Vaðlaheiðargöng

veggöng á Norðurlandi eystra

Vaðlaheiðargöng eru jarðgöng undir Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Göngin eru 7,4 kílómetra löng og ganga á milli Eyjafjarðar (gegnt Akureyri) og Fnjóskadals. Með göngunum styttist vegalengd á milli Akureyrar og Húsavíkur um 15,7 kílómetra og ekki þarf lengur að fara fjallveginn um Víkurskarð, en hann er gjarnan ófær á veturna.

Vaðlaheiðargöng
Inngangur að Vaðlaheiðargöngum vestanmegin
Fyrsta jarðganga-sprenging3.7.2013
OpnunDesember 2018
Lengd7,17 km að viðbættum 320 m vegskálum
Meðaldags-umferð~1200 (áætluð við opnun)
Kostnaður11,5 milljarðar kr. á verðlagi febrúar 2013
Kort af staðsetningu ganganna (blá) á þjóðvegi 1 (rauður).

Göng á þessum stað voru nefnd í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar frá árinu 2000 en voru þá ekki talin til brýnustu jarðgangaverkefna samkvæmt áætluninni.[1] 28. febrúar 2003 var félagið Greið leið ehf. stofnað um undirbúning og gerð ganganna. Stofnendur þess voru 20 sveitarfélög á Norðurlandi eystra og tíu fyrirtæki með starfsemi á svæðinu.[2] Niðurstaða skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri í janúar 2006 sem unnin var fyrir Greiða leið var sú að gerð ganganna væri þjóðhagslega hagkvæm.[3] Lagðar voru til ýmsar leiðir til fjármögnunar framkvæmdarinnar, til dæmis hrein einkaframkvæmd þar sem Greið leið ehf. fjármagnaði framkvæmdina alfarið með lánum sem greidd yrðu til baka með veggjöldum, blönduð leið einkaframkvæmdar og opinberrar fjármögnunar þar sem ríkið legði til hluta stofnkostnaðar á móti fjármögnun Greiðar leiðar eða hefðbundin opinber framkvæmd sem greidd væri alfarið úr ríkissjóði. Fyrir alþingiskosningar 2007 lagði Samfylkingin ríka áherslu á gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng.[4]

Snemma árs 2008 var áætlað að gerð ganganna myndi hefjast á árinu 2009 og að þau yrðu tilbúin 2012. Þá var jafnframt ætlunin að ríkissjóður legði til helming stofnkostnaðar en að hinn helmingurinn yrði innheimtur með veggjaldi.[5] Við bankahrunið um haustið 2008 lentu þessar áætlanir í uppnámi.

Næst áttu sér stað viðræður ríkisins við lífeyrissjóði um að þeir myndu fjármagna gerð ganganna en upp úr þeim viðræðum slitnaði seinni hluta 2010 þar sem ekki náðist samkomulag um vexti.[6] Í kjölfar þess ákvað ríkisstjórnin að kalla eftir heimild Alþingis til þess að ríkissjóður myndi fjármagna gangagerðina á framkvæmdatíma en síðar yrði verkefnið endurfjármagnað á almennum markaði.[7] Stofnað var félagið Vaðlaheiðargöng hf. sem tók við undirbúningi verkefnisins af Greiðri leið ehf. Ríkið er eigandi að 51% hlut í Vaðlaheiðargöngum hf. á móti 49% hlut Greiðrar leiðar ehf. Í frumvarpi fjármálaráðherra sem lagt var fyrir þingið í mars 2012 fólst að ríkissjóður myndi lána Vaðlaheiðargöngum allt að 8.700 milljónir króna miðað við verðlag í lok árs 2011.[7]

Málið var mjög umdeilt í þinginu og það þvert á flokkslínur. Deilt var á forsendur verkefnisins sem andstæðingum málsins þóttu of bjartsýnar, það að framkvæmdin væri tekin fram yfir forgangsröðun vegaáætlunar og að gengið væri fram hjá lögum um ríkisábyrgðir. Málið var talið vera dæmi um „kjördæmapot“ og Lilja Mósesdóttir kallaði fjármögnun framkvæmdarinnar „gríska bókhaldsbrellu“.[8] Samgöngunefnd þingsins fjallaði ekki um frumvarpið eins og venja er með samgöngumál en meirihluti nefndarmanna hennar var á móti framkvæmdinni. Þá var Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, sem fer með samgöngumál, efins um verkefnið en samþykkti það í ríkisstjórn með þeim fyrirvara að veggjöld myndu standa undir framkvæmdinni.[9] Frumvarpið var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 13. Enginn þingmaður stjórnarflokkanna Samfylkingar og Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en þeir þingmenn flokkanna sem lýst höfðu efasemdum eða andstöðu við málið voru ýmist fjarverandi eða sátu hjá. Af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins voru allir á móti frumvarpinu nema tveir þingmenn flokksins í norðausturkjördæmi.[10]

