Uri Bronfenbrenner

Urie Bronfenbrenner (29. apríl 191725. september 2005) var bandarískur sálfræðingur en fæddur í Sovétríkjunum. Hann er þekktur fyrir kenningu í þroskasálfræði sem nefnd er Vistfræðikenningin. Vísindastörf hans og ráðgjöf við Bandaríkjastjórn átti þátt í að móta verkefnið Head Start árið 1965. Kenningar hans og rannsóknir áttu þátt í að breyta sjónarhorni í þroskasálarfræði.

Bronfenbrenner fæddist í Moskvu 29. apríl 1917 en flutti með fjölskyldu sinni fyrst til Pittsburgh í Pennsylvaníu og ári seinna í sveitahérað í New York fylki. Faðir hans vann sem taugasérfræðingur á spítala fyrir fólk með þroskahömlun. Bronfenbrenner stundaði nám við Cornell-háskóla og lauk grunnnámi í sálfræði og tónlist árið 1938 og meistaraprófi í menntunarfræðum frá Harvard árið 1940 og doktorsprófi í þroskasálarfræði frá Michigan-háskóla árið 1942. Hann gekk í bandaríska herinn daginn eftir að hann lauk doktorsprófi og var starfandi sálfræðingur á vegum hersins í seinni heimsstyrjöldinni. Þegar styrjöldinni lauk fór hann til starfa í nýopnaðu tilraunasálfræðiþjálfunastöð í Washington D.C. og síðan var hann háskólakennari við Michigan-háskóla í tvo ár og fór síðan til Cornell árið 1948. Rannsóknir hans í Cornell beindust að þroskasálfræði barna og hvaða áhrif félagsleg öfl hefðu á þroska. Bronfenbrenner var afkastamikill fræðimaður, hann skrifaði yfir 300 vísindagreinar og 14 bækur.

VistfræðikenninginBreyta

Bronfenbrenner taldi þróunarferli og þroskabraut einstaklinga mótast af samspili milli einstaklings og umhverfis. Kenning hans gerir ráð fyrir að mörg stig af umhverfislegum áhrifum geti haft áhrif á þroska barns, allt frá fólki og stofnunum í nánasta umhverfi til menningarafla sem ná yfir heila þjóð. Hann bætti síðar í kenningu sína hvaða áhrif tími hefði, tímamótaviðburðir eins og sérstakir atburðir og breytingar í menningu með því að bæta Chronosystem í kenninguna. Einnig endurnefndi hann kenningu sína og kallaði lífvistfræðikenningu (bioecological model) til að leggja áherslu á þátt lífrænna ferla í þroska. Hann leit hins vegar svo á að líffræði segði til um þroskamöguleika en félagsleg og umhverfisleg öfl réðu því hvort einstaklingurinn næði þeim þroska.

Head StartBreyta

Árið 1964 kom Bronfenbrenner fyrir bandaríska þingnefnd í tengslum við lög til að sporna gegn fátækt. Hann ráðlagði þá að mælingar á fátækt ættu að beinast að börnum til að minnka áhrif fátæktar á þroska þeirra. Þetta sjónarhorn var í andstöðu við ríkandi gildi þess tímabils sem taldi að þroski barna væri líffræðilegur og tengdist hvorki reynslu né umhverfi. Í framhaldi af þessu var honum boðið í Hvíta húsið að ræða við forsetafrúna Lady Bird Johnson og hann ræddi við hana um barnauppeldisaðferðir í öðrum löndum. Hann var svo settur í ríkisnefnd sem átti að þróa aðferð til að sporna gegn hamlandi áhrifum fátæknar á börn og jafna aðstöðumun þeirra og barna frá efnaðri heimilum. Bronfenbrenner fékk nefndina til að einbeita sér að fjölskyldum barna og samfélagi og þannig skapa betra umhverfi fyrir þroska.

TenglarBreyta