Vár er gyðja í norrænni goðafræði sem tengist eiðum, samningum og sáttmálum, sér í lagi á milli karla og kvenna. Nafn hennar birtist í ýmsum skáldskaparkenningum fyrir konur og í gömlum eiðum, meðal annars í hjónabandsvígslum.

Ritaðar heimildir um Vár

breyta

Nafn Várar kemur fyrir í giftingareið sem birtist í Þrymskviðu í Sæmundareddu. Þegar jötunninn Þrymur hyggst ganga að eiga Freyju (sem er í raun Þór í dulargervi) fyrir konu vígir hann hjónabandið með hamrinum Mjölni og þylur upp eftirfarandi eið:

 
Berið inn hamar
brúði at vígja,
lekkið Mjöllni
í meyjar kné,
vígið okkr saman
Várar hendi.[1]
 

Vígslan í Þrymskviðu er talin lýsandi fyrir forna hjónabandseiða. Þegar íslenska Ásatrúarfélagið vígir hjónabönd í dag er notast við svipaðan eið og eru hjónin þá vígð saman undir Várar hendi í heiðnum brúðkaupum.[2]

Í 35. kafla Gylfaginningar í Eddu Snorra Sturlusonar er upptalning á ásynjum þar sem Vár er sú níunda í röðinni. Þar er sagt um hana:

 
Níunda Vár. Hún hlýðir á eiða manna og einkamál er veita sín á milli konur og karlar. Því heita þau mál várar. Hún hefnir og þeim er brigða.[3]
 

Nafn Várar birtist í rúnaáletrun sem fannst á trjábút nærri Bergen í Noregi og er talinn vera frá byrjun 14. aldar. Í áletruninni stendur:

 
Vár kennir mér víra
vitr úglaðan sitja[2]
 

„Vitur Vár víra“ þýðir í þessu samhengi vitur, skartklædd kona. Kvæðið hefur verið skýrt sem svo að höfundurinn sé að kvarta yfir því að konur eða hjónaband sé honum til ama; þ.e. lætur hann „sitja óglaðan“.[4]

Túlkanir

breyta

Sumir fræðimenn, meðal þeirra Andy Orchard, hafa dregið í efa að hjónabandsvígslan í Þrymskviðu þar sem vísað er til Várar sé í raun forn og hafi verið notuð í heiðnum brúðkaupum.[5] Britt-Mari Näsström telur að Vár hafi upphaflega verið annað nafn á Freyju en hafi síðar orðið til sem sjálfstæð gyðja.[6]

Textafræðingurinn Rudolf Simek telur að vænlegast sé að líta á gyðjurnar Vár, Ságu, Hlín, Sjöfn, Snotru, og Vör sem lauslega skilgreindar verndargyðjur kvenna sem beri hver um sig ábyrgð á tilteknu sviði einkalífsins. Greinileg skil séu milli verksviða þeirra, sem minni nokkuð á matrónur sem tilbeðnar voru í germanskri og keltneskri heiðni.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. „Þrymskviða“. Heimskringla. Sótt 25. apríl 2019.
  2. 2,0 2,1 „Ásynjur“. Ásatrúarfélagið. Sótt 25. apríl 2019.
  3. Snorri Sturluson. „Gylfaginning“. Snerpa. Sótt 25. apríl 2019.
  4. Macleod, Mindy. Mees, Bernard (2006). Runic Amulets and Magic Objects. Boydell Press. ISBN 1-84383-205-4, bls. 59.
  5. Orchard, Andy (1997). Dictionary of Norse Myth and Legend. Cassell. ISBN 0-304-34520-2
  6. Näsström, Britt-Mari (2003). Freyja - the great Goddess of the North. Harwich Port: Clock & Rose, 2003. First published: University of Lund, 1995. ISBN 1-59386-019-6, bls. 83.
  7. Rudolf Simek: Lexikon der germanischen Mythologie (Kröners Taschenausgabe. Band 368). 3., völlig überarbeitete Auflage. Kröner, Stuttgart 2006, ISBN 3-520-36803-X, bls. 368.