Framkvæmdir

breyta

Undirbúningsframkvæmdir við gangamunna hófust seinni hluta 2012 en endanlega var gengið frá samningum við aðalverktaka verksins, Íslenska aðalverktaka og Marti Contractors, 1. febrúar 2013. Vinna við sjálfa gangagerðina hófst sumarið 2013.[11]

Framkvæmdir töfðust vegna vatnsæða í fjallinu sem trufluðu gerð gangnanna. Heitt vatn flæddi um göngin og um tíma var farið um í göngunum með bátum og kalt vatn var notað til kælingar. Síðasta haftið var sprengt í lok apríl árið 2017 og stendur til að opna þau ári síðar.

Opnað var fyrir umferð um göngin í desember 2018.[12]

Fyrsta rekstrarárið (2019) var heildarfjöldi ökutækja 528.143 sem gefur meðaltalsumferð á dag alls 1.447. Skipting bíla eftir stærð, 95% var fólksbíll undir 3,5t, 2% millistór bíll 3.5-7,5t og 3% flutningabílar stærri en 7,5t.[13]

Veggjald

breyta

Greiða þarf veggjald í göngin sem er mismunandi eftir þyngd ökutækis og skipt í 3 flokka, fólksbílar undir 3,5t, millistærð 3,5-7,5t og stórir bílar þyngri en 7,5t. Ekkert gjaldskýli er við göngin greiðsla fer fram á heimasíðu www.veggjald.is ef keyrt er í gegn án skráningar er rukkun send í heimabanka eiganda ökutækis. [14]

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
 1. „Jarðgangaáætlun“. Vegagerðin, janúar 2000, [skoðað 27-02-2013]. Síða: 25.
 2. „Jarðgöng undir Vaðlaheiði ásamt vegtengingum“. Greið leið ehf., júní 2006, [skoðað 27-02-2013].
 3. Jón Þorvaldur Heiðarsson: „Vaðlaheiðargöng - Mat á þjóðhagslegri arðsemi“. Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri, janúar 2006, [skoðað 27-02-2013].
 4. Kristján L. Möller: „Gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng í framkvæmd“. Vikudagur [á vefnum]. 24. apríl 2007, [skoðað 27-02-2013].
 5. „Göngin treysta mjög bönd Eyfirðinga og Þingeyinga“. Morgunblaðið, bls. 6, 23. mars 2008. 
 6. „Lífeyrissjóðirnir höfnuðu breytilegum vöxtum en buðu 3,9% fasta vexti án ríkisábyrgðar.“. Landssamtök lífeyrissjóða, 11. desember 2010, [skoðað 27-02-2013].
 7. 7,0 7,1 „Frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.“. Alþingi, 31. mars 2012, [skoðað 27-02-2013].
 8. Lilja Mósesdóttir: „Ræða við atkvæðagreiðslu um heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.“. 14. júní 2012, [skoðað 27-02-2013].
 9. „Þverklofin vegna Vaðlaheiðarganga“. Ríkisútvarpið [á vefnum]. 25. apríl 2012, [skoðað 27-02-2013].
 10. „140. löggjafarþing. 121. fundur. Atkvæðagreiðsla 46975 718. mál. heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði“. Alþingi, 14. júní 2012, [skoðað 27-02-2013].
 11. „Skrifa undir samning um Vaðlaheiðargöng“. Ríkisútvarpið [á vefnum]. 1. febrúar 2013, [skoðað 27-02-2013].
 12. „Vaðla­heiðar­göng opnuð fyrir umferð“. Fréttablaðið.
 13. hf, Vaðlaheiðargöng. „Um 528 þúsund bílar um Vaðlaheiðargöng fyrsta rekstrarárið - formleg opnun ganganna fyrir einu ári“. Vaðlaheiðargöng. Sótt 29. október 2020.
 14. hf, Vaðlaheiðargöng. „Vaðlaheiðargöng“. Vaðlaheiðargöng. Sótt 29. október 2020.