Wikipedia:Grein mánaðarins/06, 2023
Óeirðirnar á Austurvelli áttu sér stað miðvikudaginn 30. mars 1949, vegna þess að til stóð að samþykkja þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið (NATÓ). Andstæðingar inngöngunnar, stuðningsmenn hennar og aðrir almennir borgarar flykktust á Austurvöll til að sjá hvað verða vildi, en sumir andstæðinganna létu grjóti, eggjum og mold rigna yfir Alþingishúsið. Lögregla ákvað að dreifa mannfjöldanum með því að varpa táragasi á hann. Varalið lögreglunnar var kallað út og voru varaliðarnir með breska hermannahjálma og armbindi, ýmist hvít eða í fánalitunum, sem einkenni. Þessi átök milli andstæðinga tillögunnar annars vegar og lögreglu, varaliðs hennar og stuðningsmanna tillögunnar hins vegar urðu mestu óeirðir sem orðið hafa á Íslandi.
Mikið hefur verið rætt og ritað um þessa atburði á Austurvelli og er ekki auðvelt að skera úr um sannleiksgildi frásagna og niðurstaðna. Sagnfræðingurinn Þór Whitehead hefur meðal annars haldið því fram að beinlínis hafi verið stefnt að valdaráni sósíalista með þessum aðgerðum. Aðrir, meðal annars Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, hafa hafnað þessari túlkun.