William Lyon Mackenzie King

10. forsætisráðherra Kanada (1874-1950)

William Lyon Mackenzie King (17. desember 1874 – 22. júlí 1950) var helsti stjórnmálaleiðtogi Kanada frá þriðja áratugi 20. aldar fram á fimmta áratuginn. Hann var forsætisráðherra Kanada á árunum 1921–1926, 1926–1930 og 1935–1948. Hann er einna helst þekktur fyrir að leiða Kanada í gegnum seinni heimsstyrjöldina, en á stríðsárunum safnaði stjórn hans saman kanadískum fjármunum, birgðum og sjálfboðaliðum til að koma Bretlandi til hjálpar. Auk þess átti King drjúgan þátt í að byggja upp velferðarríki í Kanada. King sat lengst allra forsætisráðherra Kanada, í alls 21 ár og 154 daga.

William Lyon Mackenzie King
Mackenzie King árið 1942.
Forsætisráðherra Kanada
Í embætti
29. desember 1921 – 28. júní 1926
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
LandstjóriByng lávarður af Vimy
ForveriArthur Meighen
EftirmaðurArthur Meighen
Í embætti
25. september 1926 – 7. ágúst 1930
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
LandstjóriByng lávarður af Vimy
Markgreifinn af Willingdon
ForveriArthur Meighen
EftirmaðurR. B. Bennett
Í embætti
23. október 1935 – 15. nóvember 1948
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
Játvarður 8.
Georg 6.
LandstjóriJarlinn af Bessborough
Tweedsmuir lávarður
Jarlinn af Athlone
Alexander vísigreifi
ForveriR. B. Bennett
EftirmaðurLouis St. Laurent
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. desember 1874
Kitchener, Ontario, Kanada
Látinn22. júlí 1950 (75 ára) Chelsea, Quebec, Kanada
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
TrúarbrögðSpíritismi
HáskóliUniversity-háskóli
Osgoode Hall-lagaskóli
Chicago-háskóli
Harvard-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip

breyta

William Lyon Mackenzie King fæddist árið 1874 í Ontario og var faðir hans lagakennari. Hann lauk fyrst háskólanámi í Toronto en fór síðan í framhaldsnám í Chicago-háskóla og Harvard-háskóla. King var efnilegur nemandi og því styrkti Harvard-háskóli hann til námsferðar til Evrópu. Á meðan hann dvaldi þar fékk hann tilboð frá kanadísku stjórninni um að gerast skrifstofustjóri í nýju ráðuneyti sem sneri að verkalýðsmálum. King þáði boðið og gegndi starfinu til ársins 1909.[1]

Árið 1909 varð King vinnumálaráðherra í stjórn Wilfrids Laurier. Hann gegndi ráðherraembætti til ársins 1911 en tók þá að sér ýmis störf, meðal annars hjá Rockefeller-stofnuninni.[1]

King var kjörinn leiðtogi kanadíska Frjálslynda flokksins eftir dauða Lauriers árið 1919.[1] Honum tókst að koma á sáttum eftir djúpstæðan klofning sem orðið hafði í Frjálslynda flokknum í fyrri heimsstyrjöldinni og leiddi flokkinn til sigurs í kosningum árið 1921. Frjálslyndi flokkurinn var í stjórnarandstöðu á verstu köflum kreppunnar miklu í Kanada en komst aftur til valda þegar efnahagur landsins var á batavegi. King sá um samskipti við sléttuhéröð Kanada á meðan aðstoðarmenn hans, Ernest Lapointe og Louis St. Laurent, sáu um að koma til móts við kröfur frönskumælandi Kanadabúa.

Í seinni heimsstyrjöldinni forðaðist King ágreiningsmál um herkvaðningu, þjóðrækni og þjóðarímynd sem höfðu sundrað þjóðinni verulega á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar. Ólíkt því sem hafði gerst í fyrri heimsstyrjöldinni fylgdi Kanada Bretum ekki umsvifalaust í stríð gegn Þjóðverjum, heldur beið King í eina viku og leyfði Kanadamönnum að ná áttum svo þeir gætu sjálfir tekið ákvörðun um stríðsyfirlýsingu sem fullvalda ríki. Að þessari viku liðinni lét King kjósa um stríðsyfirlýsinguna á þingi og var hún samþykkt með öllum atkvæðum.[2]

Stjórn Kanada fann ekki upp á mörgum nýjungum á ráðherratíð Kings en stjórninni tókst þó að vinna almennan stuðning fyrir mörgum stefnumálum sínum. Fræðimenn benda á ýmsar ástæður fyrir því hve lengi King sat í formennsku Frjálslynda flokksins: Hann var kunnur málefnum efnahags og verkalýðs, næmur fyrir smáatriðum almennrar stjórnsýslu og var sjálfur vinnuþjarkur sem þótti bæði greindur og kunnugur hinu flókna samfélagi Kanada. King vildi að Frjálslyndi flokkurinn stæði fyrir frjálslynda samráðsskipan til þess að stuðla að samfélagseiningu landsins.

Ævisöguritarar Kings benda á ýmis persónueinkenni hans sem gerðu hann frábrugðinn samtímamönnum sínum. Hann bjó ekki yfir miklum persónutöfrum, ræðuhæfileikum né valdsmannslegri nærveru.[1] Flest ritverk eftir hann voru fræðilegs eðlis og höfðuðu lítið til kanadískra kjósenda. Hann þótti kaldur og þrátt fyrir að hafa unnið sér marga pólitíska bandamenn átti hann fáa nána vini. Hann kvæntist aldrei og átti því aldrei maka sem bætti upp fyrir litlausa almannaímynd hans.

King var spíritisti en hélt trú sinni leyndri fyrir almenningi. Hann hélt gjarnan miðilsfundi heima hjá sér og notaðist þar bæði við kristalskúlur og stafaborð. Í dagbókum Kings kemur fram að hann hafi talið sig sjá sýnir og dreymt um framtíðina.[3] Trú Kings á spíritisma var ekki gerð opinber fyrr en eftir dauða hans og olli hún þá miklu stjórnmálahneyksli í Kanada.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Mackensie King“. Tíminn. 28. janúar 1948. bls. 5.
  2. Stanley High (18. janúar 1946). „Forsætisráðherra Kanada: Einn af mestu stjórnmálamönnum heims“. Morgunblaðið. bls. 9; 12.
  3. „Leiðtogar bandamanna og miðlar“. Morgunn. 1. desember 1989. bls. 44-59.
  4. „Stjórnmálamaðurinn, sem leitaði sambands við Roosevelt forseta látinn“. Morgunn. 1. júní 1952. bls. 39-45.


Fyrirrennari:
Arthur Meighen
Forsætisráðherra Kanada
(29. desember 192128. júní 1926)
Eftirmaður:
Arthur Meighen
Fyrirrennari:
Arthur Meighen
Forsætisráðherra Kanada
(25. september 19267. ágúst 1930)
Eftirmaður:
R. B. Bennett
Fyrirrennari:
R. B. Bennett
Forsætisráðherra Kanada
(23. október 193515. nóvember 1948)
Eftirmaður:
Louis St. Laurent