Wikipedia:Viðmið um eyðingu greina

(Endurbeint frá Wikipedia:Eyðing)

Viðmið um eyðingu greina eiga að hjálpa möppudýrum og öðrum notendum að átta sig á hvenær eðlilegt er að eyða grein af Wikipediu. Gengið er út frá að í ýmsum tilvikum sé eðlilegt að grein sé eytt umsvifalaust og án undangenginnar umræðu.

Eyðing greinar er ekki óafturkræf en einungis möppudýr geta afturkallað eyðingu og endurvakið grein sem hefur verið eytt. Þess vegna er eðlilegt að oft eigi sér stað umræða áður en grein er eytt en möppudýr getur þó eytt grein umsvifalaust og án undangenginnar umræðu ef það metur það svo að enginn raunhæfur möguleiki sé á því að efninu verði haldið.

Möppudýr ættu að gæta sín á að eyða ekki án undangenginnar umræðu grein eða öðru efni nema teljast megi augljóst að því beri að eyða. Ef niðurstaða eyðingartillögu er sú að halda beri efninu ætti aldrei að eyða því án undangenginnar umræðu nema í ljós komi að um höfundaréttarbrot sé að ræða.

Allir geta gert eyðingartillögu með því að merkja grein með eyðingarsniði. Áður en tillagan er gerð mættu notendur þó spyrja sig hvort ekki megi bæta greinina, gera hana að stubbi, sameina hana annarri grein eða gera hana að tilvísunarsíðu. Þegar notandi gerir tillögu um eyðingu greinar og þegar möppudýr eyðir grein strax, án nokkurrar umræðu, ætti að tilgreina einhverja ástæðu fyrir eyðingunni.

Höfundur síðu ætti ekki að fjarlægja sjálfur af síðunni merkingu um að eyðingartillaga hafi verið gerð. Þess í stað ætti höfundur síðunnar, sé hann ósammála tillögunni, að útskýra sjónarmið sitt á spjallsíðu greinarinnar: öðrum notendum ber að taka öll málefnaleg innlegg til greina. Ef stofnandi síðunnar þurrkar út allt efni á síðunni (að undanskildum notendasíðum og flokkasíðum) má gera ráð fyrir að slíkt jafngildi eyðingartillögu.

Viðmið

breyta

Almenn viðmið

breyta

Þessi viðmið eiga við í öllum nafnarýmum og eiga því við um greinar, aðgreiningarsíður, tilvísunarsíður, notendasíður, spjallsíður, síður merktar „Wikipedia:“ eða „Hjálp:“, snið og annað efni, svo sem myndir eða margmiðlunarefni:

A1. Augljóst bull.

Síðum, sem innihalda einungis bull — svo sem óskiljanlegan eða með öllu samhengislausan texta, ber að eyða. Ekki ætti að höfða til þessarar réttlætingar fyrir eyðingu greinar ef textigreinar er á slæmu máli en þó skiljanlegur.

A2. Síður á öðrum tungumálum.

Síður sem innihalda einungis texta á öðrum tungumálum má eyða fyrirvaralaust. Undanskildar eru notendasíður, tilvísunarsíður, spjallsíður og ýmsar myndir og margmiðlunarefni.

A3. Tilraunasíður.

Tilraunasíðum má eyða fyrirvaralaust að undanskildum sandkassanum, sem er beinlínis ætlaður fyrir tilraunastarfsemi notenda. Einnig ætti ekki að eyða notendasíðum vegna tilrauna notandans.

A4. Skemmdarverk og uppspuni.

Hreinum og klárum skemmdarverkum má eyða fyrirvaralaust, þar á meðal augljósum uppspuna og gabbi.

A5. Endursköpun á eyddu efni.

Ef efni, sem hefur verið eytt í kjölfar eyðingartillögu og umræðu, er endurskapað án umtalsverðra efnislegra breytinga má eyða því án frekari umræðu. Ef efnið er á hinn bóginn sett inn að nýju en með töluverðum efnislegum breytingum ætti að taka umræðuna upp að nýju enda kunna að vera breyttar forsendur.

A6. Efni sem bannaðir notendur setja inn.

Efni sem bannaðir notendur setja inn þvert gegn banni þeirra má eyða á ný án frekari umræðu ef aðrir notendur hafa ekki lagt umtalsvert að mörkum.

A7. Hreingerning og viðhald.

