Hjalteyri

Saga og þróun byggðar og atvinnulífs á Hjalteyri.

Hjalteyri er smábyggð norðan við Akureyri á Galmaströnd í Eyjafirði. Fiskeldi Eyjafjarðar starfaði þar um árabil við tilraunir á lúðueldi.[1] Árið 2011 bjuggu þar 43 manns. Hjalteyri er hluti af sveitarfélaginu Hörgársveit.[2]

Litið út á síldarverksmiðjuna á Hjalteyri.

Norðmenn hófu síldarsöltun um 1880, Svíar, Þjóðverjar og Skotar bættust í hópinn og upp byggðist sjávarpláss með mörgum þorsk- og síldveiðiskipum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 hurfu útlendingarnir á brott og Thor Jensen athafnamaður, sem tekið hafði Hjalteyri á leigu ári áður byggði upp síldarvinnslu. Árið 1937 var byggð stór síldarverksmiðja við Hjalteyri, sú stærsta í Evrópu á þeim tíma samkvæmt sumum heimildum.[3] Eftir því sem leið á 20. öldina dró úr umsvifum Thorsaranna og eftir að síldarbresturinn varð á sjöunda áratugnum var síldarverksmiðjunni lokað 1966.

Fyrsti aðilinn til að gera út á Hjalteyri var Friðrik Jónsson frá Siglunesi, en hann átti hákarlaskipið Mínervu. Þetta var árið 1854. Jón Antonsson frá Arnarnesi (f. 1845) var næstur í röðinni, en hann verkaði saltfisk á Hjalteyri. Annar þekktur útgerðarmaður var Óli P. Möller, en hann átti fjögur hús á Hjalteyri, bryggju og hafði þar fiskverkun. Við hann er kennt Möllershús sem enn stendur, og var byggt árið 1906. Bein útgerð útlendinga á Hjalteyri er talin hafa byrjað árið 1906. Þá er miðað við þær útgerðir sem höfðu þar varanlega aðstöðu, en ekki aðeins tímabundin afnot af undirlendi eyrarinnar. Umsvif Þjóðvera voru mikil um tíma. Þeir ráku félag sem nefndist Nordsee og höfðu átta togara á sínum snærum við Ísland á tímabili. Þessum umsvifum lauk öllum þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á. Þetta var vissulega áfall fyrir atvinnu á staðnum, en til mótvægis kom að hluta að Thor Jensen og félag hans Kveldúlfur hf. hóf fiskverkun á Hjalteyri 1913. Var þetta upphafið að áratugalöngum rekstri Kveldúlfs á staðnum. Kveldúlfur keypti loks Hjalteyri árið 1924. Mesta síldarsöltun sem getur um á Hjalteyri var árið 1916, 21.000 tunnur.

Fyrsti kaupmaðurinn til að stofna verslun á Hjalteyri var Gunnar Einarsson frá Nesi (1884). Seinna ráku verslanir á Hjalteyri Ásgeir Pétursson og Snorri Jónsson, en þeir voru báðir útgerðarmenn og kaupmenn sem stunduðu útgerð og fiskvinnslu á Hjalteyri, Akureyri og víðar.[4]

Viti sem enn stendur og er notaður var byggður á eyrinni skammt norðan við síldarbræðsluna árið 1920. Upphaflega var notuð steinolía til lýsingarinnar í vitanum. Vitinn er á 10 metra hárri járngrind.[5] Barnaskóli var reistur á Hjalteyri 1947. Húsið er á tveimur hæðum, 500 fermetrar að grunnfleti. Barnastúkan Hjalteyrarblómið númer 36 starfaði við barnaskólann frá 1948 til 1966 undir stjórn Guðmundar Frímannssonar, skólastjóra, en eftir að hann flutti frá Hjalteyri 1966 var Berhta Bruvik gæslumaður stúkunnar.[6] [7]Arnarneshreppur keypti Hjalteyri af Landsbanka Íslands árið 1979 fyrir 53 milljónir króna.Við það eignaðist sveitarfélagið allt land og byggingar á Hjalteyri sem höfðu áður verið í eigu Kveldúlfs hf.[8]

Kveldúlfur hf. setti upp skreiðarhjalla fyrir 500 til 600 smálestir af skreið árið 1955 á Hjalteyri, og var áform félagsins að hafa þar mikla skreiðarframleiðslu. Einnig var á Hjalteyri aðstaða til saltfiskverkunar á vegum Kveldúlfs hf.[9] Eftir að Hjalteyri varð verslunarstaður 1884 var rekin verslun þar í smáum stíl allt til ársins 1978. Engin verslun var á staðnum næstu tvö árin, en árið 1980 stofnaði Kaupfélag Eyfirðinga þar lítið útibú. Kaupfélagið setti á fót fiskmóttöku á þessum árum og keypti allan fisk sem landað var á staðnum, auk þess sem fiskur var fluttur til verkunar frá Dalvík. Framleiddur var saltfiskur og skreið. Hjalteyri varð aðal skreiðarframleiðslustaður og skreiðargeymsla fyrir Kaupfélag Eyfirðinga og þangað var flutt verkuð skreið frá Hrísey og Grímsey til geymslu í gömlu verksmiðjuhúsunum.

