Wikipedia:Grein mánaðarins/03, 2021
Vidkun Quisling (18. júlí 1887 – 24. október 1945) var norskur stjórnmálamaður, herforingi og diplómati. Hann starfaði ásamt Fridtjof Nansen á árunum 1921 til 1922 við að skipuleggja hjálpastarf gegn hungursneyð í Sovétríkjunum og var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Bændaflokksins (Bondepartiet) 1931 - 1933. Árið 1933 sagði hann skilið við ríkisstjórnina og tók þátt í stofnun þjóðernissinnaflokksins Nasjonal Samling (Þjóðleg samstaða), en stefna flokksins einkenndist af ákafri þjóðernishyggju og andstöðu við kommúnisma og verkalýðshreyfingu. Flokkurinn fékk sáralítið fylgi í þingkosningum, 2,23 % í kosningunum 1933 og 1.83 % í kosningunum 1936. Í september 1939, þegar seinni heimsstyjöldin hafði skollið á, sótti Quisling Hitler heim, tókst Quisling þá að beina athygli Hitlers að Norðurlöndum. Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg 9. apríl 1940 og sama kvöld lýsti Quisling því yfir að stjórnin væri fallin og hann væri hinn nýi forsætisráðherra. Quisling sat þó einungis skamma stund að völdum í þetta sinn. Þjóðverjar gerðu hins vegar Quisling að forsætisráðherra í leppstjórn sinni 1942 og hélt hann því embæti til stríðsloka 1945. Hann var ákærður og dæmdur til dauða fyrir landráð og ýmsa aðra stríðsglæpi eftir stríð. Hann var tekinn af lífi 24. október 1945.
Á fjölmörgum tungumálum hefur nafn Quislings orðið að samheiti fyrir föðurlandssvikara. Á íslensku er orðið iðulega skrifað kvislingur sem merkir, samkvæmt Íslenskri orðabók, „landráðamaður, sá sem svíkur land sitt í hendur óvinahers”.