Efni má eyða við hreingerningu án umræðu, svo sem óþarfar tilvísunarsíður og þegar stofnun síðu eru augljós mistök.

A8. Höfundur síðu fer fram á eyðingu.

Ef höfundur síðu fer fram á eyðingu hennar má eyða síðunni án frekari umræðu ef enginn annar hefur lagt af mörkum til hennar. Þetta á ekki við um spjallsíður en þeim er ekki eytt nema í sérstökum kringumstæðum. Ef höfundur síðu eyðir öllu út af henni og enginn annar hafði lagt neitt af mörkum má eyða síðunni fyrirvaralaust og án umræðu.
A9. Efni sem tilheyrir öðru efni sem ekki er (lengur) til.
Ef síða tilheyrir öðru efni sem er ekki (lengur) til má eyða henni fyrirvaralaust og án undanfarandi umræðu. Dæmi um slíkt eru spjallsíður þar sem aðalsíðan er ekki (lengur) til, tilvísanir sem vísa á síður sem eru ekki (lengur) til og flokkar sem eru tómir og innihalda ekkert. Undantekningar ætti að gera ef efnið má teljast gagnlegt Wikipediu á einhvern hátt, þar á meðal spjallsíður sem innihalda gagnlegar umræður (til dæmis umræðu um eyðingartillögu) þótt aðalsíðan sé ekki til. Aldrei ætti að eyða notandaspjalli þótt notandinn hafi ekki komið sér upp notandasíðu.

A10. Tilgangslaust efni sem inniheldur hótanir eða aðdróttanir.

Eyða má fyrirvaralaust efni sem felur í sér hótun eða ógn eða aðdróttanir að einhverju tagi. (Sjá einnig: Wikipedia:Árásarsíður og Wikipedia:Engar persónulegar árásir) Einnig má eyða fyrirvaralaust æviágripi lifandi manneskju sé efni þess einungis neikvætt eða ærumeiðandi eða á einhvern hátt vafasamt og ósannreynanlegt. Ef síðan á sér breytingasögu ætti þó að breyta aftur til síðustu ásættanlegu útgáfu síðunnar. Ef æviágrip lifandi manneskju inniheldur slíkt vafasamt efni en einnig eðlilega umfjöllun um viðfangsefnið ætti að eyða út því sem er óviðeigandi en halda síðunni.

A11. Ótvíræð auglýsing eða áróður.

Síðum, sem innihalda ekkert nema ótvíræða auglýsingu eða áróður, má eyða fyrirvaralaust og án undanfarandi umræðu, ef ekki er unnt að gera efninu alfræðileg skil án mikillar fyrirhafnar. Athuga ber að greinar geta hæglega fjallað um fyrirtæki, vöru, samtök og stefnumál án þess að vera auglýsing eða áróður en hlutleysisreglan blífur sem endranær.

A12. Ótvíræð höfundarréttarbrot.

Eyða má fyrirvaralaust og án undanfarandi umræðu augljósum og ótvíræðum höfundaréttarbrotum. Ef höfundaréttarbrot leynast inni á milli annars efnis ætti ekki að eyða greininni í heild sinni nema ómögulegt sé án mikillar fyrirhafnar að bjarga henni og engin nothæf útgáfa er til í breytingaskránni.

A13. Eyðing á forsendum Wikimedia-stofnunarinnar.

Wikimedia-stofnunin áskilur sér rétt til að eyða tímabundið efnið fyrirvaralaust og án umræðu ef aðstæður krefjast. Slíka eyðingu ætti ekki að taka til baka að ófengnu leyfi frá Wikimedia-stofnuninni.

G1. Ekkert innihald.

Greinum, sem hafa ekkert raunverulegt innihald, má eyða fyrirvaralaust og án umræðu. Góð regla er þó að eyða ekki innihaldslausum greinum umsvifalaust þar eð höfundur, sem gæti verið óvanur wikisamfélaginu og vinnubrögðum og venjum þess, gæti enn verið að vinna í henni. Oft er miðað við tíu mínútur eða stundarfjórðung. Wikipedia ætti þó ekki að hafa innihaldslausar greinar. Aðgreiningarsíður og tilvísanir eru auðvitað undanskildar en greinar ættu að hafa eitthvert raunverulegt inntak. Myndir, tenglar, innri tenglar (það er að segja kaflinn „tengt efni“), tungumálatenglar og flokkamerkingar eru ekki nægt innihald greinar. Grein ætti að innihalda einhvern texta, sem er ekki einungis umorðun á titlinum. Á hinn bóginn geta stubbar verið gjaldgengir ef eitthvert samhengi er gefið; upplýsingasnið getur gefið slíkt samhengi.

