Kísiliðjan

(Endurbeint frá Kísiliðjan hf)

Kísiliðjan var verksmiðja við Mývatn sem vann kísilgúr úr vatninu og stóð rekstur fyrirtækisins í tæpa fjóra áratugi. Kísiliðjan var stofnuð 13. ágúst 1966, en vinnslu var hætt 28. nóvember 2004 og verksmiðjan rifin ári síðar.

Kísiliðjan og Hlíðarfjall.

Stofnun

breyta

Stofnun Kísiliðjunnar hf átti sér talsverðan aðdraganda. Alþingi setti lög um stofnun verksmiðju til að vinna kísilgúr úr botnleðju Mývatns árið 1964. Lögunum var breytt 1966 þegar undirbúningur fyrir reksturinn hófst. Íslenska ríkið átti 51% hlutafjárins, nokkur sveitarfélög á Norðurlandi áttu 2% og bandaríska fyrirtækið Johns Manville átti 47%. Eigandi botnleðjunámunnar í Mývatni var íslenska ríkið, sem einnig setti upp gufuveitu í Bjarnarflagi í Námaskarði til að sjá verksmiðjunni fyrir gufu, en hún þurfti 20 tonn af gufu á klukkustund til vinnslunnar. Ýmsar aðrar framkvæmdir þurfti vegna verksmiðjurekstursins. Höfnin á Húsavík, sem var útflutningshöfn verksmiðjunnar, var stórlega endurbætt og byggð þar stór vöruskemma. Þá var lagður nýr vegur sem kallaður er Reykjahlíðarvegur milli Húsavikur og Mývatns, en framleiðsluafurð Kísiliðjunnar var flutt eftir þessum vegi. Eldri leiðin þarna á milli var mun lengri. Frá upphafi var gert ráð fyrir ráðstöfunum til að vernda dýralíf og gróður í og við Mývatn, og forða náttúrunni frá óþarfa skemmdum. Einnig var ráðist í ráðstafanir til að fyrirbyggja olíumengun í Mývatni.[1] Vésteinn Guðmundsson var fyrsti framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar hf.[2]

Á fyrstu árum verksmiðjunnar urðu ýmsir tæknilegir örðugleikar í rekstrinum, en vel tókst að leysa þau mál. Nokkrum árum eftir að verksmiðjan hóf starfsemi urðu eldsumbrot og jarðhræringar sem ollu miklu tjóni á rekstrinum og mannvirkjum. Verksmiðjan var upprunalega byggð fyrir 12 þúsund tonna afköst á ári, en 1971 var hún stækkuð í 24 þúsund tonn. Aðferðin sem notuð var við votvinnslu hráefnisins með gufu var íslensk uppfinning, sem átti sér enga hliðstæðu í heiminum.[3]

Umhverfisáhrif

breyta

Kísiliðjan og starfsemi hennar og nýjar virkjunarframkvæmdir í Laxá urðu til að ýmsir fóru að hafa áhyggjur af því að þessi starfsemi myndi hugsanlega hafa skaðleg áhrif á vistkerfi Mývatns og nágrennis. Við undirbúning Laxárvirkjunnar 1970 beittu Þingeyingar sér fyrir að láta gera vistfræðilega úttekt á vatnasvæði Mývatns og Laxár, en þeir óttuðust að ný virkjun í ánni myndi skaða viðkvæma náttúru á þessum stað. Iðnaðarráðuneytið hófst fljótlega handa um þetta og var hópur 15 sérfræðinga skipaður til að gera fyrstu heildarúttekt á íslensku vatnasvæði sem farið hefur fram. Þessari vinnu var að hluta til lokið árið 1979 með útgáfu skýrslu Péturs M. Jónassonar, forstöðumanns vatnalíffræðideildar kaupmannahafnarháskóla. Líffræðideild Háskóla Íslands hélt rannsóknum áfram undir forystu Arnþórs Garðarssonar, prófessors. Sú vinna fór að hluta fram í sérstakri rannsóknarstöð sem starfrækt var vegna verkefnisins við Mývatn.[4]

Árið 1984 fjallaði Náttúruverndarráð um umsókn Kísiliðjunnar hf. um nýtt 20 ára starfsleyfi fyrir verksmiðjuna. Stjórn Náttúruverndarstöðvarinnar við Mývatn mælti 1985 með því að starfsleyfi yrði aðeins gefið út til 5 ára í ljósi þess að mikið vantaði á að nægilega miklar rannsóknir hefðu verið gerðar á áhrifum kíslivinnsunnar á lífríki vatnsins. Benti Náttúruverndarráð á að íslenska ríkið hefði ekki veitt fjármunum til rannsókna við Mývatn, og væri 5 ára leyfið háð því skilyrði að ríkið stæði fyrir fjármögnun rannsókna næstu árin.[5] Þorgrímur Starri Björgvinsson sagði það skoðun sína í blaðagrein um þetta leyti að Mývatn væri orðið mengað af mannavöldum. Benti hann á að margt benti til að lífríki vatnsins hefði hrunið á rúmum áratug. Sem dæmi um þetta hrun væri að mý hefði ekki sést við vatnið undanfarin þrjú ár, súrefnisskortur í vatninu hefði orðið til að hornsílastofn vatnsins hefði aukist mikið. Silungsstofn vatnsins hefði orðið fyrir miklum skakkaföllum, andastofn vatnsins ætti í erfiðleikum og mikil slýmyndun væri í vatninu.[6] Í umræddri grein setur Þorgrímur Starri fram þá skoðun að mengun vatnsins sé hægt að rekja til starfsemi Kísiliðjunnar hf. og þéttbýlis við vatnið sem tengist verksmiðjunni og starfsmönnum hennar.