Þann 4. maí 1954 varð mikill bruni á Hjalteyri. Eldur varð laus í mjölskemmu síldarbræðslunnar, en mjölskemma þessi var á þeim tíma sú næst stærsta á landinu. Mjölskemman var með mun stærri grunnflöt en verksmiðjan sjálf og notuð að hluta til sem geymsla undir ýmsa hluti. Meðal þess sem brann var bifreið, dráttarvél, uppmokstursvél og nokkrar síldarnætur ásamt færiböndum fyrir mjölsekki. Upptök eldsins voru talin vera í raflögnum í húsinu. Slökkvilið Akureyrar kom á vettvang og tókst að forða timburverkstæði og rannsóknastofu verksmiðjunnar frá eldinum. Þak mjölskemmunnar féll að lokum og var þetta afar mikið tjón, en truflaði þó ekki rekstur verksmiðjunnar að neinu ráði þetta ár.[10]

Ný vatnsveita var lögð í öll hús á Hjalteyri árið 1985 á vegum Arnarneshrepps, alls um 4 km af vatnsleiðslum. Nýr vegur var lagður frá Ólafsfjarðarvegi til Hjalteyrar sama ár, og bundið slitlag sett á hann ári seinna. Þetta auðveldaði fiskflutninga frá Dalvík og fleiri stöðum til þorpsins.[11]

Hjalteyri í dag

breyta

Árið 2008 var myndaður hópur listafólks sem ákvað að koma á fót menningarmiðstöð í gömlu verksmiðjuhúsunum á Hjalteyri. Í hópnum eru íslenskir og erlendir listamenn.[12] Síðan þessi hópur tók til starfa hafa reglulega verið haldnar myndlistasýningar og aðrar listsýningar en sýngarstaðurinn er einfaldlega kallaður Verksmiðjan. Sem dæmi um slíka sýningu var "Phising" sem var haldin í maí 2014.[13] Ljósmyndasýningin "Fixed Points" var haldin þar vorið 2019 með þátttöku fjögurra þekktra ljósmyndara.[14]Sem dæmi um óvænta nýtingarmöguleika gömlu síldarbræðslunnar er að dömukórinn Graduale Nobili lét gera hljóð-og myndbandsupptökur innan í gömlum lýsistanki, en hljómgæði í slíku holrými eru einstök og sérstæð.[15] Barnaskólanum á Hjalteyri hefur verið breytt í hótel sem nefnist Hótel Hjalteyri.[16] Á Hjalteyri eru borholur sem gefa heitt vatn, en vatnið er leitt til Akureyrar af Norðurorku hf., sem notar það til húshitunar á Akureyri.[17] Á Hjalteyri er góð aðstaða fyrir smábáta. Bryggjukanturinn við smábátahöfnina er 60 metra langur.[18]

Búsetuþróun

breyta

Íbúaþróun staðarins hefur endurspeglað atvinnumöguleika.

Íbúafjöldi[19][20]
1901 47
1930 104
1940 125
1963 109
1970 67
2011 43

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Fiskeldi Eyjafjarðar“.
  2. „Hörgársveit“.
  3. „Hjalteyrarverksmiðjan er komin upp“.
  4. „Úr sögu Hjalteyrar“.
  5. „Morgunblaðið. Fyrirhugaðar vitabyggingar 1920“.
  6. „Útboð“.
  7. „Barnastúkan Hjalteyrarblómið nr. 36 Hjalteyri“.
  8. „Ingimar Brynjólfsson á Ásláksstöðum í helgarviðtali“.
  9. „Hjallar fyrir um 600 lestir af skreið settir upp á Hjalteyri“.
  10. „Stórtjón er mjölskemma síldarversmiðjunnar á Hjalteyri brann í gærmorgun“.
  11. „Stóriðja viö Eyjafjörd myndi flýta fyrir alhliða atvinnuuppbyggingu“.
  12. „Menningarverksmiðja“.
  13. „Viðamikil sýning á Hjalteyri“.
  14. „Sýningar“.
  15. „Dömukór með karlakórstónleika“.
  16. „Fréttahorn“.
  17. „Forsíðan“.
  18. „Hjalteyri“.
  19. „Hagskýrslur Íslands, Tölfræðihandbók 1967“.
  20. „Hagskýrslur Íslands II, Tölfræðihandbók 1984“.