G2. Óalfræðilegt efni: Orðabókaskilgreiningar.

Greinar mega ekki innihalda einungis orðabókaskilgreiningar. Raunar eiga greinar í fæstum tilvikum að skilgreina og fjalla um orðin, heldur eiga greinar að skilgreina og fjalla um það sem orðin vísa til enda er Wikipedia alfræðirit en ekki orðabók. Grein má eyða fyrirvaralaust ef innihald hennar er einungis orðabókaskilgreining.

G3. Óalfræðilegt efni: Frumtextar.

Auk orðabókaskilgreininga telst ýmislegt annað efni óalfræðilegt og á ekki heima í alfræðiriti. Þar má nefna frumtexta, svo sem sönglög og kvæði, smásögur, skáldsögur, þjóðsögur, lagabálka og reglugerðir og þess háttar. Ef innihald greinar er einungis af slíku tagi má eyða greininni fyrirvaralaust og án umræðu enda þótt ekki sé um höfundaréttarbrot að ræða. Efni af þessu tagi, sé það ekki háð höfundarétti, á með réttu heima á Wikiheimild, sem er systurverkefni Wikipediu.

G4. Óalfræðilegt efni: Tilvitnanir.

Tilvitnanir eru ekki einar og sér alfræðilegt efni. Þær geta vissulega átt sér sinn stað í greinum en grein má ekki innihalda einungis beinar tilvitnanir. Slíkum greinum má eyða fyrirvaralaust og án undanfarandi umræðu. Beinar tilvitnanir eiga með réttu heima á Wikivitnun, sem er eitt systurverkefna Wikipediu.

G5. Óalfræðilegt efni: Leiðbeiningar.

Hvers kyns leiðbeiningar eru óalfræðilegt efni, til dæmis leiðsögn um hvernig á að stofna bloggsíðu, nota tiltekið forrit, taka betri ljósmyndir eða elda kjötsúpu. Slíkt á ekki heima í alfræðiriti og greinum sem innihalda slíkt efni má eyða fyrirvara- og umræðulaust. Efni af þessu tagi gæti átt heima á Wikibókum, sem er systurverkefni Wikipediu.

G6. Óalfræðilegt efni: Persónulegar hugrenningar.

Persónulegar hugrenningar eiga ekki heima í greinum (sjá einnig G6 hér að neðan). Greinum, sem innihalda einungis persónulegar pælingar höfundar, má eyða fyrirvaralaust og án undanfarandi umræðu.

G7. Frumrannsóknir.

Ein af grunnreglum Wikipediu er frumrannsóknabannið og hún er ófrávíkjanleg. Ef grein inniheldur einungis frumrannsóknir ber að eyða henni. Sé augljóst að um frumrannsóknir sé að ræða má eyða greininni fyrirvara- og umræðulaust en liggi það ekki í augum uppi ætti fyrst að gera tillögu um eyðingu greinarinnar og fara fram á áreiðanlegar heimildir á spjallsíðunni. Undantekning frá frumrannsóknabanninu er hvers kyns myndefni.

G8. Ómarkvert efni.

Ekki ætti að stofna greinar um ómarkvert efni. Ef slíkt er gert ætti alla jafnan ekki að eyða greininni umræðulaust, heldur merkja fyrst greinina með eyðingarsniði eða hefja umræðu á spjallsíðu greinarinnar. Þó geta verið augljós dæmi um ómarkvert viðfangsefni sem eyða má fyrirvara- og umræðulaust, til dæmis grein um tréð í garði notandans eða saumaklúbb hans. Jafnframt er eðlilegt að eyða greinum þar sem ekki er gerð tilraun til þess að sýna fram á af hverju viðfangsefnið ætti að teljast markvert, t.d. segir „Jón Jónsson er íslenskur knattspyrnumaður“ okkur ekkert um það hvort að maðurinn spili með Real Madrid eða í utandeild á Íslandi og slíkri grein má eyða án umræðu.

T1. Tilvísanir út fyrir nafnrými.

