Wikipedia:Grein mánaðarins/06, 2007
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er æðstu lög Íslands, sem öll önnur lög landsins verða að hlíta. Núverandi stjórnarskrá var samþykkt sem lög nr. 33/1944 af Alþingi við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum, 17. júní 1944. Stjórnarskráin er í 80 greinum í 7 köflum og í henni er stjórnskipan landsins ákveðin og ýmis grundvallarréttindi borgaranna vernduð.
Með sambandslögunum 1918 varð Ísland fullvalda ríki og árið 1920 fékk landið nýja stjórnarskrá til að endurspegla þær miklu breytingar sem höfðu orðið á stjórnskipun þess. Sú stjórnarskrá var kölluð „Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands“. Snemma árs 1944 samþykkti Alþingi að fella niður sambandslögin og samþykkti nýja stjórnarskrá auk þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tveggja.