Vésteinn Guðmundsson (verkfræðingur)
Vésteinn Guðmundsson (f. 14. ágúst 1914, d. 15. janúar 1980) var íslenskur efnaverkfræðingur, verksmiðjustjóri og framkvæmdastjóri.
Vésteinn Guðmundsson var sonur Guðmundar Bjarnasonar (1870-1924), bónda á Hafurshesti (Hesti) í Önundarfirði, Mosvallahreppi, Vestur-Ísafjarðarsýslu, og konu hans Guðnýjar Arngrímsdóttur húsfreyju (1871-1920). Barn að aldri missti hann báða foreldra sína, og var alinn upp hjá systkinum sínum.[1] Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1935. Próf í efnaverkfræði frá DTH, Danmarks Tekniske Höjskole, haustið 1940. Verkfræðingur hjá Niðursuðuverksmiðju Keflavíkur hf. 1941 og hjá Hraðfrystihúsi Innri-Njarðvíkur 1941-1943. Vésteinn réðist til síldarverksmiðju Kveldúlfs hf. á Hjalteyri 1943 og starfaði þar til 1967, þar af sem verksmiðjustjóri frá 1947. Frá 1967 þar til hann lést árið 1980 var Vésteinn framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar við Mývatn.[2]
Ýmsum aukastörfum og félagsmálastarfsemi sinnti Vésteinn á starfsferli sínum. Þannig var hann hreppsstjóri Arnarneshrepps við Eyjafjörð 1957-1967 og í hreppsnefnd sama hrepps 1946-1967. Formaður fasteignamatsnefndar Eyjafjarðarsýslu 1964-1967. Hann átti sæti í nefnd um tilraunir með ný veiðarfæri við síldveiðar 1950-1951, stjórnaði síldveiðitilraunum 1953-1954 og síldarflutningum frá Austurlandsmiðum til Hjalteyrar og Krossaness 1959-1964. Hann var í verðlagsráði sjávarútvegsins 1963-1967.[2][3] Vésteinn var forgöngumaður um að hagnýta jarðgufu við vinnslu kísilgúrs, en slíkt hafði ekki verið reynt fyrr.[3] Hann skrifaði grein um kísilgúrvinnsluna við Mývatn þar sem þessu er lýst.[4] Vésteinn starfaði að stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var. m.a. í þriðja sæti á framboðslista flokksins við kosningar til Alþingis 1959 í sínu kjördæmi, Eyjafjarðarsýslu.[5] Vésteinn var fréttaritari Morgunblaðsins á Hjalteyri um árabil.[6]
Páll Ólafsson verkfræðingur, skólafélagi Vésteins á mennta-og háskólaárunum, segir svo um hann: „Vésteinn var góðum gáfum gæddur. Hann var léttur í lund og átti sérstaklega gott með að umgangast aðra menn. Hann gerði sér far um að setja sig í spor þeirra sem hann átti skipti við og skilja þeirra sjónarmið. Hann lét sér annt um hag samstarfsmanna sinna og mun oft hafa verið leitað til hans um margs konar málefni. Þegar kísilgúrverksmiðjan tók til starfa í Mývatnssveit, litlu sveitarfélagi, sem er viðbrugðið fyrir fegurð og viðkvæma náttúru fór ekki hjá því, að upp kæmu ýmiss konar vandamál, bæði félagslegs og vistfræðilegs eðlis. Vésteinn lagði sig sérstaklega fram um að leysa þau mál og átti manna drýgstan þátt í því, að það tókst svo vel, að allir mega vel við una.“[3]
Vésteinn Guðmundsson var tvígiftur. Fyrri kona hans var Elín Guðbrandsdóttir, verslunarmaður, f. 1. ágúst 1914 í Reykjavík, d. 16.09.1996. Börn þeirra Auður Sigurborg, f. 29. ágúst 1939. Guðný Elín, f. 1. desember 1944. Gunnhildur, f. 25. nóvember 1950. Vésteinn og Elín skildu. Seinni kona Vésteins var Valgerður Árnadóttir, f. 13. nóvember 1922, d. 6. nóvember 2001. Börn þeirra: Árni, f. 23. júní 1955. Valgerður, f. 26. september 1956. Vésteinn, f. 15. júní 1958.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Tímarit Verkfræðingafélags Íslands“.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Verkfræðingatal, II. bindi, Þjóðsaga ehf., Rvk. 1996.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Minningarorð: Vésteinn Guðmundsson, efnaverkfræðingur“.
- ↑ „Vinnsla kísilgúrs á Islandi Eftir Véstein Guðmundsson“.
- ↑ „Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Eyjafjarbarsýslu“.
- ↑ „Fréttaritara r MBL. úti um lancl“.