar rituðu konungi ítarlega greinargerð og bænarskjal árið 1755 um að fá að halda deginum en því var hafnað.

Nokkur skipti var reynt að endurvekja einmánaðarsamkomu á Norðurlandi upp úr aldamótunum 1900 og dæmi eru líka þekkt að fólk sendi fátækum nágrönnum sínum mat á þessum degi þegar harðæri var.

Vorverk í einmánuði

breyta

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður.

Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann géri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna.[3]

Veðurspá tengd einmánuði

breyta

Ekki er mikið um veðurspár tengdar einmánuði utan að trúað var að ef fyrsti dagur einmánaðar vari blautur, boðaði það gott vor. Gæti það tengst ofangreindri lýsingu Björns. Er til vísubrot um það:

Þurr skyldi þorri,
þeysöm góa,
votur einmánuður,
þá mun vel vora.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. „https://twitter.com/skvisuregn/status/1484596084970344448“. Twitter (enska). Sótt 22. mars 2022.
  2. „Stofn­að­i sinn eig­in há­tíð­is­dag fyr­ir kyn­seg­in fólk“. www.frettabladid.is. Sótt 22. mars 2022.
  3. Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn
  4. „Vísindavefur.is“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. apríl 2011. Sótt 19. mars 2011.

Heimildir

breyta
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.
  • Björn Halldórsson (1780). Atli.

Tenglar

breyta