Wilfrid Laurier
Sir Henri Charles Wilfrid Laurier (20. nóvember 1841 – 17. febrúar 1919) var sjöundi forsætisráðherra Kanada, í embætti frá 11. júlí 1896 til 6. október 1911. Hann var fyrsti frönskumælandi forsætisráðherra landsins.
Sir Wilfrid Laurier | |
---|---|
Forsætisráðherra Kanada | |
Í embætti 11. júlí 1896 – 6. október 1911 | |
Þjóðhöfðingi | Viktoría Játvarður 7. Georg 5. |
Landstjóri | Markgreifinn af Aberdeen Jarlinn af Minto Jarlinn af Grey |
Forveri | Charles Tupper |
Eftirmaður | Robert Borden |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 20. nóvember 1841 Saint-Lin–Laurentides, Québec, Kanada |
Látinn | 17. febrúar 1919 (77 ára) Ottawa, Kanada |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi flokkurinn |
Maki | Zoé Lafontaine |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Háskóli | McGill-háskóli |
Starf | Lögfræðingur |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaWilfrid Laurier fæddist í Québec árið 1841 til frönskumælandi foreldra. Hann gekk í háskóla í þorpinu L'Assomption og hóf eftir útskrift þaðan að nema lögfræði við McGill-háskóla. Á námsárum sínum varð hann rómaður fyrir mikla ræðuhæfileika.[1]
Eftir að Laurier tók lögfræðipróf hóf hann störf ásamt eldri lögfræðingi árið 1864. Hann var síðan kosinn á þingið í Québec árið 1871 og á kanadíska þingið fyrir Frjálslynda flokkinn árið 1874. Árið 1877 varð Laurier í stuttan tíma tollamálaráðgjafi í stjórn Alexanders Mackenzie en hann gegndi því embætti aðeins í um ár þar sem Frjálslyndir töpuðu kosningum árið 1878.[1]
Árið 1887 sagði Edward Blake, formaður Frjálslynda flokksins, af sér og Laurier var kjörinn til að taka við embættinu. Laurier vakti mikla athygli og vann sér inn mikla virðingu innan flokksins á árum sínum í stjórnarandstöðu. Sem leiðtogi kanadísku stjórnarandstöðunnar talaði Laurier gegn tollaverndarstefnu í Kanada og gegn kaþólsku klerkavaldi í Québec.[1]
Laurier tók harða afstöðu í deilu sem átti sér stað um skólalög í Manitoba á lokaárum 19. aldar. Deilt var um hvort ríkið skyldi áfram reka sérstaka, aðskilda skóla fyrir frönskumælandi kaþólikka annars vegar og fyrir enskumælandi mótmælendur hins vegar í fylkinu. Lögin um kaþólsku skólana höfðu verið sett þegar franskir kaþólikkar voru í meirihluta í Manitoba en með æ stærri íbúahóp enskumælandi mótmælenda var farið að líta á lögin sem tímaskekkju. Fylkisstjórn Manitoba lagði niður kaþólsku skólana árið 1890 en þar sem sú lagasetning braut í bága við hina fyrri varð málið að langvinnu þrætuepli í kanadískum stjórnmálum. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins var klofin í afstöðu sinni til málsins en Laurier, þrátt fyrir að vera sjálfur franskur kaþólikki, beitti sér af öllu afli gegn því að kaþólsku skólarnir yrðu settir á ný þar sem hann taldi fylkið hafa sjálfsákvörðunarrétt í málinu. Laurier vann sér einkum inn óvild kaþólskra biskupa í skólamálinu en þrátt fyrir áróður þeirra gegn honum vann Frjálslyndi flokkurinn stórsigur í kosningum árið 1896 og Laurier varð forsætisráðherra Kanada.[1]
Eftir að Laurier komst til valda kynnti hann málamiðlun í Manitoba-deilunni og stakk upp á því að kaþólikkum skyldi boðið upp á kaþólska ríkismenntun eftir tilvikum á stöðum þar sem nógu margir kaþólikkar væru búsettir. Þessi málamiðlun sefaði flesta og þótti Laurier almennt hafa leyst deiluna með prýði.
Stjórnartíð Lauriers einkenndist af vexti, iðnvæðingu og innflutningi. Laurier beitti sér fyrir auknu sjálfstæði Kanada en ræktaði um leið náin sambönd bæði við Bretland og við Bandaríkin. Stjórn Lauriers formfesti meðal annars aðild fylkjanna Saskatchewan og Alberta að ríkjasambandi Kanada og lagði drög að stofnun kanadísks herflota.
Laurier stýrði Kanada til ársins 1911 en þá leiddi „gagnskiptamálið“ (reciprocity) svokallaða til þess að Frjálslyndi flokkurinn bað ósigur í þingkosningum.[2] Málið snerist um andstöðu gegn fríverslunarsamningi sem stjórn Lauriers gerði við Bandaríkin. Íhaldsmenn hallmæltu samningnum og sögðu að áframhaldandi fríverslun við Bandaríkjamenn myndi á endanum leiða til þess að Kanada yrði innlimað inn í Bandaríkin. Vegna ólgu í eigin flokki kallaði Laurier til kosninga en tapaði gegn Íhaldsmönnum.
Laurier var leiðtogi stjórnarandstöðunnar á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann beitti sér gegn því að herkvaðning yrði tekin upp í styrjöldinni og neitaði að taka þátt í þjóðstjórn með Íhaldsmönnum. Laurier lést árið 1919 en Frjálslyndi flokkurinn komst aftur til valda árið 1921 og hefur áfram verið eitt af helstu öflum kanadískra stjórnmála.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Sir Wilfrid Laurier“. Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar. 1. janúar 1905. Sótt 8. janúar 2019.
- ↑ „Sir Wilfrid Laurier Látinn“. Voröld. 18. febrúar 1919. Sótt 8. janúar 2019.
Fyrirrennari: Charles Tupper |
|
Eftirmaður: Robert Borden |