Krossviður
Krossviður er unninn viður sem búinn er til með því að líma saman lög af viðarspæni. Krossviður er plötuefni og er mikið notaður í byggingariðnaði og við hvers kyns smíðar. Stundum er hann framleiddur þannig að lög úr harðari og mýkri viði skiptast á og krossviður er yfirleitt framleiddur úr mýkri viðartegundum en ekki úr harðviði. Viðarspænirnir eru lagðir í kross þannig að æðarnar snúa alltaf hornrétt (90°) á næsta lag á undan og eftir. Lögin eru síðan pressuð saman við hita og límd saman með sterku lími. Krossviður er mjög stöðugur viður sem hvorki verpist né rýrnar vegna þess að æðarnar liggja í kross og toga þannig í allar áttir.
Krossviður er mikið notaður þar sem þörf er á léttu og sveigjanlegu byggingarefni sem auðvelt er að vinna hratt og auðvelt er að endurnýta. Hann er þannig notaður t.d. við bátasmíðar (þá með vatnsheldu lími) og leikmyndagerð, svo eitthvað sé nefnt.