Á ráðstefnu um Mývatnsrannsóknir í nóvember 1985 kom fram að hnignun hefði orðið í fiski- og fuglastofnum Mývatns, en rannsóknir á lífríki vatnsins og tengsl þess við Kísiliðjuna hf. væru enn af skornum skammti og ekkert hægt að segja frá vísindalegu sjónarhorni um orsakir og afleiðingar í þessu sambandi. Benti Morgunblaðið á að pólitískar spurningar væru uppi um framtíð verksmiðjurekstursins. Þessum spurningum væri enn ósvarað og miklar rannsóknir þyrfti til að það yrði hægt.[7] Í febrúar 1985 samykkti sveitarstjórn Skútustaðahrepps að mæla með 15 ára starfsleyfi fyrir Kísiliðjuna hf. Milli 70 og 80 manns hefðu fasta vinnu við verksmiðjuna árlega og fjölda afleiddra starfa, og væri þessi rekstur ákaflega mikilvægur í jafn fámennu sveitarfélagi.[8] Leyfi var gefið út til áframhaldandi reksturs Kísiliðjunnar hf. til 15 ára.[9] Sverrir Hermannsson, iðnaðarráðherra, veitti leyfið eftir talsverð fundahöld og fréttaumfjöllun fjölmiðla.[10]

Þorgrímur Starri Þorgrímsson benti sumarið 1988 á að stórfelldur ungadauði væri við Mývatn, og að ein af orsökum þessa væri rekstur Kísiliðjunnar hf. og mengun tengd þeim rekstri.[11] Morgunblaðið benti á að þrátt fyrir slæmt ástand andastofnins og silungastofnins í Mývatni væri enn ekkert hægt að fullyrða um orsakasamhengi, t.d. við frárennsli frá Kísiliðjunni. Jón Pétur Líndal, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, benti þá einnig á ferðamannastrauminn til Mývatns sem hugsanlegs orsakavalds.[12]

Í ágúst 1988 átti Kisiliðjan 25 ára afmæli. Morgunblaðið birti af því tilefni viðtal við Róbert B. Agnarsson, framkvæmdastóra Kísiliðjunnar hf. Í þessu viðtali kemur fram hjá framkvæmdastjóranum að samkvæmt nýrri skýrslu um rannsóknir á lífríki Mývatns kæmi ekki fram neitt orsakasamband milli starsfsemi Kísiliðjunnar hf. og sveiflna í dýrastofnum í og við vatnið. Þá kemur fram að Johns Manville hafi selt sinn hlut í Kísiliðjunni til fyrirtækisins Alleghany í New York. Fram kom að rekstur Kísiliðjunnar hf. hefur verið í góðu lagi fjárhagslega undanfarin ár.[13] Síðla árs 1999 voru birtar niðurstöður þriggja erlendra sérfræðinga um ástand lífríkis Mývatns, en niðurstöður þeirra voru túlkaðar með mjög mismunandi hætti af fylgjendum náttúruverndarsjónarmiða og stuðningsmönnum áframhaldandi reksturs Kísiliðjunnar hf. Túlkaði hvor hópurinn niðurstöðurnar sínum sjónarmiðum í vil. Fram kemur að nauðsynlegt er að hefja kísilgúrnám í öðrum hlutum vatnsins, en Náttúruverndarráð setti sig upp á móti slíku.[14] Í lok nóvember 2004 kom fram að litlar líkur væru á endurfjármögnun Kísiliðjunnar hf. en norska fyrirtækið Promek hafði þá um hríð kannað möguleika á að framleiða kísilduft með þátttöku erlendra sem innlendra fjárfesta. Þær viðræður skiluðu ekki neinni niðurstöðu, og var rekstri Kísiliðjunnar hf. hætt.[15] Hinn 6. nóvember 2005 samdi Landsvirkjun við eiganda Reykjahlíðar um kaup á eignum og lóð Kísiliðjunnar hf. Samningur gerður um heildarsamkomulag um nýtingu á svæðinu.[16]

Tilvísanir

breyta
  1. „Kísilgúrverksmiðja við Mývatn“.
  2. „Minning: Vésteinn Guömundsson framkvæmdastjóri“.
  3. „Góð afkoma þrátt fyrir 70% afköst og mikið tjón“.
  4. „Niðurstöður 9 ára rannsókna á lífríki Mývatns og Laxár“.
  5. „Aðeins 5 ára starfsleyfi“.
  6. „Er Mývatn orðið mengað?“.
  7. „Skoöanir skiptar um áhrif kísilgúrnáms“.
  8. „Námaleyfi Kísiliðjunnar við Mývatn“.
  9. „Um hvað er deilt?“.
  10. „Mývatn - dýrasta djásnið“.
  11. „Stórfelldur ungadauði“.
  12. „Enn á eftir að rannsaka margt“.
  13. „Kísiliðjan hf. við Mývatn 25 ára“.
  14. „SÓKN Í SYÐRI-FLÓA?“.
  15. „Ólíklegt að fjármögnun takist“.
  16. „Kísiliðjan seld“.