Tilvísanir ættu alla jafnan ekki að vísa frá einu nafnrými til annars og slíkum tilvísunum má eyða án fyrirvara og umræðu. Þessum tilvísunum þarf þó ekki endilega að eyða og taka ætti mið af því hvað er gagnlegt fyrir Wikipediu. Til dæmis er ansi líklegt að ef einhver slær inn í leitina „hlutleysisreglan“ eða „viðmið um eyðingu greina“ sé viðkomandi í raun að leita að síðunum Wikipedia:Hlutleysisreglan og Wikipedia:Viðmið um eyðingu greina.

T2. ósennilegar stafsetningar- eða innsláttarvillur.

Tilvísanir frá ósennilegum stafsetningar- eða innsláttarvillum má eyða án umræðu eða fyrirvara. En það getur verið réttmætt að búa til tilvísun frá algengum villum eða öðrum leyfilegum rithætti og í sumum tilvikum frá öðrum tungumálum. Einnig er í mörgum tilvikum réttmætt að halda tilvísunum í kjölfar þess að síða hefur verið færð en færsla á síðu getur einnig gert nauðsynlega hreingerningu (sjá A7 að ofan).

F1. Tómir flokkar.

Flokkum, sem innihalda engar síður eða annað efni og enga undirflokka, má eyða án umræðu eða fyrirvara. Raunar ætti ekki að búa til flokka ef augljóst er að aldrei verði að minnsta kosti fimm hlutir (síður, undirflokkar og svo framvegis) í flokknum. Óþarft er að eyða flokkum sem eru ekki tómir en innihalda þó ekki enn þá fimm eða fleiri hluti ef augljóst þykir að þeir komi til með að gera það síðar.

N1. Að beiðni notanda.

Eyða má notandasíðu ásamt undirsíðum að beiðni notandans sjálfs en þó ekki notandaspjalli. Í sjaldgæfum tilvikum má eyða notandasíðu af öðrum ástæðum ef efni hennar brýtur í bága við önnur viðmið Wikipediu (sjá til dæmis A10 að ofan). Notanda skal ávallt tilkynnt um eyðingu síðu sinnar og ástæðu hennar á spjallsíðu sinni.

N2. Myndasafn háð höfundarétti.

Notandasíðu, sem nýtt er sem myndasafn fyrir myndir sem eru háðar höfunda- og útgáfurétti, má eyða. Notendasíður mega einungis innihalda myndefni sem er laust undan höfunda- og útgáfurétti. Notanda skal ávallt tilkynnt um eyðingu síðu sinnar og ástæðu hennar á spjallsíðu sinni.

S1. Villandi skilaboð.

Snið, sem gefa villandi skilaboð um stefnu, viðmið og reglur Wikipediu má eyða án fyrirvara og umræðulaust.

S2. Óþarft efni.

Sniðum, sem eru ekki nýtt á neinn hátt, má eyða án fyrirvara og umræðulaust. Þó mætti fara varlega í að eyða sniðum sem gætu verið gagnleg þótt þau séu ekki enn eða ekki lengur í notkun þegar ákvörðun er tekin.

Verklagsreglur

breyta

Möppudýr sem eyðir grein eða öðru efni ætti alltaf að gefa til kynna ástæðu þess að efninu er eytt. Í sumum tilvikum er einnig við hæfi að skilja eftir skilaboð um eyðingu efnisins á spjallsíðu höfundar þess.

Áður en síðu er eytt ætti möppudýr að skoða breytingaskrána til þess að meta hvort ef til vill væri gagnlegra að breyta aftur til eldri útgáfu síðunnar og bjarga þannig nytsömu efni. Einnig:

  • Vera má að breytingaágrip fyrstu breytingarinnar gefi til kynna eitthvað um uppruna efnisins eða heimildina fyrir því.
  • Spjallsíða þeirrar síðu sem möppudýr hyggst eyða gæti innihaldið eldri umræðu um eyðingartillögu, sem gæti skipt máli. Umræðan gæti jafnvel enn verið í gangi.
  • Hugsanlega má finna upplýsingar um eldri eyddar breytingar, sem gætu skipt máli.
  • Ef smellt er á „Hvað tengist hingað“ kemur hugsanlega í ljós að margar síður á Wikipediu tengja í viðkomandi síðu. Ef telja má að síðan sé með öllu óviðeigandi má nota þær upplýsingar til að fjarlægja innri tengla á öðrum síðum Wikipediu sem vísa á viðkomandi síðu.

Tengt efni

breyta